Aðstandendur eigi að virða líffæragjöf

Aðstandendur eigi að virða líffæragjöf

 

Embætti landlæknis, Landspítalinn og Siðmennt gera athugasemd við orðalag í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra. Orðalagið snýr að því að vandamenn geti lagst gegn brottnámi á líffærum úr látnum manni jafnvel þótt hann sjálfur hafi lýst sig samþykkan því. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram á þingi.


Alls hafa borist sjö umsagnir við frumvarpið og þeir sem gera athugasemd virðast hnjóta um sama orðalagið sem fram komi bæði í frumvarpinu sjálfu og í greinargerðinni.

 

Landlæknisembættið bendir á síðustu setninguna í fyrstu og annarri málsgrein annarrar greinar í frumvarpinu: „Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því"; og síðustu málsgreinina í greinargerð I, " Einnig er lagt til að óheimilt verði að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því. Gildir einu þótt hinn látni hafi lýst sig samþykkan því.“

 

Umsögn biskups Íslands er sú eina sem tekur undir það sjónarmið að vandamenn geti komið í veg fyrir brottnám líffæra úr látnum einstaklingi. Í umsögn biskups segir meðal annars að biskup taki undir það sjónarmið að lögunum verði breytt í „ætlað samþykki“ enda leggist nánasti vandamaður hins látna ekki gegn líffæragjöfinni.“

 

Siðmennt leggur í sinni umsögn til brottfall á málsgreininni um að nánasti vandamaður geti lagst gegn brottnámi líffæra úr látnum einstaklingi. Þá feli það í sér virðingarleysi fyrir hinum látna að ganga gegn vilja hans. Líffæragjöf eigi ekki að fara eftir tilviljanakenndum vilja nánasta aðstandanda og höfnun skuli rökstyðja með gildum rökum. Embætti landæknis segir að það ætti að vera forgangsatriði með lögunum að tryggja að vilji hins látna nái fram að ganga. Embættið leggur til að gerð verði breyting þannig að aðstandandi geti haft aðkomu í þeim málum þar sem vilji hins látna er ekki þekktur.

 

Landspítalinn segir í sinni umsögn að tíðni líffæragjafa sé hærri þar sem lög feli í sér ætlað samþykki. Þá létti ætlað samþykki á aðstandendum sem standi frammi fyrir þungbærri ákvörðun.

 

Rétt eins og Landlæknisembættið og Siðmennt telur Landspítalinn umhugsunarvert að flutningsmenn frumvarpsins leggi til að aðstandendur geti lagst gegn brottnámi líffæra jafnvel í þeim tilvikum þar sem hinn látni hafi lýst sig samþykkan. Það hljóti að vera forgangsmál að vilji hins látna nái fram að ganga. Landpítali hvetur til endurskoðunar á þessu í meðförum þingsins.

 

Þá telur Landspítalinn áríðandi að endurskoða þá afstöðu sem fram komi í frumvarpinu að gera það óheimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama ósjálfráða einstaklinga. Það hljóti að liggja beinast við að nánustu aðstandendur taki þá ákvörðun á sama hátt og gert sé í dag, bæði hér á landi og erlendis. Áríðandi sé að endurskoða þetta. Undir þetta tekur Embætti landlæknis.

 

RUV 4. mars 2018

Submit to Facebook