Djúpivogur – Höfn

Aðsókn var mikil á Djúpavogi, svo skipta þurfti liði og senda hluta til Hafnar þar sem beið þegar fullt út úr dyrum af fólki í mælingu. Sem sagt mjög góð mæting í dag og mældir milli 170 og 180 manns.

Logn í DjúpavogshöfnSólin brosti af og til á milli skýjanna á Djúpavogi í morgun. Bátarnir lágu og spegluðu sig í höfninni og Langabúð horfði niður til þeirra þar sem hún situr í sparifötunum sínum.

Vel mætt í heilsugæslustöðina, – svo vel, að á áætluðum brottfarartíma til Hafnar í Hornafirði voru enn allmargir sem biðu og einhverjum varð þó að vísa frá. Þá var skipt liði, Ásgeir, Helgi og Kristín Þóra fóru til Hafnar með mælitæki og nálar og aðrar græjur, en þær systur Margrét og Kristín héldu áfram að mæla á Djúpavogi og Pétur var þeim til halds og trausts.

Þolinmóðir HornfirðingarÞau sem fóru til Hafnar voru mætt á slaginu en þá þegar biðu um fimmtíu manns í Heilsugæslunni og það varð handagangur í öskjunni. Allt gekk þó vel þar, enda heimafólk með öflugt lið og systurnar bættust í hópinn þegar þær komu frá Djúpavogi. Einnig þarna varð að vísa einhverjum frá en það tókst að klára biðlistann undir klukkan átta.

Lestarfólkið skreiddist þá í kvöldmat á Hótel Höfn og síðan beint í háttinn, ánægt með árangur dagsins, því milli 170 og 180 mættu í dag. Á þessum fundum sýnum við myndir af starfi SÍBS og aðildarfélaganna sem við höfum á myndbandi og DVD auk þess að fræða fólk og dreifa bæklingum.

Hvarvetna sem við höfum komið höfum við mætt mikilli velvild og þakklæti fólks fyrir þá þjónustu sem við bjóðum. Sama er að segja um heilsugæslufólkið, sem þó er að kalla yfir sig mikla vinnu, því það tekur allmarga til frekari skoðunar  dagana á eftir þessar heimsóknir okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *