Milljónatombólan

JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra opnaði á mánudag Milljónatombóluna, rafrænan happdrættisleik á netinu. Milljónatombólan, sem er samstarfsverkefni Kiwanisklúbbsins Setbergs og hugbúnaðarfyrirtækisins Cofus, er byggður upp sem hlutaveltuleikur, þar sem í boði verða glæsilegir vinningar sem dregnir verða út þegar ákveðið hlutfall miða hefur selst.

Helgi Vigfússon, frá Cofus hugbúnaði, aðstoðar Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra við opnun Milljónatombólunnar. Matthías G. Pétursson, formaður fjáröflunarnefndar Setbergs fylgist með.

Vinningar verða greiddir út í rafrænum gjafabréfum og geta vinningshafar skipt vinningum sínum niður á gjafabréf frá mörgum verslunum. Í fyrstu verða 9 verslanir samstarfsaðilar en hugsanlegt er að þeim fjölgi þegar nær dregur.

Áhugi er fyrir því að færa út kvíarnar og gefa öðrum kiwanisklúbbum innan umdæmisins færi á að gerast aðilar í starfinu á næstunni auk þess sem ekkert sé því til fyrirstöðu að fleiri samtök tengist starfinu en í dag eru nokkur félagasamtök um taugasjúkdóma í samstarfi við Setberg þar sem allur ágóði fyrstu umferðar tombólunnar mun fara til MND-félags Íslands, MS-félags Íslands, MG-félags Íslands, Parkinsonsamtakanna á Íslandi, LAUFs og Hjartaheilla. Morgunblaðið 1. mars 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *