Fréttir 2018

Ókeypis heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum

 Ókeypis heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum

SÍBS Líf og heilsa býður íbúum í Vestmannaeyjum í heilsufarsmælingu fimmtudaginn 26. apríl næstkomandi í félagsheimilinu Kviku við Heiðarveg (3. hæð) kl. 12:00 til 17:00.

 

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Samtökum sykursjúkra, Hjartaheill og Samtökum lungnasjúklinga bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Fagfólk frá heilsugæslunni verður á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd.

 

Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í lýðheilsukönnun sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilsu.

Stuðningsfulltrúanámskeið

Stuðningsfulltrúanámskeið

 

Miðvikudagana 9. og 11. apríl kl. 17-21 mun Stuðningsnet Sjúklingafélagana halda námskeið fyrir verðandi Stuðningsfulltrúa. Stuðningsnet sjúklingafélaganna býður upp á jafningjastuðning fyrir fólk sem glímir við erfiða sjúkdóma og aðstandendur þeirra, en Hjartaheill ásamt 13 öðrum sjúklingafélögum mynda netið.

 

Á námskeiðinu er farið yfir helstu atriði sem þarft er að hafa í huga þegar veita á jafningjastuðning ásamt því að stuðningsfulltrúum stendur til boða handleiðsla og endurmenntun að loknu námskeiði.

 

Mikilvægt er að sækja um að gerast stuðningsfulltrúi á heimasíðu Stuðningsnetsins áður en námskeið hefst.  Umsjónaraðili Stuðningsnetsins mun hafa samband og taka viðtöl við þá sem sótt hafa um að gerast stuðningsfulltrúar í aðdraganda námskeiðsins. Auk þess mun viðkomandi sjúklingafélag boða stuðningsaðila á sinn fund til að fara yfir þjónustu og starfsemi félagsins.  Fyrir þá sem þegar hafa sótt um að gerast stuðningsfulltrúar og verið í sambandi við sitt félag þá má skrá sig á námskeiðið hér.

Rúmar 70 milljónir veittar félagasamtökum á sviði heilbrigðismála

Frá veitingu styrkja til félagasamtaka á sviði heilbrigðisþjónustu

Frá veitingu styrkja til félagasamtaka á sviði heilbrigðisþjónustu

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 72,6 milljónum króna í styrki til 29 félagasamtaka sem starfa á sviði heilbrigðismála. Auglýst var eftir styrkumsóknum í október sl. og bárust 44 umsóknir. Ráðherra hitti fulltrúa félagasamtakanna í gær við formlega afhendingu styrkjanna.

 

Styrkir sem þessir eru veittir árlega af safnliðum fjárlaga og fer um úthlutunina samkvæmt reglum heilbrigðisráðherra þar um. Veittir eru styrkir til verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum, stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Ekki eru veittir styrkir til verkefna sem hljóta styrki á fjárlögum, falla undir sjóði ráðuneytisins eða er sinnt á grundvelli samninga við ráðuneytið.

 

Við afhendingu styrkjanna ræddi Svandís um hve mikilvæg störf félagasamtaka sem þessara væru fyrir samfélagið og hve rík ástæða væri til þess að styðja við starfsemi þeirra, líkt og styrkir af þessu tagi gerðu mögulegt: „Við eigum að muna eftir þessu á hverjum degi og hafa hugfast að öll sú vinna sem fram fer innan vébanda þessara félaga er ekki sjálfsögð og hana ber að meta að verðleikum.“

 

Fjárhæðir styrkja að þessu sinni nema á bilinu 300.000 – 6.500.000 kr. Hæstu styrkina að þessu sinni; 6,5 milljónir króna, hlutu Rauði krossinn í Reykjavík, Gigtarfélag Íslands og Hjartaheill, landsamtök hjartasjúklinga.

 

Meðfylgjandi er listi yfir félögin sem hlutu styrk að þessu sinni, fjárhæðir styrkjanna og til hvaða verkefna þeir eru ætlaðir. Yfirlit um styrkveitingarnar

 

Stjórn- og starfsmenn Hjartaheilla þakka hjartanlega fyrir styrkinn sem mun örugglega koma sér vel í baráttu Hjartaheilla við skæðasta sjúkdóm 21. aldarinnar – hjartasjúkdóminn sem leggur 700 til 800 Íslendinga af velli árlega eða um 40% allra dauðsfalla.