Bjargaði lífi bestu vin­konu sinn­ar

Bjargaði lífi bestu vin­konu sinn­ar

Sól­veig Ásgeirs­dótt­ir bjargaði lífi bestu vin­konu sinn­ar, Súsönnu Helga­dótt­ur, í júlí síðastliðnum þegar Sús­anna fór í skyndi­legt hjarta­stopp á heim­ili sínu. Sól­veig, sem er Skyndi­hjálp­armaður árs­ins 2020, hafði ný­lega lokið nám­skeiði í skyndi­hjálp þegar hún var óvænt í heim­sókn hjá vin­konu sinni en tveggja ára gam­all son­ur Súsönnu svaf í gegn­um at­b­urðina á meðan.

Í mynd­skeiðinu segja þær frá at­b­urðarás­inni.

Þær vin­kon­ur sátu að spjalli þegar Sús­anna missti skyndi­lega meðvit­und. Sól­veig var fljót að átta sig á að eitt­hvað al­var­legt amaði að vin­konu sinni og hringdi strax í 112. Þá var Sús­anna ekki með púls, hætt að anda og orðin blá í fram­an. Með aðstoð neyðar­varðar 112 hóf Sól­veig end­ur­lífg­un og hnoðaði Súsönnu og blés þangað til sjúkra­flutn­inga­menn komu á staðinn. Í kjöl­farið dvaldi hún á spít­ala í tvær vik­ur.

Leynd­ur hjarta­galli

Í ljós kom að Sús­anna var með leynd­an hjarta­galla en hef­ur í dag náð bata. Nú er hún með bjargráð og hef­ur lokið end­ur­hæf­ingu.

Í um­sögn val­nefnd­ar Rauða kross­ins vegna út­nefn­ing­ar­inn­ar seg­ir:

„Sól­veig sýndi snar­ræði á neyðar­stundu og þessi at­b­urður sýn­ir okk­ur að al­var­leg­ir at­b­urðir geta orðið hvar sem er. Hver sem er get­ur lent í þeirri stöðu að þurfa að bjarga meðborg­ur­um sín­um, jafn­vel á ró­legu kvöldi heima hjá góðum vini.

Sem bet­ur fer er sjald­gæft að jafn ungt fólk og Sús­anna fari í hjarta­stopp án nokk­urs fyr­ir­vara en saga þeirra Sól­veig­ar á er­indi við okk­ur öll, enda ger­ist hún í aðstæðum sem flest­ir geta tengt við. Snar­ræði Sól­veig­ar bjargaði lífi ungr­ar móður sem átti sér einskis ills von. Sól­veig á svo sann­ar­lega skilið að vera sæmd titl­in­um Skyndi­hjálp­armaður árs­ins.“

MBL.is 11. febrúar 2021

112
Nokkr­ar mín­út­ur liðu þar til sjúkra­flutn­inga­menn komu á staðinn. mbl.is/​Eggert
Sjúkrabíll
11.02. er 112 dag­ur­inn og á hverju ári er Skyndi­hjálp­armaður árs­ins kynnt­ur á þeim degi. mbl.is/​Eggert