Bráðaþjónusta hjartagáttar flytur í Fossvog 30. nóvember

BRÁÐAÞJÓNUSTA HJARTAGÁTTAR FLYTUR Í FOSSVOG 30. NÓVEMBER

Föstudaginn 30. nóvember kl. 16:00 verður bráðaþjónusta Hjartagáttar Landspítala flutt til bráðamóttöku spítalans í Fossvogi. Allt kapp verður lagt á að tryggja öryggi og góða þjónustu við hjartasjúklinga þar eftir flutningana frá Hringbraut.

Flutningarnir eiga meðal annars erindi við sjúklinga sem:
• leita sjálfir til Landspítala með bráð einkenni frá hjarta
• eru fluttir til Landspítala með sjúkrabíl með bráða brjóstverki og önnur hjartatengd vandamál
• leita til Landspítala samkvæmt tilvísun heilsugæslulækna eða vaktlækna utan spítalans

Mikilvægt er að fólk sem fær brjóstverki eða önnur alvarleg einkenni frá hjarta hringi þegar í stað á 112 og fái þar aðstoð við að meta hvort ástæða sé til þess að hringja á sjúkrabíl og fara þannig til Landspítala.

Áfram verður rekin öflug dag- og göngudeildaþjónusta hjá Hjartagátt við Hringbraut. Það er einungis bráðaþjónustan sem flytur 30. nóvember og verður í fullri virkni í Fossvogi frá og með 1. desember. Landspítalinn