2017 2017

Rannsóknarstöð Hjartaverndar efnir til landssöfnunar þann 17. nóvember.

landss

Rannsóknarstöð Hjartaverndar efnir til landssöfnunar þann 17. nóvember.

Rannsóknarstöð Hjartaverndar efnir til landssöfnunar þann 17. nóvember. Yfirskrift söfnunarinnar er Finnum fólk í lífshættu og tilefnið er að Hjartavernd hefur þróað nýtt verkfæri eða „viðvörunarkerfi“ sem getur greint æðakölkunarsjúkdóm á frumstigi á mun nákvæmari hátt en hingað til hefur verið mögulegt. Með viðvörunarkerfinu má koma í veg fyrir varanlegar líffæraskemmdir í hjarta og heila sem orsakast að stórum hluta af æðakölkun.  Markmið okkar er að uppræta að miklu leyti ótímabær áföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi. 
Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta ástæða ótímabærra dauðsfalla í íslensku samfélagi.  Rúmlega 200 manns á ári látast hér fyrir aldur fram vegna sjúkdóma í hjarta- og æðakerfi.  Að auki lifa tugir þúsunda einstaklinga með afleiðingar áfalla sem leiða til verulegra skertra lífsgæða.  Með viðeigandi forvarnaraðgerðum hefði verið hægt að koma í veg fyrir mikinn meirihluta þessara áfalla og það væri stór ávinningur fyrir þá einstaklinga sem haldast heilbrigðir fram á efri ár en einnig gríðarlegur sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið allt.   
Viðvörunarkerfið er gjöf Hjartaverndar til þjóðarinnar á fimmtíu ára afmæli samtakanna.

Þeir sem hafa hug á að styrkja okkur geta hringt eða sent sms í:

9071502 fyrir 2.000.- kr.

9071505 fyrir 5.000.- kr.

9071508 fyrir 8.000.- kr.

Einnig er hægt að leggja styrktarupphæð beint inn á bankareikning söfnunarinnar  0111-26-4013 kt. 600705-0590

Með kærri þökk

Hjartavernd 

Það hefði ekki þurft að fara svona

Karl Andersen prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar

Karl Andersen prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar

 

Það hefði ekki þurft að fara svona. Luther var 55 ára og við ágæta heilsu. Hann var í góðu starfi, átti ástríka eiginkonu og tvö uppkomin börn. Hann stóð í skilum við guð og menn og var í stuttu máli hamingjusamur. Ekkert sem hann þurfti að hafa áhyggjur af í sjálfu sér. Álagið var að vísu mikið og hann vann allt of langan vinnudag en brátt sá fyrir endann á afborgunum á húsnæðislánunum og hann var farinn að hlakka til að setjast í helgan stein og sinna áhugamálunum. Fyrsta barnabarnið var á leiðinni.

 

Luther hafði verið að finna fyrir þreytu og orkuleysi undanfarið. Það gæti nú bara verið vegna álagsins en einhvern veginn var eins og öll orka væri úr honum eftir vinnudaginn og þetta fór alltaf versnandi. Hann var ekkert að ræða það sérstaklega við fjölskylduna en ákvað að fara út og reyna svolítið á sig. Sjá hvort þetta væri nokkuð. Það gekk í sjálfu sér ágætlega en hann varð talsvert móður og fannst hann ætti að komast hraðar yfir.

 

Svo var ekki laust við að það væri einhver verkur þarna sem leiddi upp í hálsinn en hann hvarf fljótt og fór ekki út í handlegginn svo þetta hlaut nú að vera í lagi. Hann hafði aldrei reykt og notaði áfengi hóflega. Hann hafði að vísu bætt talsvert á sig á seinni árum og það var talsvert um hjartasjúkdóma í fjölskyldunni. En hann leiddi þetta hjá sér og gleymdi þessu bara.

 

Luther vaknaði um nótt. Verkurinn var vondur. Hann var kaldsveittur og varð flökurt. Hann gat engan veginn losnað við þessi ónot. Þegar sjúkrabíllinn kom missti hann meðvitund. Hann frétti síðar að hann hefði dáið en verið endurlífgaður með rafstuði.

 

Þegar hann kom á Hjartagáttina á Landspítalanum var hann strax tekinn í hjartaþræðingu þar sem stífluð kransæð kom í ljós. Hún var opnuð með belg og stoðnet sett í æðina. Hann þurfti að liggja á hjartadeildinni í fimm daga.

 

Þegar hann kom heim var ekkert eins og áður. Hann mátti ekki fara í vinnuna fyrr en eftir 6 vikur og utanlandsferðin sem hann hafði verið að undirbúa varð að bíða betri tíma. Hann þurfti að huga að mataræðinu og hreyfa sig reglulega og taka einar fimm mismunandi tegundir hjartalyfja. Verst var þó að sætta sig við að vera orðinn hjartasjúklingur. Þessi stífla hafði skilið eftir sig drep í hjartanu. Skemmd sem ekki mundi ganga til baka. Hann varð þó að teljast heppinn. Hann var þó lifandi. En ekkert var eins og áður.

 

Algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla
Á Íslandi eru um 25 þúsund einstaklingar sem lifa við afleiðingar sjúkdóma í hjarta- og æðakerfi.

 

Þetta eru hjartaáföll og heilablóðföll, kransæðaskurðaðgerðir og kransæðavíkkanir. Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma leiða þessi áföll til langvinnra sjúkdóma sem draga úr starfsþreki og lífsgæðum þeirra sem fyrir þeim verða. Í langflestum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessi áföll. Af fimmtíu ára rannsóknarstarfi vitum við að mestu leyti hvað veldur hjarta- og æðasjúkdómum. Við þekkjum áhættuþættina, vitum hvernig er hægt að forðast þá og meðhöndla.

 

Engu að síður eru hjarta- og æðasjúkdómar ennþá algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla á Íslandi.

 

Í Hjartavernd er nú að hefjast átak í forvörnum sem við köllum „Heilbrigt hjarta á nýrri öld“. Í samstarfi við heilsugæslustöðvar um allt land hyggjumst við nýta þá þekkingu sem rannsóknir okkar hafa skapað til að koma í veg fyrir stóran hluta þessara ótímabæru áfalla. Endurbætt áhættureiknivél sem þróuð hefur verið í Hjartavernd mun verða notuð á heilsugæslustöðvum um allt land og einnig verða aðgengileg fyrir almenning á netinu. Í völdum tilvikum verða einstaklingar rannsakaðir nánar með ómskoðun af hálsæðum. Þannig má greina æðakölkunarsjúkdóm á frumstigi og beita fyrirbyggjandi meðferð til að hindra framgang sjúkdómsins þegar það á við.

 

Luther er kominn aftur til vinnu. Eftir endurhæfingu hefur hann endurheimt starfsþrekið að miklu leyti. Hann fær þó ekki að sinna sömu krefjandi verkefnum og áður.

 

Hann vildi óska að hann hefði farið í skoðun áður en áfallið kom. Betra er heilt en vel gróið segir einhvers staðar. Aðallega óskar hann þess þó að barnabörnin hans sleppi við að veikjast fyrir aldur fram af sjúkdómi sem hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir.

 

Fréttablaðið 9. nóvember 2017

Það er einn í hverri fjölskyldu

 

Það er að minnsta kosti einn í hverri fjölskyldu. Margir eru á besta aldri. Urðu að hætta að vinna eða fara í léttari störf fyrr en þeir ætluðu sér. Þetta er stór hópur, um 25 þúsund manns. Um það bil jafn margir og búa á öllu norðausturlandi. Þeir eiga það sameiginlegt að lifa með afleiðingum af hjarta- eða æðasjúkdómi sem þeir fengu fyrir aldur fram. Sjúkdómi sem er ólæknandi og þeir lifa með afleiðingum hans það sem eftir er.

Við þekkjum þennan sjúkdóm. Við höfum rannsakað hann í marga áratugi. Við vitum að hann kemur frekar fyrir hjá fólki sem reykir, er með háar blóðfitur í blóði, háþrýsting eða sykursýki. Hann hefur tilhneigingu til að koma meira fyrir í sumum fjölskyldum en öðrum. Við vitum líka að þeir þættir sem stuðla að hjarta- og æðasjúkdómum eru að miklu leyti í okkar eigin höndum að stjórna. Með heilbrigðum lífsstíl, reglubundinni hreyfingu og fjölbreyttu og hollu mataræði má sennilega koma í veg fyrir stærstan hluta þessara sjúkdóma.

