Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli?

Hjartasneiðmynd

Hjartað er fjögurra hólfa dæla. Tvö efri hólfin, svokallaðar gáttir eða forhólf, taka við blóðinu úr líkamanum. Sú hægri tekur við súrefnissnauðu blóði frá öllum vefjum líkamans og sú vinstri tekur við súrefnisríku blóði frá lungunum. Blóðið rennur úr gáttunum um hjartalokur niður í neðri hjartahólfin sem heita sleglar eða hvolf. Þeir dæla blóðinu út í líkamann, hægri slegillinn til lungna þar sem loftskipti fara fram en hinn vinstri til allra vefja líkamans.

 

HjartasneiðmyndVeggir hjartans eru vöðvaríkir og býr vöðvavefur hjartans yfir sjálfvirkni. Það þýðir að hann dregst saman með vissu millibili án þess að þurfa að fá taugaboð. Þetta sést á því að sé hjarta rifið úr dýri heldur það áfram að slá, þótt engin tengsl séu við taugar lengur. Undir eðlilegum kringumstæðum, það er að segja í lifandi líkama, er hjartslátturinn þó undir stjórn miðtaugakerfisins.

Hjartavöðvavefurinn þarf á næringu að halda eins og allir aðrir vefir líkamans, og ekki síst súrefni. Sérstakar æðar, svokallaðar kransæðar, kvíslast um hjartavöðvann og flytja honum súrefni og næringarefni. Stíflist kransæð getur hún ekki gegnt sínu hlutverki og flutt vöðvanum næringu og súrefni. Sé ekkert að gert deyr sá hluti vöðvans sem stíflaða æðin sá um.

Sé um að ræða stórt svæði í hjartavöðvanum sem ekki er lengur sinnt fær viðkomandi einstaklingur brjóstverk, sem stafar af súrefnisskorti í vöðvanum, auk fleiri einkenna. Brjóstverkurinn leiðir gjarnan út í handlegg, oftast þann vinstri. Þetta er hjartaáfall, það er drep í hjartavöðvanum vegna þess að hann fær ekki súrefni af völdum þrengsla í kransæðum. Hjartakveisa er aftur á móti vægara einkenni sem er þó svipað, en þá kemur brjóstverkur aðallega fram við áreynslu en hverfur við hvíld. Hjartakveisa gefur þó til kynna að kransæð eða -æðar eru orðnar þröngar og tími til kominn að fara til læknis og láta athuga málið.

Upplýsingar Vísindarvefurinn

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *