Alþjóðlegi hjartadagurinn 2018

Alþjóðlegi hjartadagurinn

Alþjóðlegi hjartadagurinn er haldinn hátíðlegur 29. september ár hvert en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á Hjartadaginn. Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn, Heilaheill og Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga um að halda upp á daginn.

Hjartadagshlaupið fór fram kl. 10:00 á Kópavogsvelli laugardaginn 29. september s.l. – hlaupnir voru 5 og 10 km að venju. Skráðir voru 527 hlauparar en 371 komu í mark.

Klukkan 11:00 var hjartagangan haldin. Lagt var af stað frá gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal og gengið um Elliðaárdalinn undir forystu Hjartaheilla. Veðrið lék við göngufólk á meðan ganga stóð yfir. Um 50 manns mættu í gönguna. Heilbrigður lífsstíll er mikilvægasta forvörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Í ár var lögð áhersla á að fólk hugsi um sitt eigið hjarta og ástvina sinna, „hjartað mitt og hjartað þitt“.