Verulegur árangur
Það hefur náðst verulegur árangur. Nýjum tilfellum kransæðastíflu hefur fækkað um 80% á síðustu þremur áratugum og dauðsföllum hefur fækkað ennþá meira. Þetta skýrist að mestu af því að reykingamönnum hefur fækkað, blóðþrýstingur hefur lækkað og kólesteról í blóði hefur lækkað hjá þjóðinni. Horfur þeirra sem fá hjartaáfall eru sömuleiðis mun betri í dag en þær voru fyrir tveimur til þremur áratugum. Sífellt fleiri lifa fram á efri ár með afleiðingum áfallanna. Það veldur ekki aðeins aukinni byrði langvinnra sjúkdóma á samfélagið heldur er um að ræða varanlega færniskerðingu og skert lífsgæði þessara einstaklinga sem hafa orðið fyrir hjarta- og æðasjúkdómum.

Hvað er til ráða? Hvernig getum við komið í veg fyrir að fólk á besta aldri veikist af hjarta- og æðasjúkdómum? Hjartavernd hefur útbúið áhættureikni sem metur líkurnar á því að ákveðinn einstaklingur fái kransæðasjúkdóm á næstu 10 árum. Þessi áhættureiknir finnur þá sem eru í mikilli áhættu og þá má beita forvarnaaðgerðum til að draga úr þeirri áhættu. 

Hins vegar er stór hópur fólks sem mælist í meðal- eða lítilli áhættu með þessu áhættumati og fær því enga sérstaka forvarnameðferð. Þó svo að áhætta hvers og eins í þessum hópi sé ekki há, þá eru þeir svo yfirgnæfandi margir að umtalsverður fjöldi þeirra sem fá kransæðastíflu er úr þeirra hópi.

Nýr áhættureiknir
Til að bregðast við þessu og greina æðakölkunarsjúkdóminn á frumstigi hefur Hjartavernd útbúið nýjan áhættureikni sem er betrumbætt útgáfa af hinum fyrri. Nýi áhættureiknirinn er næmari leið til að greina forstig æðasjúkdóms með því að beita í völdum tilvikum ómskoðun af hálsæðum. Það er ódýr rannsókn sem ekki kostar neina geislun og er óþægindalítil. Greinist æðakölkun í hálsæðum eru verulegar líkur fyrir því að sjúkdómurinn finnist einnig í kransæðum. Með því að beita einfaldri lyfjameðferð með hjartamagnýl og blóðfitulækkandi lyfjum má hefta framrás sjúkdómsins og draga úr líkum á áföllum í framtíðinni.

Hjartavernd er nú að hefja forvarnaátak í samvinnu við heilsugæslustöðvar um allt land. Fyrirhugað er að allir heilsugæslulæknar geti mælt og metið heilbrigða einstaklinga með þessum hætti þegar þeir leita til heilsugæslunnar. Í þeim tilvikum þegar æðakölkun greinist má beita fyrrnefndri lyfjameðferð sem bætir horfur einstaklingsins. Þessi nálgun hefur aldrei verið reynd áður í heiminum. Rannsóknir okkar í Hjartavernd benda þó til þess að það sé tímabært að stíga þetta skref til þess að sú þekking sem við höfum tekið þátt í að skapa um tilurð hjarta- og æðasjúkdóma verði hagnýtt í þágu þjóðarinnar.

Landssöfnun
Til að fjármagna þetta átak efnir Hjartavernd til landssöfnunar 17. nóvember nk. undir kjörorðinu „Heilbrigt hjarta á nýrri öld“. Verndari söfnunarinnar er forseti Íslands, Dr. Guðni Th. Jóhannesson. Söfnunin er unnin í samvinnu við 365 miðla og með stuðningi fjölmargra einstaklinga og fyrirtækja á landinu. Við sem að þessu forvarnaátaki stöndum berum þá von í brjósti að með þessari aðferðarfræði megi viðhalda heilbrigði landsmanna og draga úr ótímabærum dauðsföllum og langvinnum veikindum af völdum sjúkdóma sem má í flestum tilvikum koma í veg fyrir.

