Salt undir smásjá

Herferð gegn salti í Danmörku og Englandi. Danir borða um það bil helmingi meira af salti en sérfræðingar mæla með. Um þessar mundir fara fram umfangsmiklar rannsóknir sem varða saltneyslu Dana almennt. Niðurstöður verða síðan notaðar til að benda almenningi og matvælaframleiðeindum að minnka notkun salts til muna.

 

Á undanförnum árum hefur of mikil sykurneysla og neysla mettaðrar fitu í miklu mæli verið undir smásjá fjölmargra næringarfræðinga víða um heim. Flestir þekkja afleiðingar ofneyslu þessara efna en færri er kunnugt um hvaða alvarlegar afleiðingar of mikil saltneysla getur haft.

 

Ráðlagður skammtur af neyslu salts er um 6 – 7 grömm á dag, en hver Dani borðar um 8 – 12 grömm af salti að meðaltali á degi hverjum. Of mikil saltneysla eykur mjög hættu á háþrýstingi, aukinn blóðþrýstingur sem ekki er meðhöndlaður eykur einnig hættuna á heilablóðfalli og æ fleiri erlendar

rannsóknir sýna að hætta á hjarta- og æðasjúkdómum minnkar til muna ef menn gæta hófs við saltneyslu.

 

Í Danmörku stendur yfir rannsókn á neysluvenjum 100 manns, hve mikið salt þeir borða að meðaltali á dag og hvaðan saltið kemur. Í breskum rannsóknum kemur í ljós að um 75% af salti sem við borðum kemur úr unnum vörum eins og brauði, osti, súpum, sósum, tilbúnum réttum, kexi og snakki. Um 25% af saltinu setjum við svo í matinn þegar við sjóðum, steikjum eða framleiðum ýmsa matarrétti. Sennilegt má telja að fólk á Norðurlöndum fái salt í svipuðu magni og Englendingar.

 

Keppt er að því að minnka saltinnihald í vörum

Innan fárra mánaða munu niðurstöður fást úr dönsku rannsókninni. Sérfræðingar munu beina sjónum sínum sérstaklega til fyrirtækja og verksmiðja sem framleiða vörur með salti. Það liggur í augum uppi ef um 75% af saltneyslu okkar kemur úr unnum vörum er skynsamlegast að byrja hjá framleiðendum vörunnar. Eigendum fyrirtækjanna verður bent á áhættu og heilsutjón sem getur hlotist af mikilli saltneyslu bæði í unnum vörum og sælgæti. Jafnframt verður athygli almennings vakin á saltneyslu og menn hvattir til að minnka sjálfir saltnotkun við matargerð.

 

Herferð í Englandi

Á opinberri vefsíðu í Englandi, http://www.salt.gov.uk/. – kemur fram að allt frá árinu 2004  hafa heilbrigðisyfirvöld keppt að minnkun saltneyslu íbúanna úr 9 grömmum á dag í 6 grömm árið 2010. Margar stofnanir hafa tekið höndum saman um að ná þessu markmið og nú þegar hafa um 50 fyrirtæki sem framleiða vörur með salti skrifað undir samning um að minnka saltinnihaldið um allt að 30% í vörum sínum, brauði, súpum og sósum.

 

Telja má líklegt að Íslendingar neyti of mikils salts eins og Norðurlandaþjóðirnar og því ærin ástæða til að fylgjast vel með öllum rannsóknum og niðurstöðum þeirra á þessu sviði. Á þetta ekki síst við þá sem glíma við of háan blóðþrýsting, hjarta- og æðasjúkdóma svo og einnig þeirra sem þjást af sykursýki bæði insúlínháðri og sykursýki II.

 

Danski mjólkur- og matvörurisinn Arla tekur við sér

Þegar myndir af Múhameð spámanni birtust í dönsku blöðunum á sínum tíma var fjöldi verslana múslíma í Miðausturlöndum sem tóku vörur frá Arla-framleiðandanum úr hillum sínum. Á undanförnum mánuðum sjást þær þó aftur í hillum þeirra en margir Danir héldu að Arla-matvöruverksmiðjurnar mundu sigla í strand eftir þessi átök og yrðu að minnsta kosti að einbeita sér að öðrum mörkuðum. Í Óman og Sameinuðu arabísku furstadæmunum til dæmis seldi Arla vörur sínar í 5000 verslanir.

 

Nú hafa eigendur og stjórnendur fyrirtækisins gefið út yfirlýsingar um að þeir vilji berjast með yfirvöldum að minnkun saltneyslu meðal þjóðarinnar og stefni að því á næstu árum að saltinnihald í súpum þeirra og sósum minnki um 4-20%. Þeir segja að nauðsynlegt sé að minnka saltinnihaldið smám saman til að neytendur geti vanist því. Hins vegar séu þeir einnig að framleiða nýjar vörur bæði súpur og sósur þar sem innihald salts sé aðeins 1 gramm í hverjum 100 grömmum.

 

Staðreyndir um salt

  • Salt er einnig kallað natríumklóríð og er samsett úr natríum og klóríð.
  • Salt er mjög oft notað sem krydd og er einnig blandað í margar kryddtegundir. (Oftast er unnt að lesa innihaldslýsingu kryddsins).
  • Salt er mjög oft notað í unnar vörur eins og brauð, osta, súpur og sósur.
  • Um 75% af öllu salti sem við borðum fáum við úr áðurnefndum afurðum og ýmsum tilbúnum réttum sem við kaupum í verslunum.

 

Borðum við of mikið salt?

  • Margir borða um 8-12 g af salti daglega.
  • Ráðlagður skammtur er ekki meiri en 6-7 g.
  • Of mikil saltneysla eykur hættu á of háum blóðþrýstingi, hjarta- og æðasjúkdómum og heilablæðingu.

 

(Aðalheimildir: Födevaresstyrelsen, Danmörk. ÞSG).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *