Hjartabilun:

Margir hafa heyrt talað um vatn í lungum. Ein algeng ástæða þess er hjartabilun sem stafar af minnkaðri dælugetu hjartans. Algengustu orsakir eru skemmd í hjartavöðvann í kjölfar kransæðastíflu, hár blóðþrýstingur, hjartalokusjúkdómar, hjartavöðvasjúkdómar, meðfæddir hjartagallar og hjartsláttartruflanir. Megineinkenni hjartabilunar eru mæði, bjúgur á fótum, þreyta, þrekleysi og hósti en einnig getur borið á lystarleysi og ógleði. Á fyrri stigum hjartabilunar geta einkenni einungis komið við mikla áreynslu en eftir því sem sjúkdómurinn þróast koma þau fram við sífellt minni áreynslu jafnvel í hvíld eða að næturlagi. Einkenni geta haft veruleg áhrif á hreyfigetu og þátttöku í daglegu lífi og ekki er óalgengt að sjúklingar finni fyrir kvíða og depurð.

 

Mikilvægt er að fylgjast með þyngdaraukningu samfara aukinni mæði og bjúgsöfnun. Algengustu rannsóknir við greiningu og mat á hjartabilun eru hjarta- og lungnahlustun, mæling blóðþrýstings, hjartalínurit (EKG), hjartaómskoðun, röntgenmynd af hjarta og lungum, blóðprufur, þolpróf og kransæðamyndataka.

Lyfjameðferð gegnir mikilvægu hlutverki í meðferð hjartabilunar og eru algengustu lyfjaflokkarnir þvargræsilyf (vatnslosandi lyf), ACE-hemlar, Digitalis, beta-hemlar og Angiotensin viðtakahemlar.

Endurhæfing getur einnig skipt miklu máli og hafa rannsóknir sýnt að reglubundin hreyfing hefur góð áhrif á líðan fólks með hjartabilun. Þannig er reynt að auka vöðvastyrk og þol.

Í ákveðnum tilvikum er hægt að draga úr einkennum hjartabilunar með ígræðslu tvíhólfa gangráðs en einnig er í völdum tilfellum hægt að koma fyrir hjartadælu ( hjálparhjarta, gervihjarta). Ákvörðun um slík inngrip er tekin af hjartasérfræðingum að undangengnum nauðsynlegum rannsóknum.

Árið 2003 var opnuð göngudeild hjartabilunar á LSH. Starfssemin felur í sér markvisst eftirlit með einkennum og lyfjameðferð, lögð áhersla á fræðslu og sjúklingum veittur stuðningur til að lifa góðu lífi þrátt fyrir hjartabilun.

Þannig er reynt að fækka innlögnum sjúklinga með hjartabilun og stytta legutíma þegar innlagnar er þörf. Flestir þeir sem eru í eftirlit í göngudeildinni eru sjúklingar með töluvert mikil einkenni, þ.á.m. þeir sem hafa þurfa að bíða eftir hjartaígræðslu.