Framkvæmdir við fyrsta áfanga gætu hafist næsta ár

Drög Meginlínur hafa verið dregnar upp um hvernig skipting rýmis verður. Enn á þó eftir að hanna útlitið.

Eftir mikla skoðun kom á nýjan leik í ljós að Hringbraut er besti kosturinn fyrir nýtt háskólasjúkrahús.

 

Drög Meginlínur hafa verið dregnar upp um hvernig skipting rýmis verður. Enn á þó eftir að hanna útlitið.VINNINGSTILLAGA í samkeppni um hönnun nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut verður að öllum líkindum kynnt í nóvember nk., hönnunarvinna unnin á næsta ári og framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjast sama ár eða árið 2010. Hægt verður að kynna sér verkefnið á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag kl. 17.

 

Óhætt er að segja að nýtt háskólasjúkrahús – áður hátæknisjúkrahús – sé umdeild framkvæmd. Ekki síst hefur styr staðið um staðsetningu sjúkrahússins og aðgengi að stofnuninni. Árið 2002 var ákveðið að sjúkrahúsið myndi rísa við Hringbraut, en þegar ný nefnd um byggingu spítalans var skipuð síðastliðið haust, undir formennsku Ingu Jónu Þórðardóttur, var það eitt fyrsta verkefni hennar að fara yfir alla kosti að nýju.

 

Auk Hringbrautar voru til skoðunar Fossvogur, Vífilsstaðir og Keldur. „Í þessu endurmati okkar fórum við yfir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Við skoðuðum umferðaræðar, umferðarflæði og umferðarspár næstu ára og áratuga," sagði Inga Jóna á fundi með blaðamönnum í gærdag. Í Fossvogi var m.a. fundið að aðkomu að spítalanum sem þykir helst til of þröng, Vífilsstaðir þykja ekki hentugur staður og þá sérstaklega þar sem umferðarspár gera ráð fyrir mun meiri umferðarþunga á næstu árum og áratugum heldur en nokkurn tíma við Hringbraut. Sömu sögu var að segja um land Keldna. Að öllu þessu virtu, þótti Hringbrautin standa upp úr.

 

Áhersla á samgöngur

Gert er ráð fyrir að nýbyggingar verði um 150 þúsund fermetrar að stærð, og er þá tekið tillit til uppbyggingar á vegum Háskóla Íslands og flutnings tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum. Samkvæmt ítrustu kröfum þurfa að vera um 3.600 bílastæði við nýtt háskólasjúkrahús, en Inga Jóna segir aðra kosti í stöðunni. „Við ætlum að leggja mikla áherslu á að almenningssamgöngur þjóni háskólasjúkrahúsinu vel í framtíðinni. […] Eitt af því sem við munum gera er að bjóða upp á miklu fjölbreyttari samgöngumöguleika fyrir þá sem vinna hér og þurfa að sækja hingað þjónustu."

 

Meðal þess sem nefndin ætlar að gera er að leggja til við yfirvöld almannasamgangna á höfuðborgarsvæðinu, að leiðakerfi taki mið af sjúkrahúsinu auk þess sem lokað verði fyrir umferð um gömlu Hringbraut, þ.e. nema fyrir almenningssamgöngur og sjúkrabíla. „Þá leggjum við ríka áherslu á, að áður en fyrsti áfangi verður tekinn í notkun, verði samgönguæð eða vegur um Hlíðarfót [frá Hringbraut]. Hann er á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, kemur inn á mitt svæðið og liggur sunnan Öskjuhlíðar, að hluta til í göngum á því svæði. Hann mun flytja umferð til og frá suðursvæði höfuðborgarsvæðisins, kemur upp við Kópavog. Þessi samgönguæð þarf að vera komin í gagnið um það leyti sem starfsemin flyst úr Fossvogi og hingað," sagði Inga Jóna.

 

Ljóst er að verkefnið er risavaxið á íslenskan mælikvarða, og fram hefur farið mikill undirbúningur. Að sögn Ingu Jónu verður á lokastigi undirbúningsins fenginn rýnihópur til að fara yfir frumáætlun dönsku arkitektanna C.F. Möller. Hópurinn hefur næstu þrjá mánuði til stefnu.

Samkeppnisgögn munu liggja fyrir í júlí og hafa þau teymi sem valin voru í forvali hönnunarsamkeppninnar þrjá mánuði til að vinna tillögur sínar. Inga Jóna segir mikilvægt að vanda vel til verks við undirbúninginn.

 

„Hér er mjög stór framkvæmd, framkvæmd í hjarta Reykjavíkur, framkvæmd sem varðar alla þjóðina og hér er framkvæmd sem öll þjóðin á að vera stolt af. Þeir sem verða uppistandandi árið 2050 eiga að geta litið til baka og sagt: „Já, það var vel að verki staðið. Þeir vönduðu sig þarna í byrjun. Það var metnaður sem fylgdi verkefninu"."

Morgunblaðið fimmtudaginn 28. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *