Forvörn til framtíðar

Mælingar á Vesturlandi tókust vel í blíðskapa vetrarveðri. Félagar Hjartaheilla í Borgarnesi og Vesturlandi eru 182 Um 130 létu mæla sig og öllum er boðið að gerast félagar eða styrktaraðilar.

 

Eins og margir lesendur Velferðar vita sem fylgst hafa með mælingum SÍBS og Hjartaheilla víða um land hefur fólk tekið við sér og fjöldi fólks sem ekki er í félaginu komið til mælinga og látið afar vel af framtaki samtakanna.

 

Markmið þeirra er meðal annars að leita og finna þá aðila sem hugsanlega geta verið í áhættuhópi hjarta- og æðasjúklinga.

 

Komi einstaklingur í mælingar sem aldrei hefur fylgst með þessum áhættuþáttum kann að vera að greining leiði i ljós að viðkomandi verði þegar að leita til sérfræðings. Það er lýðum ljóst að því fyrr sem við komumst undir læknis hendur þeim mun meiri líkur eru til að hefja meðferð strax í byrjun sjúkdómanna.

 

Því fyrr því betra og ósk okkar er fyrst og fremst sú að sjúklingum líði betur, geti notið lífsins og lifað lengur við bærilega heilsu.

 

Á þessum fallega vetrardegi mættu sem sagt um 130 manns sem má teljast góð sókn. Félagar í Borgarnesi eru 47 og í heild á Vesturlandi eru félagar  um 182. Þannig mættu margir utanfélagsmenn og létu mæla sig og erum við þakklátir fyrir það. Forvitnilegt verður að heyra hvort einhver meðferð á sér stað meðal þeirra sem bent var á að leita til sérfræðinga, en um 29 manns reyndust með blóðfitu 7 eða hærra.

 

Fólkið kom af Snæfellsnesi, ofan úr Borgarfjarðardölum, Akranesi og allt þar á milli. Þátttakendur létu í ljósi ánægju og þakklæti fyrir framtakið og þökkuðum við sömuleiðis fyrir góða þátttöku og óskum öllum allra heilla og farsældar á nýbyrjuðu ári.

 

Með einlægri vinakveðju.

Sigurður Helgason

Hraunholtum Kolb. 311 Borgarnes

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *