Umfang heimahjúkrunar á Suðurnesjum hefur aukist mikið á undanförnum árum og jókst starfsemin um 48% frá árinu 2003 til 2004. Á sama tíma fjölgaði skjólstæðingum þjónustunnar um 30%, en á síðasta ári var hún efld enn frekar.
Tíu starfsmenn sinna nú að jafnaði um 120 skjólstæðingum sem þurfa á mismikilli þjónustu að halda. Samhliða uppbyggingunni hefur rekstrarkostnaður aukist talsvert en er þó aðeins brot af því sem hann væri, þyrftu skjólstæðingarnir að liggja inni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Hildur Helgadóttir, hjúkrunarforstjóri HSS, og Bryndís Guðbrandsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar HSS, segja uppbygginguna þarfa, tímabæra og þjóðhagslega hagkvæma auk þess sem hún mæti sjálfsögðum réttindum aldraðra og þeirra sem kjósi að dvelja heima þrátt fyrir erfið veikindi og yfirvofandi andlát. Í hópi þeirra sem njóta heimahjúkrunarinnar eru krabbameinssjúkir, aldraðir og langveikir einstaklingar.
„Það er alltaf best að vera heima. Það er ekki hægt að lýsa því hvað það er dýrlegt,“ segir Fjóla Eiríksdóttir, sem nýtur þjónustu heimahjúkrunarinnar á Suðurnesjum. Morgunblaðið 31. janúar 2006