
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að stórkostlegt starf sé unnið á Landspítalanum og að það hafi veitt henni nýja sýn að kynnast starfsemi spítalans með eigin augum í heimsókn sinni þangað í morgun.
„Það er allt annað að heimsækja Landspítalann sem sjúklingur eða aðstandandi sem ég hef auðvitað gert eins og flestir, eða að koma og fá að sjá á bak við tjöldin. Mér fannst það í sjálfu sér alveg stórmerkilegt að sjá hvað er gott starf unnið hér, ekki að ég hafi ekki vitað það, en það er öðruvísi að sjá það með eigin augum,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is að lokinni heimsókninni.