GoRed á Íslandi 10 ára

GoRed á Íslandi 10 ára

Tíminn er stundum ótrúlega fljótur að líða.

Okkur hjá Hjartaheill finnst örstutt síðan rauðklæddu konurnar voru að stíga sín fyrstu skref hér á Íslandi, m.a. með stuðningi og í samstarfi við Hjartaheill, og hefja störf að hjartavernd meðal kvenna.

Á sama tíma virðist það býsna langur tími þegar haft er í huga hver áhrif þeirra hafa verið á umræðu um hjarta- og æðasjúkdóma. Vegna starfa GoRed og áhrifaríkra herferða þeirra eru konur nú meðvitaðri en áður um áhættuþætti sem að þeim snúa. Mikilvægi þess að upplýsa konur um fyrstu einkenni hjarta- og æðasjúkdóma verður seint ofmetið og þar hefur GoRed lagt sitt af mörkum svo eftir hefur verið tekið.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru ein algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum. Með forvörnum og fræðslu má draga verulega úr líkunum á þessum sjúkdómum. Hjartaheill lítur til baka með stolti fyrir hönd kvennanna sem starfa innan GoRed og við sem vinnum að málefnum Hjartaheilla erum þakklát fyrir samvinnuna við samtökin, enda falla markmið þeirra í einu og öllu að starfi Hjartaheilla og hafa gert frá upphafi.

GoRed fyrir konur á Íslandi er samstarfsverkefni Hjartaverndar, Hjartaheilla, Heilaheilla, hjartadeildar Landspítalans og fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga. Fyrir okkar leyti hefur það verið heiður að taka þátt í þessu öfluga samstarfi sem vonandi á eftir að blómstra áfram á komandi árum.

Á þessum tímamótum sendum við GoRed okkar innilegustu kveðjur með óskum um áframhaldandi samstarf og baráttu fyrir því að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum á Íslandi. Með samstöðu höfum við náð miklum árangri og viljum gera enn betur. Saman.

Stjórn og starfsfólk Hjartaheilla. Aukablað með Fréttablaðinu 28. janúar 2019