Þriðja hjartaþræðingartæki Landspítala í notkun í haust

Samningur um nýtt hjartaþræðingartæki handsalaður eftir undirskrift af Birni Zoëga settum forstjóra LSH og Lindu B. Gunnlaugsdóttur forstjóra A. Karlssonar. Með þeim eru Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Hreiðarsson framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs A. Karlssonar.

Þriðja hjartaþræðingarstofa Landspítala verður tekin í notkun í byrjun nóvember 2008. Tækjabúnaður í henni verður frá General Electric.  Samningur um kaup á tækjabúnaðinum var undirritaður milli spítalans og A. Karlssonar ehf. mánudaginn 21. júlí, að undangengnu útboði.

 

Samningur um nýtt hjartaþræðingartæki handsalaður eftir undirskrift af Birni Zoëga settum forstjóra LSH og Lindu B. Gunnlaugsdóttur forstjóra A. Karlssonar. Með þeim eru Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Hreiðarsson framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs A. Karlssonar.Brýn þörf er á þessu nýja hjartaþræðingartæki vegna sífellt aukinnar starfsemi sem hefur orðið til þess að biðlistar eru jafnan eftir þræðingum en mislangir.  Þess er vænst að biðlistar eftir hjartaþræðingum og kransæðavíkkunum heyri sögunni til þegar þriðja hjartaþræðingarstofan bætist við.  Þessi starfsemi tengist náið annarri starfsemi vegna hjartalækninga á Landspítala, svo sem hjartaskurðlækningum, og hafa spítalinn og heilbrigðisráðuneytið lagt ríka áherslu á að styrkja hjartalækningar á spítalanum í heild, þar á meðal þræðingarnar enda mikil samfella í þessari þjónustu.

 

Hjartaþræðingartækið sjálft, sem nú er undirritaður kaupsamningur um er framleitt af bandaríska fyrirtækinu General Electric Healthcare og heitir Innova 2100 IQ en umboðsaðili GE og seljandi tækisins er fyrirtækið A. Karlsson ehf. Kaupverð tækisins er um 61 milljón króna án virðisaukaskatts.  Tækið er af nýjustu og fullkomnustu gerð og er búið stafrænum myndskynjara en með honum fást aukin myndgæði í hjartaþræðingarrannsóknum og hægt er að komast af með minni geislun á sjúklinga og starfsfólk. GE hefur langa reynslu af stafrænum myndskynjurum í röntgentækjum og hefur boðið upp á stafræn hjartaþræðingartæki um árabil.  Allur stjórnbúnaður tækisins og á þeim búnaði sem notaður er á hjartaþræðingastofunni verður sambyggður, sem einfaldar vinnuumhverfi starfsfólks við rannsóknirnar.  Fullkomin vinnustöð fyrir lækna fylgir með tækinu. Vinnustöðin er búin öllum nauðsynlegum hugbúnaði fyrir frekari skoðun, mælingar og úrvinnslu þeirra gagna sem tengjast hjartaþræðingum.

 

Þórarinn Guðnason hjartalæknir sýndi gestunum á skjá hjartaþræðingu sem hann hafði nýlokið við. Jón Pálmason í stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur, Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Linda B. Gunnlaugsdóttir forstjóri A. Karlssonar og Kristján Eyjólfsson yfirlæknir hjartaþræðinga.Áætlaður heildarkostnaður við nýju hjartaþræðingarstofuna nemur um 140 milljónum króna en af þeirri upphæð greiðir Landspítali byggingarkostnað stofunnar sem er áætlaður um 40 milljónir króna. Stofan verður sambyggð núverandi tveimur hjartaþræðingarstofum á hjartaþræðingareiningu hjartadeildar Landspítala í byggingu W.  Stofan er byggð inn í húsnæði sem verið hefur hluti af vörumóttöku spítalans. Eftir er að ganga frá kaupum á ýmsum tækjabúnaði sem þarf fyrir starfsemi stofunnar fyrir utan hjartaþræðingatækið en stefnt er að því að hægt verði að taka fyrsta sjúklinginn í hjartarannsókn á stofunni í fyrstu viku nóvember n.k.

 

Einstaklingar og félagasamtök hafa stutt dyggilega við hjartaþræðingar á Landspítala á undanförnum árum og halda því áfram með myndarlegum hætti.  Tækjabúnaður í nýju hjartaþræðingarstofuna verður allur fjármagnaður með gjafafé:

 

Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur  leggur fram 75 milljónir króna til kaupa á hjartaþræðingartækinu.  Sá sjóður var stofnaður árið 2001 með 200 milljóna króna framlagi Jónínu í sjóð til að efla hjartalækningar á Landspítala.  Síðan hefur sjóðurinn stutt hjartalækningarnar ríkulega með fjárframlögum, þar á meðal vegna kaupa á seinna hjartaþræðingartækinu árið 2001.

 

Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga eiga 25 ára afmæli á þessu ári og minnast tímamótanna meðal annars með því að styrkja kaup á hjartaþræðingartækinu og nauðsynlegum fylgibúnaði.  Samtökin leggja fram 25 milljónir og ætla þar að auki að efna til landssöfnunar.  Takmark Hjartaheilla er að safna 50 milljónum króna á afmælisárinu og rennur allt það fé sem safnast umfram áðurnefndar 25 milljónir einnig til hjartalækninga á Landspítala.

 

Samningurinn um kaup á hjartaþræðingartækinu var undirritaður á hjartaþræðingardeildinni á Landspítala Hringbraut þar sem nýja hjartaþræðingarstofan verður líka.  Viðstaddir voru meðal annarra Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla, Sveinn Guðmundsson verkefnastjóri Hjartaheilla og Jón Pálmason, sonur Jónínu S. Gísladóttur, en hann á sæti í stjórn sjóðsins sem við hana er kenndur.

 

Hjartalækningar á Landspítala eru í fremstu röð og standast vel samjöfnuð við það besta sem gerist á öðrum háskólasjúkrahúsum.  Árið 2007 var byrjað að færa gögn um allar kransæðaþræðingar og kransæðavíkkanir á Íslandi í sænska gagnagrunninn SCAAR sem öll þræðingarstarfsemi í Svíþjóð tekur þátt í. Þessi gagnagrunnur hefur sannað gildi sitt í gæðaeftirliti þar í landi í áratugi.  Tilgangur með því að tengjast SCAAR var að auka gæðaeftirlit, meðal annars með því að geta skoðað starfsemistölur og árangursmælingar í rauntíma og meta þannig starfsemina stöðugt, t.d. varðandi árangur nýrrar meðferðar, svo og til að auka enn frekar öryggi sjúklinga, t.d. varðandi fylgikvilla þræðinga.  Þetta samstarf háskólasjúkrahússins við Svía varðandi skráningu gagna um hjartaþræðingar er því mjög mikilvægt til þess að tryggja sem best árangur við hjartaþræðingarnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *