Fleiri og flóknari teknar upp

Þórarinn Arnórsson fær að sjálfsögðu heiðurinn af að hafa stýrt fyrstu hjartaskurðaðgerðinni hér á landi, en þá eins og nú kemur fjöldi fólks að slíkum aðgerðum. Viktor Magnússon stjórnaði hjarta- og lungnavélinni en aðrir í teyminu voru Hörður Alfreðsson, Hans Erik Hansson, Grétar Ólafsson, Kristinn B. Jóhannsson, Hjörtur Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, Eiríkur Benjamínsson, Herdís Alfreðsdóttir, Rut Sigurðardóttir, Helga Þóra Kjartansdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og Margrét Jónasar.

 

Í fyrstu eftir aðgerðina 14. júní 1986 voru aðeins gerðar kransæðaskurðaðgerðir en mjög fljótlega var einnig farið að gera hjartalokuaðgerðir. Síðar komu inn flóknari aðgerðir og þá bæði á ungbörnum, börnum og fullorðnum.

 

Meðal þeirra aðgerða sem teknar voru upp hér á landi eru ígræðslur á grindarlausum lífrænum ósæðarlokum, kransæðaskurðaðgerðir á sláandi hjarta án hjarta- og lungnavélar, viðgerðir í völdum tilvikum á ósæðarlokum, viðgerðir frekar en skipti á míturloku hjartans, lokusparandi aðgerðir við ósæðargúl, viðgerðir á þriggjablöðkuloku hjartans, hjálparhjartaígræðslur til skamms tíma og til lengri tíma við hjartabilun, brennslur með útvarpsbylgjum og örbylgjum auk frystingar við gáttatifi og lagfæring á holubrjósti með brjóstholsspeglun.

 

Aðeins þarf að senda örfáa sjúklinga úr landi til meðferðar og er þá aðeins um að ræða þá sem haldnir eru mjög sjaldgæfum sjúkdómum sem eingöngu eru meðhöndlaðir á fáum stöðum í heiminum.

 

Morgunblaðið þriðjudaginn 14. júní 2011

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *