
SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lifnaðarhætti þar sem unnið er út frá áhættuþáttum langvinnra, ósmitbærra sjúkdóma.
Það er ótvírætt að Líf og heilsa er langstærsta verkefni SÍBS utan heilbrigðisþjónustu, enda hafa yfir 6500 einstaklingar þegið ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, blóðsykri, súrefnismettun og fleiri þáttum, auk skimunar fyrir áhættuþáttum frá því verkefnið hóf göngu sína í október árið 2016.
Saga heilsufarsmælinga SÍBS byrjar þó ekki þar, heldur hófst hún árið 2000 þegar SÍBS slóst í för með Hjartaheillum í ýmsum ferðum þeirra um landið þar sem kringum 10 þúsund manns þáðu ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, súrefnismettun og púlsi.
SÍBS Líf og heilsa byggir því á langri sögu þótt verkefnið hafi þróast hratt undanfarin tvö ár. Hjartaheill er enn lykilsamstarfsaðili SÍBS í verkefninu, en auk þeirra hafa bæst við Samtök lungnasjúklinga og Samtök sykursjúkra.