Höfundur er prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar.

andersen karl

Raunverulegir bólgusjúkdómar oftast langvinnir

RagnarFreyr2

Páll Kristinn Pálsson ræðir við Ragnar Frey Ingvarsson lyf- og gigtarlækni, en gigtarlæknar eru þeir sem sérhæfa sig í bólgumí mannslíkamanum.

SÍBS BLAÐIÐ 33. árg. 3. tbl. október 2017

„Við búum við íslenskt tungutak þar sem ýmsir sjúkdómar eru flokkaðir sem bólgusjúkdómar en þegar grannt er skoðað er ekki um neinar bólgur að ræða,“ segir Ragnar Freyr þegar ég spyr hvar bólgur sé helst að finna.„ Hugtakið bólga í læknisfræðinni er alveg ákveðið skilgreint fyrirbæri. Það er að ónæmiskerfi líkamans ræðst á eitthvað sem það túlkar sem óvin sinn, hvort sem það er eigin vefur, framandi vefur, bakteríur, veirur, sveppir eða æxli. Við þá árás myndast ákveðinn þroti, fyrirferð, hiti, verkur og svo gjarnan einhver starfræn truflun. Þetta er það sem kallast bólga í skilningi læknisfræðinnar.“

Bólga og ekki bólga

Ragnar Freyr bendir á að enska orðið yfir gigtarlækni sé rheumatologist.

„En rheuma er latneska orðið yfir bólgu þannig að rheumatologist er sá sem hefur menntað sig til að fást viðbólgur af einhverju tagi. Á íslensku heitir þetta gigtarlæknir og á íslensku er talað um gigt í víðum skilningi. Þannig fæ ég óskir um að sinna ýmsum vandamálum sem fólk skilur sem bólgu en eru það í rauninni ekki. Þannig má segja að þó að einhver bólguferill sé í gangi þegar um slitgigt er að ræða þá er slitgigt ekki bólgusjúkdómur sem svarar hefðbundinni bólgueyðandi meðferð, til dæmis eru sterar hálfgagnslausir, bólgueyðandi lyf létta kannski eitthvað á einkennum, krabbameinslyf gagnast lítið og líftæknilyf hafa ekki sýnt fram á gagnsemi. Allt eru þetta lyf sem virka mjög vel þegar maður er að fást við hefðbundna bólgusjúkdóma eins og liðagigt, hryggikt, rauða úlfa, æðabólgur eða fjölvöðvabólgur. Þá gagnast lyfin enda er í þeim tilfellum verið að ráðast á bólguferla sem við þekkjum vel.

Gigtarlæknar eru oft spurðir álits á sjúkdómi sem kallaður er vefjagigt og þar hefur ennþá ekki tekist að sýna fram ámælanlega bólgu af neinu tagi. Þar er í raun um verkjasjúkdóm að ræða sem upplifist í stoðkerfinu. Vefjagigt og slitgigt eru miklu algengari en eiginlegir bólgusjúkdómar. Af þeim sem ná 100 ára aldri eru allir með einhverja slitgigt, allir glíma sem sé við eitthvað slit. Og hvað varðar vefjagigt þá myndi ég halda að um 4% kvenna og 0,4% karla ættu við það vandamálað stríða á Íslandi í dag. Til samanburðar þá eru um 0,7-1% íslendinga með hryggikt og liðagigt.

Það sem ég er að segja er að samkvæmt íslenskum málvenjum þá virðist margt vera bólga sem er það ekki. Vöðvabólga er til dæmis ekki bólga, manni er bara illt og hefur kannski meitt sig, tognað, beitt sér eitthvað vitlaust eða sofið illa og vaknað með hálsríg eða eitthvað slíkt. Það má því kannski segja að okkur læknum hafi gengið illa að koma til skila til almennings hvað sé bólga og hvað sé eitthvað annað. “

Rétt eða röng meðferð

Ertu þá að segja að fólk hafi almennt rangan skilning á þvíhvað sé bólga?

„Ég vil frekar segja að okkur læknum hafi gengið illa að útskýra hvað þessir hlutir séu og hvað gagnast til að bjarga því. Ef fólk er með svokallaða vöðvabólgu þá eru lyf nánast gagnslaus. En ef fólk er með liðagigt þá kemst það ekki langt án lyfja. Mér hefur lengi vel fundist að læknavísindin hafi reynt að leysa mörg vandamál með lyfjum þar sem lyfja er ekki þörf. Ef fólk er með slitgigt, vefjagigt eða langvinna stoðkerfisverki, vöðvabólgu eða slíkt, finnst mér ekki eiga að beita kröftugum lyfjum, sem alls kyns aukaverkanir geta fylgt, þegar ósannað er að þau geri eitthvert gagn. Í slíkum tilfellum finnst mér miklu frekar eiga að beina fólki inn á brautir heilbrigðrar hreyfingar, sjúkraþjálfun, útiveru, gönguferða, sundferða, jóga – við ættum að ræða við það um svefn og svefnráðgjöf, andlega líðan, streitu og fleira sem tengist lífsstíl fólks.

Þegar fólk kemur á stofuna til mín spyr ég það gjarnan hversu oft það hreyfi sig í hverri viku. Með því gef ég til kynna að það að hreyfa sig ekki sé ekki valmöguleiki. Maður á að hreyfa sig að minnsta kosti í tvo og hálfan klukkutíma á viku þannig að maður svitni og púlsinn fari úr hvíldarpúlsi í æfingapúls. Kostirnir við það eru afar vel sannaðir, bæði hvað varðar betri svefn, vöðvastarfsemina, hjartað og æðarnar, minnkandi líkum á heilabilun, parkinsonsjúkdómi og svo framvegis. Hreyfing er það sem við ættum að vera að predika lon og don fyrir fólki og þá er líka mikilvægt að fólk finni sér hreyfingu sem því þykir skemmtilegt að stunda.

Það skiptir engu máli hvort einstaklingur komi til mín með hryggikt, þvagsýrugigt, slitgigt, vefjagigt eða vöðvabólgu. Lyfjameðferð getur verið mjög mismunandi, allt frá engum lyfjumupp í að beita þungum krabbameinslyfjum til líftæknilyfja en í öllum tilfellum á fólk að hreyfa sig, já líka þótt fólk sé með alla liði bólgna. Það skiptir alveg ótrúlega miklu máli.“

Alvöru matur

Sumir segja að mataræðið skipti meira máli en hreyfingin – hvert er þitt álit?

„Það fer eftir því hvað maður er að meðhöndla. Ef maður glímir við offitu má segja að sá sem þarf að hreyfa sig til að passa upp á þyngd sína verði að skoða mataræði sitt nánar. Ef maður er of þungur, með efnaskiptavillu, þvagsýrugigt eða sykursýki þá er ljóst að fókusinn þarf að vera á mataræðið. Það er vitað mál að ruslfæði, transfitusýrur, kolvetnaþungur matur með skjótunnum kolvetnum og auðbrenndum, myndar bólgu í líkamanum sé þessa neytt í miklum mæli.

Margar áhugaverðar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta. Þetta veldur insúlínviðnámi sem keyrir áfram hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og þvagsýrugigt, en hið síðastnefnda er reyndar mín sérgrein.

Ég geng eins og margir vita oft undir heitinu Læknirinní eldhúsinu og er því oft spurður um tengsl mataræðis og sjúkdóma. Í eldhúsinu er ég fyrst og fremst lífsnautnaseggur, hedónisti – en segi alltaf að fólk eigi að borða alvöru mat. Það sem maður leggur sér til munns á að líta út fyrir að vera eitthvað sem maður skilur að sé matur. Fiskur á að koma upp úr hafinu og fiskborði í verslun en ekki einhverjum pappakassa umlukinn einhverju gumsi í plastpoka, þá er hann orðinn fullunnin fæða. Grænmeti á að líta út eins og grænmeti, ekki koma mulið í töfluformi. Að sama skapi eigum við að borða ávexti en ekki þamba ávaxtasafa.

Maður á að borða alvöru mat, raunverulega fæðu. Það er hollt og það minnkar byrði bólgu í líkamanum. En hvort mataræðihafi áhrif á sjúkdóma eins og liðagigt hefur ekki gengið vel að staðfesta með rannsóknum. Við vitum þetta ekki alveg enn þá. Við vitum hins vegar að þeir sem minnka kolvetni í fæðu sinni geta minnkað líkur á þvagsýruköstum. Ég ráðlegg sem sé öllum með þvagsýrugigt að skerða neyslu kolvetna sem allra mest.“

Góð lyf ekki nóg

En er ekki málið að það þurfi hvoru tveggja, hreyfingu og holltmataræði – annað sé ekki nóg?

„Jú, algjörlega. Þetta helst í hendur. Hreyfing er frekar máttlaus ein og sér ef um ofþyngd er að ræða, það verðurað taka mataræðið einnig með í reikninginn. En þeir sem eru þungir og vilja ekki grennast eiga líka að hreyfa sig út af öllum hinum jákvæðu áhrifunum sem hreyfingin hefur á líkamsstarfsemina í heild.

Það má segja að við séum komin í hring. Einu sinni höfðum við bara hreyfingu og mataræði. Síðan kom nútímalæknisfræði með öllum sínum ráðum, aðgerðum og lyfjum. En núna erum við farin að horfa aftur á hreyfinguna og mataræði ogviðurkenna að góð lyf eru ekki nóg til að sigrast á heilsufarsvandamálum. Nútímalæknisfræðin er frábær og nauðsynlegí mörgum tilfellum en við megum ekki gleyma grunnstoðum góðrar heilsu, að þurfa alltaf að gæta þess að hreyfa sig og ástunda hollt mataræði.“

Krónískir bólgusjúkdómar

Er mikil hætta á því að bólgur leiði til langvinnra sjúkdóma?

„Gigtarsjúkdómar eru nánast allir krónískir sjúkdómar. Ef við tökum bara þá sjúkdóma sem ég meðhöndla sem gigtarlæknirþá eru þeir allir krónískir. Mér hefur því miður aldrei tekist að lækna neinn af gigtarsjúkdómi en hefur þó tekistað minnka einkenni hjá mörgum sjúklingum. Við vitum að ómeðhöndlaður gigtarsjúkdómur þýðir að bólgan er stjórnlausí líkamanum. Það veldur hjarta- og æðasjúkdómum, nýrnavandamálum og svo framvegis. Til eru afbragðsgóðar faraldsfræðilegar rannsóknir sem sýnt hafa að gigtarsjúklingar eru í tvöfaldri og allt upp í áttfaldri áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma seinna á ævinni hafði þeir verið með virkan bólgusjúkdóm.

Það má segja að ein megin áhersla gigtarlækninga gangi út á að kveða niður bólgur með öllum tækjum og tólum sem við höfum yfir að ráða. Við viljum ekki leyfa liðagigtarsjúklingi að ganga lengi með ómeðhöndlaðan sjúkdóm, sama á við um hrygggikt, rauða úlfa, æðasjúkdóma, fjölvöðvagigt og fleira. Afleiðingarnar af því að gera ekki neitt geta verið mjög alvarlegar fyrir sjúklinginn. Bólgu á sem sagt ávallt að kveða niður eins fljótt og maður getur.“

Gegn betri vitund

Er fólk almennt meðvitað um þessa hluti þegar það kemur til þín – eða ríkir vanþekking í kringum bólgusjúkdóma?

„Fólk er flest meðvitað um hvað þarf til þess að lifa heilbrigðu lífi. En vissulega er fólk misjafnlega móttækilegt fyrir því að gera það að parti af sínu lífi. Mér finnst til dæmis stórfurðulegt að einhverjir skuli enn reykja í dag, bæði meðtilliti til vitneskju okkar um skaðsemi reykinga og svo allra þeirra annarra leiða sem hægt er að fara til að neyta nikótíns. Af hverju að kveikja í sígarettu og anda að sér reyknum þegar hægt er að fá sér nikótíntyggju, alls konar úða, töflur og veipur í staðinn. Þarna er um að ræða margt fólk sem hefur heyrt boðskapinn en ekki meðtekið hann í raun og veru. Sama má segja um mataræði og hreyfingu – fólk tekur iðulega lélegar ákvarðanir þótt það viti betur.

