Hjartastopp- hvað eiga nærstaddir að gera?

hjartahnod

hjartahnod

Í íslenskum og erlendum rannsóknum hefur verið vísindalega sannað mikilvægi þeirra sem verða vitni að hjartastoppi og hefja strax endurlífgunaraðgerðir. Lifun þeirra einstaklinga sem hafa notið grunnendurlífgunar nærstaddra er marktækt betri en hinna sem hafa orðið að bíða lífgunartilrauna þar til neyðarlið hefur komið á vettvang. Með því að beita hjartahnoði er unnt að halda uppi nokkru blóðflæði til mikilvægra líffæra og vinna þannig gegn skemmdum. Þetta á ekki síst við um heilann sem er hvað viðkvæmastur fyrir súrefnisþurrð.

Nærstödd vitni geta bætt horfur þess, sem hefur farið í hjartastopp með tvennum hætti:

1.     Kalla strax eftir hjálp – hringja í neyðarnúmerið 112

2.     Beita  grunnendurlífgun.

Mikilvægi þess að kalla eftir hjálp felst í því að tryggja sem stystan viðbragðstíma neyðarbíla, þannig að unnt sé að beita rafstuði sem fyrst gegn hinni lífshættulegu takttruflun sem valdið hefur því að hjartað hefur hætt að slá. Þar getur hver mínúta skipt sköpum.

Með grunnendurlífgun er átt við hjartahnoð og munn við munn öndun. Af ýmsum ástæðum getur verið erfitt að beita munn við munn öndun með áhrifaríkum hætti og hefur því í síðustu alþjóðlegum leiðbeiningum um endurlífgun verið lögð þeim mun meiri áhersla á hjartahnoð. Þetta á einkum við um leikmenn og þá sem hafa ekki sérstaka kunnáttu í öndunarhjálp.

Rannsóknir benda til þess að jafnvel náist bestur árangur þegar þeir sem verða vitni að hjartastoppi beita hjartahnoði eingöngu að því tilskildu að viðbragðstími neyðarliðs sé stuttur. Endurlífgunarráð landlæknis leggur áherslu á þetta.

Verðir þú, lesandi góður, vitni að hjartastoppi mundu þá að HRINGJA OG HNOÐA.

Gestur Þorgeirsson yfirlæknir
Hjartadeild Landspítala- háskólasjúkrahúss

Frá Landlæknisembættinu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *