Miklu skiptir að sjúklingur með kransæðastíflu komist sem fyrst undir læknishendur því að þá batna horfurnar. Því skiptir miklu að þekkja einkenni kransæðaþrengsla og kransæðastíflu. Við greiningu og meðferð er nauðsynlegt að hafa góð hjartaþræðingartæki.

Hin dæmigerðu einkenni kransæðaþrengsla eru þyngslaverkur fyrir brjósti, herpingur eða þrýstingur sem  liggur undir bringubeininu og þvert yfir brjóstið sem getur síðan leitt út í handleggi, upp í háls og kverkar og aftur í bak. Dæmigert er að þessi einkenni komi við áreynslu og líði svo hjá við hvíld. Maður, sem fær svona einkenni við áreynslu og hefur ekki fundið þau áður, ætti að láta athuga hvort hann sé með kransæðaþrengsli.

Ef einkennin líða hjá við hvíld þá hefur viðkomandi tíma til að fara til læknis. Þá fer gjarnan af stað rannsókn og meðferð hefst. Rannsóknin getur falist í línuriti, áreynsluprófi, mati á áhættuþáttum, til dæmis ef nákominn hefur fengið kransæðasjúkdóma. Síðan eru sterkir áhættuþættir eins og reykingar, hátt kólesteról, háþrýstingur og sykursýki. Þetta kemur inn í matið á því hvað sé að og við hverju eigi að bregðast.

Viðkomandi er yfirleitt móður og sveittur og kastar upp. Þegar slík einkenni koma er mikilvægt að komast sem fyrst á spítala því þá er hægt að breyta miklu með meðferð. Með bráðri hjartaþræðingu er hægt að opna æðar, víkka út þrengsli og koma fyrir stoðneti til að tryggja blóðrennsli. Ef hægt er að minnka drepið í hjartavöðvanum þá batna horfurnar verulega. Því er mikilvægt að allir þekki einkennin og að töfin verði sem minnst þar til sjúklingur er kominn undir læknishendur.

Fólk getur fengið kransæðastíflu fyrirvaralaust þótt það hafi aldrei kennt sér meins. Þá hafi orðið rof í æðaþelinu sem er innsta lag æðarinnar. Undir því safnist stundum blóðfita og þó hún valdi ekki þrengslum þá geti líkaminn brugðist við með því að mynda blóðtappa.

Algengi kransæðasjúkdóma eykst með aldri.