Fólk þarf líka að átta sig á því hvað því hentar sjálfu. Við erum öll svo ólík og fáumst við svo ólíka hluti – samt er svo rík tilhneiging til að reyna að steypa öllum í sama mótið, að halda því fram að eitt gildi fyrir alla þegar kemur til dæmis að mataræði og öðrum þáttum varðandi lífsstíl. Það er ekki hægt að gefa út einn matseðill fyrir alla – börn, unglinga, fullorðið fólk, gamalmenni, sjúklinga, heilsuhrausta og svo framvegis. Það getur bara ekki staðist. Ég held að Michael Pollan hafi sagt þetta best þegar hann dró alla næringarfræði saman í eina setningu: „Eat real food, mostly plants and nottoo much.“ Sem sagt að fólk eigi almennt séð að borða alvörumat, mest úr plönturíkinu og gæta hófs í neyslunni.“

Mikilvægt að greina bólgusjúkdóma snemma

Hvað á fólk að gera ef það telur sig vera með bólgur?

„Líkt og gildir um öll önnur heilsufarsmál á það byrja á því að fara til heimilislæknis síns og láta skoða sig. Það er mjögmikilvægt að greina fólk með bólgusjúkdóma snemma, því ef það er með raunverulegan bólgusjúkdóm þarf það að komast sem fyrst til gigtarlæknis til að fá viðeigandi meðferð til að aftra því að líkamsvefir skemmist, hreyfigeta minnki, það verði óvinnufært og glati þar með lífsgæðum sínum. Þá má ráðleggja þeim sem greinast með langvinnt verkjavandamál að huga fyrst og fremst að lífstíl sínum með tilliti til hreyfingar, sjúkraþjálfunar, góðum svefnvenjum og huga sérstaklega að andlegri heilsu.“

 

SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili

SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili

 

Menntamálastofnun hefur samþykkt umsókn SÍBS um að hljóta viðurkenningu sem framhaldsfræðsluaðili í samræmi við lög 27/2010 um Framhaldsfræðslu. Í slíkri viðurkenningu felst staðfesting á að starfsemi fræðsluaðilans uppfylli almenn skilyrði lagana.

 

SÍBS bætist þar með í fjölbreyttan hóp framhaldsfræðsluaðila á Íslandi og getur tekið enn virkari þátt í þróun á námi fyrir fullorðina með áherslu á forvarnir og lýðheilsu. SÍBS býður upp á fjölbreytt námskeið tengd heilsu og lífsstíl þar á meðal Reykjalundarnámskeið SÍBS sem eru aðlöguð útgáfa af námskeiðum sem notuð eru í endurhæfingu á Reykjalundi.

 

SÍBS hefur jafnframt haldið utan um verkefnið "Stuðningsnet sjúklingafélaganna" og í tengslum við það boðið upp á námskeið fyrir stuðningsfulltrúa. Í undirbúningi er námsskrár fyrir lífsstílsþjálfun og námskeið fyrir lífsstílsþjálfara, byggða á fyrirmynd frá Smitsjúkdóma- og forvarnarstofnun Bandaríkjanna í samstarfi við Heilsuborg, SidekickHealth og Ferðafélag Íslands með stuðningi frá Lýðheilsusjóði.

SÍBS Líf og heilsa á Norðurlandi - vestra

SÍBS Líf og heilsa á Norðurlandi - vestra

 

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Hjartaheill, Samtökum lungnasjúklinga og Samtökum sykursjúkra bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs.

 

Boðið verður upp á heilsufarsmælingar á Norðurlandi - vestra dagana 16. til 18. október n.k.:

Mánudagur 16. október 2017

kl. 09:00 til 12:00 Hvammstangi, heilsugæslan, Nestún 1
kl. 14:00 til 17:00 Blönduós, heilsugæslan, Flúðabakka 2

 

Þriðjudagur 17. október 2017
kl. 10:00 til 11:00 Hofsós, heilsugæslan, Suðurbraut 15
kl. 14:00 til 16:00 Skagaströnd, heilsugæslan, Ægisgrund 16

 

Miðvikudagur 18. október 2017
kl. 08:00 til 15:00 Sauðárkrókur, heilsugæslan, Sauðárhæðum

 

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan, en ekki einungis að vera laus við sjúkdóma og örorku. Fyrir einstaklinginn skiptir heilsan öllu. Langvinnir sjúkdómar valda næstum 9 af hverjum 10 dauðsföllum í okkar heimshluta, og tengjast þeir flestir lífsstíl. Forvarnir eru eina skilvirka leiðin til að stemma stigu við þessu. Að forða einum einstaklingi frá tíu ára sjúkdómsferli eða ótímabærum dauða skilar samfélaginu yfir 70 milljón króna sparnaði mælt í vergri landsframleiðslu á mann. Heilbrigði er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélagið.

 

Til þess að kortleggja hvar aðgerða er þörf í forvarnamálum er samhliða mælingum á blóðgildum lögð fyrir könnun um heilsufar og lífsstíl sem tekur á helstu áhrifaþáttum langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. SÍBS Líf og heilsa má þannig nota til að meta stöðuna í hverju sveitarfélagi, stofnun eða vinnustað fyrir sig. Um leið hlýtur hver einstaklingur innsýn í hvað betur megi fara í eigin heilsu og lífsstíl.

Vel heppnuð mælingarferð um Norðurland lokið

mælingar

Hluti af mælingarteyminu.


SÍBS Líf og heilsa forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl - SÍBS, Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga og Samtökum sykursjúkra færa íbúum á Ólafsfirði, Siglufirði, Dalvík og Akureyri hjartans þakkir fyrir frábærar móttökur, en yfir 500 manns voru mældir og allstaðar tekið vel á móti okkur.


Næst á dagskrá eru mælingar á Hvammstanga, Blönduósi, Hofsósi, Skagaströnd og Sauðárkróki. Hlökkum til að sjá ykkur þar.

Konur og heilbrigði

Konur og heilbrigði

 

Konur og heilbrigði
Opinn fræðslufundur í tilefni aldarafmælis Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 14. október, kl. 14:00 til 15:30 í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, 101 Reykjavík.

 

Ertindi flytja:
Erla Dóris Halldórsdóttir, hjúkrunar- og sagnfræðingur, Fæðingarhjálp og heilbrigði kvenna.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor, Ögurstundir heilsufars
Þórunn Rafnar, erfðafræðingur, Erfðir brjóstakrabbameins
Kári Stefánsson, læknir og erfðafræðingur, Aldur móður og auðna barna

 

Sjá nánar á vef Íslenskrar erfðagreiningar www.decode.is

SÍBS Líf og heilsa á Norðurlandi

logonorurland

 

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS, Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga og Samtökum sykursjúkra bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs.

 

Í byrjun október verður boðið upp á mælingar á Norðurlandi:

Fimmtudagur 5. október 2017
kl. 15–17      Ólafsfjörður – Heilsugæslan Hornbrekku

 

Föstudagur 6. október 2017
kl. 9–12         Siglufjörður – Heilsugæslan Hvanneyrarbraut 37 
kl. 15–18       Dalvík –  Berg menningarhús

 

Laugardagur 7. október 2017
kl. 10–17       Akureyri – Heimahjúkrun heilsugæslunnar, Skarðshlíð 20 (Húsnæði Hvítasunnukirkjunnar)

 

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan, en ekki einungis að vera laus við sjúkdóma og örorku. Fyrir einstaklinginn skiptir heilsan öllu. Langvinnir sjúkdómar valda næstum 9 af hverjum 10 dauðsföllum í okkar heimshluta, og tengjast þeir flestir lífsstíl. Forvarnir eru eina skilvirka leiðin til að stemma stigu við þessu. Að forða einum einstaklingi frá tíu ára sjúkdómsferli eða ótímabærum dauða skilar samfélaginu yfir 70 milljón króna sparnaði mælt í vergri landsframleiðslu á mann. Heilbrigði er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélagið.

 

Til þess að kortleggja hvar aðgerða er þörf í forvarnamálum er samhliða mælingum á blóðgildum lögð fyrir könnun um heilsufar og lífsstíl sem tekur á helstu áhrifaþáttum langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma.  SÍBS Líf og heilsa má þannig nota til að meta stöðuna í hverju sveitarfélagi, stofnun eða vinnustað fyrir sig. Um leið hlýtur hver einstaklingur innsýn í hvað betur megi fara í eigin heilsu og lífsstíl.

Heilsufarsmælingar Norðurlandi

Líf og heilsa

Heilsufarsmælingar Norðurlandi

 

SÍBS, Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga og Samtök sykursjúkra í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnun Norðurlands munu bjóða Norðlendingum ókeypis heilsufarsmælingu dagana 5.til 7. október n.k.

 

Mælingarnar ná til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur. Þátttakendum gefst kostur á að svara lýðheilsukönnun.

 

Hjúkrunarfræðingur frá heilsugæslunni verður á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd.