2017 2017

Áramótakveðja frá Hjartaheill

Áramótakveðja Hjartaheilla

 

Hjartaheill sendir öllum félagsmönnum sínum, stuðningsaðilum sem og öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs með hjartans þakklæti fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.

Jólakveðja frá Hjartaheill

Gleðilegt nýtt ár og farsælt komandi ár.

 

Hjartaheill óskar öllum landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með hjartans þakklæti fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.

Hlutu heiðursmerki Hjartaheilla 2017

Hlutu heiðursmerki Hjartaheilla 2017

 

Heiðursfélagar ásamt Sveini Guðmundssyni, formanni, Valgerði Hermannsdóttur, varaformanni og Ásgeiri Þór Árnasyni, framkvæmdastjóra Hjartaheilla.

 

Á myndina vantar Harald Finnsson, Hjört Hermannsson, Pétur Bjarnason, Gísla J. Júlíusson, Auði Ingvarsdóttur, Guðnýju Sigurðardóttur og Ólöfu Sveinsdóttur.

 

Á formannafundi Hjartaheilla þann 8. desember s.l. voru 20 félagar heiðraðir fyrir margvísleg störf í þágu Hjartaheilla. Er það mikill fengur fyrir félagið að eiga slíkan fjársjóð sem býr í öllu þessu heiðursfólki sem svo sannarlega átti þessa viðurkenningu skilið.

 

Nöfn þeirra sem fengu Heiðursmerki og heiðursskjal Hjartaheilla eru:

Guðrún Bergmann Franzdóttir – fyrir 13 ára störf í þágu Hjartaheilla

 

Haraldur Finnsson – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi formaður Hjartaheilla höfuðborgarsvæðisins.

 

Hjörtur Hermannsson – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem formaður Hjartaheilla Vestmannaeyjum.

 

Magnús Þorgrímsson – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi formaður Hjartaheilla Vesturlandi.

 

Margrét Albertsdóttir – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og skjólstæðinga samtakanna í mörg ár.

 

Pétur Bjarnason – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla s.l. 17 ár og yrði of langt að telja upp allt það sem Pétur hefur lagt hönd á fyrir samtökin.

 

Sigurður Helgason – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi formaður Hjartaheilla Vesturlandi.

 

Gísli J. Júlíusson – fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi formaður Hjartaheilla Eyjafjarðarsvæðinu.

 

Auður Ingvarsdóttir – stofnfélagi og ýmis störf í þágu Hjartaheilla allt frá stofnun samtakanna.

 

Guðmundur R. Óskarsson – endurskoðandi samtakanna frá upphafi og raunagóður félagi alla tíð varðandi fjármál samtakanna.

 

Karlotta Jóna Finnsdóttir – bókari samtakanna frá árinu 2004 og gengt mörgum öðrum störfum fyrir Hjartaheill.

 

Sigurður Aðalgeirsson fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem formaður Hjartaheilla Þingeyjarsýslum.

 

Friðrik Ingvarsson fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem formaður/tengiliður Hjartaheilla Austurlandi.

 

Garðar Helgason fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem formaður/tengiliður Hjartaheilla Eyjafjarðarsvæðinu.

 

Valur Stefánsson fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi formaður Neistans styrktarfélags hjartveikra barna.

 

Ólafur Magnússon fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem formaður/tengiliður Hjartaheilla Vesturlandi.

 

Guðný Sigurðardóttir fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi gjaldkeri Neistans styrktarfélags hjartveikra barna.

 

Björg Björnsdóttir fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem fyrrverandi formaður Hjartaheilla Suðurlandi.

 

Ólöf Sveinsdóttir fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla og sem formaður Hjartaheilla Suðurnesjum.

 

Valbjörg Jónsdóttir fyrir ýmis störf í þágu Hjartaheilla.

HVAÐ ER ÍSLANDSKORTIÐ

Íslandskortið

 

Íslandskortið ehf. býður upp á hagnýt tól fyrir alla Íslendinga sem og erlenda ferðamenn. Íslandskortið er öflug lausn sem opnar dyr að íslenskri ferðamannaþjónustu ásamt þjónustum eins og almenningssamgöngum, jarðgöngum, sundlaugum, söfnum tjaldstæðum, sturtum, þvottavélum og fleira. 

 

Allir félagsmenn aðildarfélaga SÍBS fá kortið sent til sín sem og Hjartavinir Hjartaheilla.

Guðrún Bergmann Franzdóttir

Guðrún Bergmann Franzdóttir

Guðrún Bergmann Franzdóttir

 

Í dag, 30. nóvember 2017, er síðasti vinnudagur Guðrúnar Bergmann Franzdóttur hjá Hjartaheillum. Guðrún Bergmann hefur starfað frá árinu 2004 hjá samtökunum - sem formaður Neistans og gengt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Hjartaheill og mun áfram verða í sjálfboðaliði Hjartaheilla.


Stjórn, starfsmenn og samferðarfólk Hjartaheilla þakkar Guðrúnu Bergmann hjartanlega fyrir samstarfið og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Ókeypis heilsufarsmæling Hveragerði

SÍBS Líf og heilsa í Hveragerði

 

Íbúum í Hveragerði, Ölfusi, Þorlákshöfn og á Laugarvatni er boðið í ókeypis heilsufarsmælingu í Heilsugæslustöðinni Hveragerði, Breiðmörk 25b fimmtudaginn 23. nóvember kl. 08:00 til 16:00.

 

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Samtökum sykursjúkra, Hjartaheill og Samtökum lungnasjúklinga bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Fagfólk frá heilsugæslunni verður á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd.

 

Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs.

 

Mælingar á Selfossi, Vík, Kirkjubæjarklaustri, Vestmannaeyjum, Hellu og/eða Hvolsvelli verða eftir áramót.

Fimmti hver deyr í bið inni á Landspítalanum

spí

Það eru of margir sem bíða á spítalanum og komast ekki út.VÍSIR/EYÞÓR

Eitt hundrað ný hjúkrunarrými á Landspítalanum færu langt með að leysa vanda Landspítalans að mati Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðadeildar spítalans. Um eitt hundrað aldraðir einstaklingar bíða inni á spítalanum með færni- og heilsumat. Fimmtungur þeirra deyr á spítalanum áður en þeir komast á öldrunarheimili.

  „Skortur á dvalarrýmum er meinið sem skemmir svo mikið út frá sér. Þar liggur vandinn sem spítalinn glímir við fyrst og fremst,“ segir Jón Magnús. „Skorturinn hefur áhrif á biðtíma sjúklinga eftir sérhæfðri meðferð, áhrif á tímann þar til sjúklingur er kominn á viðeigandi sjúkradeild, og hefur áhrif á legutíma allra sjúklinga. Einnig ef þessi vandi yrði leystur yrði álag á hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða mun minna og auðveldaði þeim stéttum öll störf.“

Nýtt þing þarf að koma saman innan skamms til að vinna að fjárlagagerð næsta árs. Vísir að samstöðu um breytingar til að fjölga öldrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu hefur myndast. 

„Það er alveg rétt að það þarf að að hjóla í þetta. Ný ríkisstjórn verður að taka á þessum málum. Við unnum að þessu í velferðarnefnd og ég veit af vinnu í ráðuneytinu um að fjölga hjúkrunarrýmum,“ segir Nicole Leigh Mosty, fyrrverandi formaður velferðarnefndar þingsins. „Þetta er bráðnauðsynlegt fyrir þjóðina í heild. Það skiptir máli að setja fjármagn þangað sem peninga er virkilega þörf og það er í þessu tilviki í fjölgun öldrunarrýma. “

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir að fimmtungur þeirra sem liggi á LSH og bíði eftir hjúkrunarrými andist áður en þeir komist inn á öldrunarheimili. „Þetta er fyrirhyggjuleysi síðustu ára sem við erum að fást við. Það hefur einfaldlega ekki verið byggt nægilega af rýmum fyrir þetta fólk. Einnig mun öldruðum fjölga mikið á næstu árum og því þurfum við átak í þessum málaflokki. Þessi einstaka aðgerð myndi leysa mörg vandamál á LSH,“ segir Anna Sigrún. 

Fengið af vef. Vísir.is 21 nóvember

Rannsóknarstöð Hjartaverndar efnir til landssöfnunar þann 17. nóvember.

landss

Rannsóknarstöð Hjartaverndar efnir til landssöfnunar þann 17. nóvember.

Rannsóknarstöð Hjartaverndar efnir til landssöfnunar þann 17. nóvember. Yfirskrift söfnunarinnar er Finnum fólk í lífshættu og tilefnið er að Hjartavernd hefur þróað nýtt verkfæri eða „viðvörunarkerfi“ sem getur greint æðakölkunarsjúkdóm á frumstigi á mun nákvæmari hátt en hingað til hefur verið mögulegt. Með viðvörunarkerfinu má koma í veg fyrir varanlegar líffæraskemmdir í hjarta og heila sem orsakast að stórum hluta af æðakölkun.  Markmið okkar er að uppræta að miklu leyti ótímabær áföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi. 
Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta ástæða ótímabærra dauðsfalla í íslensku samfélagi.  Rúmlega 200 manns á ári látast hér fyrir aldur fram vegna sjúkdóma í hjarta- og æðakerfi.  Að auki lifa tugir þúsunda einstaklinga með afleiðingar áfalla sem leiða til verulegra skertra lífsgæða.  Með viðeigandi forvarnaraðgerðum hefði verið hægt að koma í veg fyrir mikinn meirihluta þessara áfalla og það væri stór ávinningur fyrir þá einstaklinga sem haldast heilbrigðir fram á efri ár en einnig gríðarlegur sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið allt.   
Viðvörunarkerfið er gjöf Hjartaverndar til þjóðarinnar á fimmtíu ára afmæli samtakanna.

Þeir sem hafa hug á að styrkja okkur geta hringt eða sent sms í:

9071502 fyrir 2.000.- kr.

9071505 fyrir 5.000.- kr.

9071508 fyrir 8.000.- kr.

Einnig er hægt að leggja styrktarupphæð beint inn á bankareikning söfnunarinnar  0111-26-4013 kt. 600705-0590

Með kærri þökk

Hjartavernd 

Það hefði ekki þurft að fara svona

Karl Andersen prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar

Karl Andersen prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar

 

Það hefði ekki þurft að fara svona. Luther var 55 ára og við ágæta heilsu. Hann var í góðu starfi, átti ástríka eiginkonu og tvö uppkomin börn. Hann stóð í skilum við guð og menn og var í stuttu máli hamingjusamur. Ekkert sem hann þurfti að hafa áhyggjur af í sjálfu sér. Álagið var að vísu mikið og hann vann allt of langan vinnudag en brátt sá fyrir endann á afborgunum á húsnæðislánunum og hann var farinn að hlakka til að setjast í helgan stein og sinna áhugamálunum. Fyrsta barnabarnið var á leiðinni.

 

Luther hafði verið að finna fyrir þreytu og orkuleysi undanfarið. Það gæti nú bara verið vegna álagsins en einhvern veginn var eins og öll orka væri úr honum eftir vinnudaginn og þetta fór alltaf versnandi. Hann var ekkert að ræða það sérstaklega við fjölskylduna en ákvað að fara út og reyna svolítið á sig. Sjá hvort þetta væri nokkuð. Það gekk í sjálfu sér ágætlega en hann varð talsvert móður og fannst hann ætti að komast hraðar yfir.

 

Svo var ekki laust við að það væri einhver verkur þarna sem leiddi upp í hálsinn en hann hvarf fljótt og fór ekki út í handlegginn svo þetta hlaut nú að vera í lagi. Hann hafði aldrei reykt og notaði áfengi hóflega. Hann hafði að vísu bætt talsvert á sig á seinni árum og það var talsvert um hjartasjúkdóma í fjölskyldunni. En hann leiddi þetta hjá sér og gleymdi þessu bara.

 

Luther vaknaði um nótt. Verkurinn var vondur. Hann var kaldsveittur og varð flökurt. Hann gat engan veginn losnað við þessi ónot. Þegar sjúkrabíllinn kom missti hann meðvitund. Hann frétti síðar að hann hefði dáið en verið endurlífgaður með rafstuði.

 

Þegar hann kom á Hjartagáttina á Landspítalanum var hann strax tekinn í hjartaþræðingu þar sem stífluð kransæð kom í ljós. Hún var opnuð með belg og stoðnet sett í æðina. Hann þurfti að liggja á hjartadeildinni í fimm daga.

