Að muna eftir að þakka fyrir sig.

Að muna eftir að þakka fyrir sig.

Eins og þið vitið. kæru vinir. þá hef ég átt í töluverðu heilsuleysi frá 35 ára aldri, margar aðgerðir vegna hjartasjúkdóms og nú síðustu ár vegna kvið- verkjavandamála og átti ég að fara í aðgerð 2. júní en vegna mikilla verkja og bólgu í gallblöðru var ég lagður inn í síðustu viku og skorinn föstudaginn 29, maí.

Eitt af því sem mér finnst alltaf erfitt er að þegar maður er útskrifaður þá hefur maður lítið tækifæri til að þakka öllum þeim fjölda starfsmanna sem eru búnir að aðstoða mann um skamman eða langan tíma og frá mörgum deildum spítalans.

Fyrir ca: 2 1/2 ári var ég hjá LSH Hringbraut um töluverðan tíma vegna ristilvandamála, fékk frábæra lækningu og þjónustu – allir gerðu manni veikindin sem léttust og aldrei sá maður úrillan starfsmann. Batinn var alveg eins og hann átti að vera.

Fyrir um 11 mánuðum síðan var konan mín, Karlotta Jóna Finnsdóttir, nær dauða en lífi flutt til LSH Fossvogi og flutt þaðan í hendingskasti á Hringbrautina, bráðaaðgerð framkvæmd og í ljós kom að rof á skeifugörn var búið að dæla inn 1,8 lítra í kviðarholið og lífhimnubólga á fullu. Þegar ég kvaddi hana fyrir aðgerðina taldi ég að ég væri að kveðja hana í síðasta skiptið, á lífi. Sem betur fer með frábæru starfsfólki var hægt að laga rofið og koma henni á fætur. Hún er á lífi þó e.t.v. eitthvað í að hún jafni sig alveg þá gerir hún allt sem hana langar að gera.

Frá 26. mars s.l. hef ég verið að glíma við gallblöðruvandamál og var 8 daga inni á 12G þar sem allt var gert til að aðstoða mig, verkjastilla, dren sett upp og bólga og sýking keyrð niður. Á þessum tíma þá þurfti ég að fara inn í Fossvog. Það var afskaplega öruggt að sjá allar varúðarráðstafanirnar sem voru þar í gangi. Við komum t.d. að gangi þar sem starfsmaður í hlífðarfötum bað okkur að bíða á meðan sjúklingur var fluttur um gang sem við þurftum að fara um, stuttu seinna kom kall í talstöð að við mættum fara í gegn. Ég hafði aldrei á tilfinningunni að handan við vegginn væri Covid19 í gangi.

Miðvikudaginn s.l. var ég búinn að kveljast mikið sem endaði á bráðamóttökunni í Fossvogi þar sem tóku við miklar rannsóknir og innlögn á Hringbrautina á deild 13G. Þar var hver höndin tilbúinn að aðstoða, meta hvort gefa mætti meira af verkjalyfjum og hlúð að manni bæði andlega og líkamlega. Eins sýnir það hvað sjúklingurinn er látinn njóta þess þrátt fyrir að eiga tíma í aðgerð 2. júní þá var tekin ákvörðun um að framkvæma aðgerðina föstudaginn 29. maí til að lina þjáningar þess sjúka. Daginn eftir fór ég heim og má eiginlega segja að ég hafi þurft sítrónu til að ná af mér brosinu – nei ég held ekki ég mátti alveg brosa, vera þakklátur og auðmjúkur fyrir allri hjálpinni sem staðið hefur yfir á 3ja mánuð.

Í lokaviðtali mínu, stofugangi, gerði ég mér grein fyrir hversu mikið ég ætti spítalanum og öllu starfsfólkinu að þakka og af veikum mætti fór ég yfir þakklæti mitt hversu vel tókst til hjá konunni minni og mér. Fann ég að þetta stutta þakkarávarp mitt hafði áhrif á starfsmennina.

Því er það von okkar hjóna að LSH geti komið slíku þakklæti til allra starfsmanna Landspítalans – því það má ekki gleyma að þakka fyrir sig og geri ég mér alveg grein fyrir að þeim finnst örugglega gott að heyra það að starf þeirra sé metið.

Bið ég góðan Guð að vernda og vaka yfir störfum þeirra alla daga og um komandi framtíð.

Með vinsemd og virðingu,
Karlotta Jóna Finnsdóttir
Ásgeir Þór Árnason