2018 2018

Heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum

Heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum

 

Fimmtudaginn 26. apríl fór fram heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum. Sent var út boðsbréf til allra íbúa í Eyjum og þeim boðinn ókeypis heilsufarsmælingar.

 

Mælingarnar fóru fram í félagsheimilinu Kviku við Heiðarveg. Mælingarnar hófust stundvíslega kl. 11:00 og áttu að standa til kl. 17:00 en vegna fjölda þátttakenda var ekki lokið við mælingar fyrr en um kl. 19:15. Á fjórða hundrað Eyjamenn fengu mælingu þennan dag.

 

Fagfólk frá heilsugæslunni var á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd. Mældur var blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun, gripstyrktarmæling og fleira, auk þess sem þátttakendum var boðið að taka þátt í lýðheilsukönnuninni Líf og heilsa sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilsu.

 

Félögin sem standa að þessu verkefni eru SÍBS, Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga og Samtök sykursjúkra í samstarfi við Heilsugæsluna í Vestmannaeyjum. Allir þessir samstarfsaðilar þakka þeim sem mættu í mælingarnar hjartanlega fyrir komuna.

 

Hér er hægt að sjá myndir frá mælingunni

Verum sýnileg - tökum pláss - 1. maí 2018

Verum sýnileg - tökum pláss - 1. maí 2018

 

Við hjá Öryrkjabandalag Íslands, ÖBÍ ætlum að vera sýnileg í kröfugöngunni 1. maí n.k. Þar ætlum við að taka pláss og leggja þunga áherslu á kröfur okkar með fjöldanum. Mætum öll. Tökum makann, börnin, ættingja og vini með okkur. Við erum í harðri baráttu fyrir betri kjörum. Sýnum það í verki!

 

Við hjá ÖBÍ ætlum að safnast saman hjá Hlemmi - þar sem nú er mathöllin – klukkan eitt. Þar afhendum við kröfuspjöldum og regnslám og peppum okkur saman áður en gangan heldur af stað kl. 13:30.

 

Útifundur verður á Ingólfstorgi kl. 14:10, en ÖBÍ verður með viðburð á Lækjartorgi þegar gangan fer þar hjá. Þar má enginn láta sig vanta. Við ætlum að sýna hvernig spilað er með fólk!

 

Hressing, kakó, kaffi og kleinur í boði.

Ókeypis heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum

 Ókeypis heilsufarsmæling í Vestmannaeyjum

SÍBS Líf og heilsa býður íbúum í Vestmannaeyjum í heilsufarsmælingu fimmtudaginn 26. apríl næstkomandi í félagsheimilinu Kviku við Heiðarveg (3. hæð) kl. 12:00 til 17:00.

 

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Samtökum sykursjúkra, Hjartaheill og Samtökum lungnasjúklinga bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Fagfólk frá heilsugæslunni verður á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd.

 

Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í lýðheilsukönnun sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilsu.

Stuðningsfulltrúanámskeið

Stuðningsfulltrúanámskeið

 

Miðvikudagana 9. og 11. apríl kl. 17-21 mun Stuðningsnet Sjúklingafélagana halda námskeið fyrir verðandi Stuðningsfulltrúa. Stuðningsnet sjúklingafélaganna býður upp á jafningjastuðning fyrir fólk sem glímir við erfiða sjúkdóma og aðstandendur þeirra, en Hjartaheill ásamt 13 öðrum sjúklingafélögum mynda netið.

 

Á námskeiðinu er farið yfir helstu atriði sem þarft er að hafa í huga þegar veita á jafningjastuðning ásamt því að stuðningsfulltrúum stendur til boða handleiðsla og endurmenntun að loknu námskeiði.

 

Mikilvægt er að sækja um að gerast stuðningsfulltrúi á heimasíðu Stuðningsnetsins áður en námskeið hefst.  Umsjónaraðili Stuðningsnetsins mun hafa samband og taka viðtöl við þá sem sótt hafa um að gerast stuðningsfulltrúar í aðdraganda námskeiðsins. Auk þess mun viðkomandi sjúklingafélag boða stuðningsaðila á sinn fund til að fara yfir þjónustu og starfsemi félagsins.  Fyrir þá sem þegar hafa sótt um að gerast stuðningsfulltrúar og verið í sambandi við sitt félag þá má skrá sig á námskeiðið hér.