 

Þegar hann kom heim var ekkert eins og áður. Hann mátti ekki fara í vinnuna fyrr en eftir 6 vikur og utanlandsferðin sem hann hafði verið að undirbúa varð að bíða betri tíma. Hann þurfti að huga að mataræðinu og hreyfa sig reglulega og taka einar fimm mismunandi tegundir hjartalyfja. Verst var þó að sætta sig við að vera orðinn hjartasjúklingur. Þessi stífla hafði skilið eftir sig drep í hjartanu. Skemmd sem ekki mundi ganga til baka. Hann varð þó að teljast heppinn. Hann var þó lifandi. En ekkert var eins og áður.

 

Algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla
Á Íslandi eru um 25 þúsund einstaklingar sem lifa við afleiðingar sjúkdóma í hjarta- og æðakerfi.

 

Þetta eru hjartaáföll og heilablóðföll, kransæðaskurðaðgerðir og kransæðavíkkanir. Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma leiða þessi áföll til langvinnra sjúkdóma sem draga úr starfsþreki og lífsgæðum þeirra sem fyrir þeim verða. Í langflestum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessi áföll. Af fimmtíu ára rannsóknarstarfi vitum við að mestu leyti hvað veldur hjarta- og æðasjúkdómum. Við þekkjum áhættuþættina, vitum hvernig er hægt að forðast þá og meðhöndla.

 

Engu að síður eru hjarta- og æðasjúkdómar ennþá algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla á Íslandi.

 

Í Hjartavernd er nú að hefjast átak í forvörnum sem við köllum „Heilbrigt hjarta á nýrri öld“. Í samstarfi við heilsugæslustöðvar um allt land hyggjumst við nýta þá þekkingu sem rannsóknir okkar hafa skapað til að koma í veg fyrir stóran hluta þessara ótímabæru áfalla. Endurbætt áhættureiknivél sem þróuð hefur verið í Hjartavernd mun verða notuð á heilsugæslustöðvum um allt land og einnig verða aðgengileg fyrir almenning á netinu. Í völdum tilvikum verða einstaklingar rannsakaðir nánar með ómskoðun af hálsæðum. Þannig má greina æðakölkunarsjúkdóm á frumstigi og beita fyrirbyggjandi meðferð til að hindra framgang sjúkdómsins þegar það á við.

 

Luther er kominn aftur til vinnu. Eftir endurhæfingu hefur hann endurheimt starfsþrekið að miklu leyti. Hann fær þó ekki að sinna sömu krefjandi verkefnum og áður.

 

Hann vildi óska að hann hefði farið í skoðun áður en áfallið kom. Betra er heilt en vel gróið segir einhvers staðar. Aðallega óskar hann þess þó að barnabörnin hans sleppi við að veikjast fyrir aldur fram af sjúkdómi sem hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir.

 

Fréttablaðið 9. nóvember 2017

Það er einn í hverri fjölskyldu

 

Það er að minnsta kosti einn í hverri fjölskyldu. Margir eru á besta aldri. Urðu að hætta að vinna eða fara í léttari störf fyrr en þeir ætluðu sér. Þetta er stór hópur, um 25 þúsund manns. Um það bil jafn margir og búa á öllu norðausturlandi. Þeir eiga það sameiginlegt að lifa með afleiðingum af hjarta- eða æðasjúkdómi sem þeir fengu fyrir aldur fram. Sjúkdómi sem er ólæknandi og þeir lifa með afleiðingum hans það sem eftir er.

Við þekkjum þennan sjúkdóm. Við höfum rannsakað hann í marga áratugi. Við vitum að hann kemur frekar fyrir hjá fólki sem reykir, er með háar blóðfitur í blóði, háþrýsting eða sykursýki. Hann hefur tilhneigingu til að koma meira fyrir í sumum fjölskyldum en öðrum. Við vitum líka að þeir þættir sem stuðla að hjarta- og æðasjúkdómum eru að miklu leyti í okkar eigin höndum að stjórna. Með heilbrigðum lífsstíl, reglubundinni hreyfingu og fjölbreyttu og hollu mataræði má sennilega koma í veg fyrir stærstan hluta þessara sjúkdóma.

Verulegur árangur
Það hefur náðst verulegur árangur. Nýjum tilfellum kransæðastíflu hefur fækkað um 80% á síðustu þremur áratugum og dauðsföllum hefur fækkað ennþá meira. Þetta skýrist að mestu af því að reykingamönnum hefur fækkað, blóðþrýstingur hefur lækkað og kólesteról í blóði hefur lækkað hjá þjóðinni. Horfur þeirra sem fá hjartaáfall eru sömuleiðis mun betri í dag en þær voru fyrir tveimur til þremur áratugum. Sífellt fleiri lifa fram á efri ár með afleiðingum áfallanna. Það veldur ekki aðeins aukinni byrði langvinnra sjúkdóma á samfélagið heldur er um að ræða varanlega færniskerðingu og skert lífsgæði þessara einstaklinga sem hafa orðið fyrir hjarta- og æðasjúkdómum.

Hvað er til ráða? Hvernig getum við komið í veg fyrir að fólk á besta aldri veikist af hjarta- og æðasjúkdómum? Hjartavernd hefur útbúið áhættureikni sem metur líkurnar á því að ákveðinn einstaklingur fái kransæðasjúkdóm á næstu 10 árum. Þessi áhættureiknir finnur þá sem eru í mikilli áhættu og þá má beita forvarnaaðgerðum til að draga úr þeirri áhættu. 

Hins vegar er stór hópur fólks sem mælist í meðal- eða lítilli áhættu með þessu áhættumati og fær því enga sérstaka forvarnameðferð. Þó svo að áhætta hvers og eins í þessum hópi sé ekki há, þá eru þeir svo yfirgnæfandi margir að umtalsverður fjöldi þeirra sem fá kransæðastíflu er úr þeirra hópi.

Nýr áhættureiknir
Til að bregðast við þessu og greina æðakölkunarsjúkdóminn á frumstigi hefur Hjartavernd útbúið nýjan áhættureikni sem er betrumbætt útgáfa af hinum fyrri. Nýi áhættureiknirinn er næmari leið til að greina forstig æðasjúkdóms með því að beita í völdum tilvikum ómskoðun af hálsæðum. Það er ódýr rannsókn sem ekki kostar neina geislun og er óþægindalítil. Greinist æðakölkun í hálsæðum eru verulegar líkur fyrir því að sjúkdómurinn finnist einnig í kransæðum. Með því að beita einfaldri lyfjameðferð með hjartamagnýl og blóðfitulækkandi lyfjum má hefta framrás sjúkdómsins og draga úr líkum á áföllum í framtíðinni.

Hjartavernd er nú að hefja forvarnaátak í samvinnu við heilsugæslustöðvar um allt land. Fyrirhugað er að allir heilsugæslulæknar geti mælt og metið heilbrigða einstaklinga með þessum hætti þegar þeir leita til heilsugæslunnar. Í þeim tilvikum þegar æðakölkun greinist má beita fyrrnefndri lyfjameðferð sem bætir horfur einstaklingsins. Þessi nálgun hefur aldrei verið reynd áður í heiminum. Rannsóknir okkar í Hjartavernd benda þó til þess að það sé tímabært að stíga þetta skref til þess að sú þekking sem við höfum tekið þátt í að skapa um tilurð hjarta- og æðasjúkdóma verði hagnýtt í þágu þjóðarinnar.

Landssöfnun
Til að fjármagna þetta átak efnir Hjartavernd til landssöfnunar 17. nóvember nk. undir kjörorðinu „Heilbrigt hjarta á nýrri öld“. Verndari söfnunarinnar er forseti Íslands, Dr. Guðni Th. Jóhannesson. Söfnunin er unnin í samvinnu við 365 miðla og með stuðningi fjölmargra einstaklinga og fyrirtækja á landinu. Við sem að þessu forvarnaátaki stöndum berum þá von í brjósti að með þessari aðferðarfræði megi viðhalda heilbrigði landsmanna og draga úr ótímabærum dauðsföllum og langvinnum veikindum af völdum sjúkdóma sem má í flestum tilvikum koma í veg fyrir.

Höfundur er prófessor og formaður stjórnar Hjartaverndar.

andersen karl