Rúmar 70 milljónir veittar félagasamtökum á sviði heilbrigðismála

Frá veitingu styrkja til félagasamtaka á sviði heilbrigðisþjónustu

Frá veitingu styrkja til félagasamtaka á sviði heilbrigðisþjónustu

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 72,6 milljónum króna í styrki til 29 félagasamtaka sem starfa á sviði heilbrigðismála. Auglýst var eftir styrkumsóknum í október sl. og bárust 44 umsóknir. Ráðherra hitti fulltrúa félagasamtakanna í gær við formlega afhendingu styrkjanna.

 

Styrkir sem þessir eru veittir árlega af safnliðum fjárlaga og fer um úthlutunina samkvæmt reglum heilbrigðisráðherra þar um. Veittir eru styrkir til verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum, stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Ekki eru veittir styrkir til verkefna sem hljóta styrki á fjárlögum, falla undir sjóði ráðuneytisins eða er sinnt á grundvelli samninga við ráðuneytið.

 

Við afhendingu styrkjanna ræddi Svandís um hve mikilvæg störf félagasamtaka sem þessara væru fyrir samfélagið og hve rík ástæða væri til þess að styðja við starfsemi þeirra, líkt og styrkir af þessu tagi gerðu mögulegt: „Við eigum að muna eftir þessu á hverjum degi og hafa hugfast að öll sú vinna sem fram fer innan vébanda þessara félaga er ekki sjálfsögð og hana ber að meta að verðleikum.“

 

Fjárhæðir styrkja að þessu sinni nema á bilinu 300.000 – 6.500.000 kr. Hæstu styrkina að þessu sinni; 6,5 milljónir króna, hlutu Rauði krossinn í Reykjavík, Gigtarfélag Íslands og Hjartaheill, landsamtök hjartasjúklinga.

 

Meðfylgjandi er listi yfir félögin sem hlutu styrk að þessu sinni, fjárhæðir styrkjanna og til hvaða verkefna þeir eru ætlaðir. Yfirlit um styrkveitingarnar

 

Stjórn- og starfsmenn Hjartaheilla þakka hjartanlega fyrir styrkinn sem mun örugglega koma sér vel í baráttu Hjartaheilla við skæðasta sjúkdóm 21. aldarinnar – hjartasjúkdóminn sem leggur 700 til 800 Íslendinga af velli árlega eða um 40% allra dauðsfalla.

Aðstandendur eigi að virða líffæragjöf

Aðstandendur eigi að virða líffæragjöf

 

Embætti landlæknis, Landspítalinn og Siðmennt gera athugasemd við orðalag í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra. Orðalagið snýr að því að vandamenn geti lagst gegn brottnámi á líffærum úr látnum manni jafnvel þótt hann sjálfur hafi lýst sig samþykkan því. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram á þingi.


Alls hafa borist sjö umsagnir við frumvarpið og þeir sem gera athugasemd virðast hnjóta um sama orðalagið sem fram komi bæði í frumvarpinu sjálfu og í greinargerðinni.

 

Landlæknisembættið bendir á síðustu setninguna í fyrstu og annarri málsgrein annarrar greinar í frumvarpinu: „Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því"; og síðustu málsgreinina í greinargerð I, " Einnig er lagt til að óheimilt verði að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því. Gildir einu þótt hinn látni hafi lýst sig samþykkan því.“

 

Umsögn biskups Íslands er sú eina sem tekur undir það sjónarmið að vandamenn geti komið í veg fyrir brottnám líffæra úr látnum einstaklingi. Í umsögn biskups segir meðal annars að biskup taki undir það sjónarmið að lögunum verði breytt í „ætlað samþykki“ enda leggist nánasti vandamaður hins látna ekki gegn líffæragjöfinni.“

 

Siðmennt leggur í sinni umsögn til brottfall á málsgreininni um að nánasti vandamaður geti lagst gegn brottnámi líffæra úr látnum einstaklingi. Þá feli það í sér virðingarleysi fyrir hinum látna að ganga gegn vilja hans. Líffæragjöf eigi ekki að fara eftir tilviljanakenndum vilja nánasta aðstandanda og höfnun skuli rökstyðja með gildum rökum. Embætti landæknis segir að það ætti að vera forgangsatriði með lögunum að tryggja að vilji hins látna nái fram að ganga. Embættið leggur til að gerð verði breyting þannig að aðstandandi geti haft aðkomu í þeim málum þar sem vilji hins látna er ekki þekktur.

 

Landspítalinn segir í sinni umsögn að tíðni líffæragjafa sé hærri þar sem lög feli í sér ætlað samþykki. Þá létti ætlað samþykki á aðstandendum sem standi frammi fyrir þungbærri ákvörðun.

 

Rétt eins og Landlæknisembættið og Siðmennt telur Landspítalinn umhugsunarvert að flutningsmenn frumvarpsins leggi til að aðstandendur geti lagst gegn brottnámi líffæra jafnvel í þeim tilvikum þar sem hinn látni hafi lýst sig samþykkan. Það hljóti að vera forgangsmál að vilji hins látna nái fram að ganga. Landpítali hvetur til endurskoðunar á þessu í meðförum þingsins.

 

Þá telur Landspítalinn áríðandi að endurskoða þá afstöðu sem fram komi í frumvarpinu að gera það óheimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama ósjálfráða einstaklinga. Það hljóti að liggja beinast við að nánustu aðstandendur taki þá ákvörðun á sama hátt og gert sé í dag, bæði hér á landi og erlendis. Áríðandi sé að endurskoða þetta. Undir þetta tekur Embætti landlæknis.

 

RUV 4. mars 2018

Ákveðin í að verða læknir frá því hún var þriggja ára

Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir

Góð stækkunargleraugu eru grundvallaratriði þegar hárfínar æðar eru saumaðar.

 

Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir er fyrst íslenskra kvenna til að leggja fyrir sig hjarta- og lungnaskurðlækningar.  Fyrir rúmri viku framkvæmdi hún sína fyrstu hjartaaðgerð. Hún kveðst hafa beðið lengi eftir þessum tímamótum.

Ragnheiður Martha er nývöknuð þegar slegið er á þráðinn til hennar síðdegis einn daginn. Hún hafði verið á næturvakt á sjúkrahúsinu í Umeå í Svíþjóð þar sem hún er með stöðu á hjarta- og lungnaskurðdeildinni og sérhæfir sig í þeirri grein lækninga sem þar er stunduð. Fyrsta spurning til hennar er: Er ekki kalt í Umeå?„Það voru mínus 30 gráður í morgun, svo var sól í dag en þegar hún hvarf varð skítkalt aftur. En það er stillilogn. Ég geng bara um með trefil fyrir andlitinu.“Fyrstu hjartaaðgerðina gerði Ragnheiður Martha fyrir rúmri viku. Var það ekki sérstök tilfinning?„Jú, það er eitthvað sem ég er búin að bíða eftir lengi. Er auðvitað búin að aðstoða við margar aðgerðir og hef gert nokkrar minni lungnaaðgerðir en aldrei heila hjartaaðgerð frá upphafi til enda, svo það var stórt skref á ferlinum. Þetta var kransæðahjáveituaðgerð. Þá tekur maður æðar annars staðar frá og tengir fram hjá stíflunni. Saumar æðarnar saman með mjög þunnum þræði og fínum nálum því þær eru bara einn til tveir millimetrar á breidd. Ég var með sérfræðing sem leiðbeindi mér og fleira fagfólk kringum mig sem ég hef unnið með síðustu mánuðina, andrúmsloftið var þægilegt og allt gekk vel.“

 

Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir

 

Ragnheiður Martha er 31 árs. Hún kveðst hafa verið í skóla síðan hún var sex ára, fyrst í Grafarvoginum, svo í menntaskóla þaðan sem hún fór beint í læknisfræðina. Nú á hún tvö til þrjú ár eftir af sérnáminu. Var hún snemma ákveðin í að verða læknir?„Já, eiginlega frá því ég man eftir mér. Ég var einmitt að tala við ömmu fyrir helgi og hún man að þriggja, fjögurra ára sagðist ég ætla að verða læknir.“

Hún hefur búið í Svíþjóð frá því í apríl 2015. „Ég er mjög ánægð og á deildinni hér í Umeå, þar er mér tekið eins og einni úr fjölskyldunni. Svo er maðurinn minn hér í byggingarvinnu og hefur nóg að gera. Við erum búin að kaupa okkur lóð úti í skógi og ætlum að byggja þar yfir okkur og hundinn en verðum að byrja á skógarhöggi.“En komist þið í heimsóknir til Íslands fyrst þið fenguð ykkur hund? „Já, það er úrval af fólki hér með próf í að passa hunda og hefur aðstöðu til þess. Við komum síðast heim í fyrrasumar. En það er nóg að gera hjá okkur. Svo eru tvö flug heim. Fyrst klukkutíma flug frá Umeå til Stokkhólms og svo þaðan heim. Þetta er smá spölur.“Ragnheiður kveðst aðeins byrjuð að iðka skíðasport, enda segir hún nauðsynlegt að nýta snjóinn.„Hér eru allir á gönguskíðum og það eru flottar leiðir út um allt. Svo er mikil hokkímenning hérna og allir krakkar á skautum. Nokkur ísilögð vötn eru í nágrenninu svo aðstæður til iðkunar eru góðar,“ segir Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir skurðlæknir að lokum.

 

Vísir mánudaginn 5. mars 2018

Microlife blóðþrýstingsmælar

Blóðþrýstingsmælar eru mikið notaðir af hjartasjúklingum og fjölmörgum öðrum til að fylgjast með heilsufari sínu, enda er háþrýstingur oftast einkennalaus en veldur aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Mælana er meðal annars hægt að kaupa í apótekum um allt land, í SÍBS versluninni sem og á skrifstofu Hjartaheilla, Síðumúla 6, Reykjavík. Hjartaheill hefur notað Microlife blóðþrýstingsmæla við mælingar um allt land undanfarin 16 ár með mjög góðum árangri.

Microlife blóðþrýstingsmælir BP A2

Microlife blóðþrýstingsmælir BP A2
Sjálfvirkur mælir.
Auðveldur í notkun.
30 mælingar í minni.
Nemur hjartaóreglu (PAD).
Íslenskar leiðbeiningar.

Verð: 11.700,- kr.   

   Microlife blóðþrýstingsmælir BP A6 PC

Microlife blóðþrýstingsmælir BP A6 PC
Sjálfvirkur mæli.
Stilling fyrir 2 notendur. 100 mælingar í minni X 2.
Nemur gáttatif (AFIB).
Venjuleg mæling ásamt 3X meðaltal (MAM).
Hægt að hlaða niðstöður í tölvu og halda utan um mælingar.
Hægt að stinga í samband við rafmagn.
Íslenskar leiðbeiningar.

Verð: 16.100,- kr.

Áfallasaga kvenna – vísindarannsókn Háskóla Íslands

Áfallasaga kvenna

Opinn kynningarfundur í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, fimmtudaginn 1. mars kl. 17.00 - 18.30. Kaffiveitingar frá kl. 16.45 - allir velkomnir.


Í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu ræðst Háskóli Íslands í eina stærstu vísindarannsókn sinnar tegundar á heimsvísu þar sem skoðuð eru áhrif áfalla á heilsufar kvenna. Allar konur 18 ára og eldri eru boðnar til þátttöku. Markmið rannsóknarinnar er að skila aukinni þekkingu á algengi ýmiskonar áfalla og ofbeldis meðal kvenna á Íslandi og heilsufarsáhrifum þeirra, en þannig gætu niðurstöður hennar nýst til forvarna gegn ofbeldi og heilsufarsáhrifum þess.

 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Berglind Guðmundsdóttir yfirsálfræðingur LSH
Arna Hauksdóttir prófessor
Unnur Valdimarsdóttir prófessor
Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi
Kári Stefánsson læknir og erfðafræðingur

 

Nánari upplýsingar á www.afallasaga.is