Hjartað í Fossvogi

Hjartað í Fossvogi
Sjúkrahúsfólk frá vinstri talið eru hér á myndinni Ragna Gústafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á bráðadeild, Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga, og Karl Andersen sem er yfirlæknir á Hjartagátt Landspítalans.

Hjartasjúkdómar eru algengir. Oft þarf fólk að fara í þræðingu eða í stórar aðgerðir, en í öðrum tilvikum dugar inngrip á göngudeildum. Bráðamóttaka Landspítala fyrir hjartasjúklinga er flutt á nýjan stað. Ný vinnubrögð og fullkomin tækni. Sjúklingar greindir á vettvangi. Hjartsláttartruflanir, mæði og brjóstverkir. Aðgerðir og göngudeild verða áfram á Hringbrautinni.

Með vel þjálfuðu starfsfólki og góðum tækjum höfum við full tök á að sinna hjartasjúklingum. Að undanförnu höfum við sett nýja ferla og endurskipulagt vinnubrögð hér á deildinni, meðal annars í samræmi við nýja tækni, því bráða- og hjartalækningar þróast hratt,“ segir Ragna Gústafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á bráðadeild Landspítalans.

Næstkomandi laugardag, 1. desember, verður bráðamóttaka fyrir hjartasjúklinga hluti af starfsemi bráðadeildar í Fossvogi, en síðastliðin átta ár hefur þessi starfsemi verið á spítalanum við Hringbraut á svonefndri Hjartagátt. En héðan í frá verður fólki með til að mynda hjartsláttartruflanir og -óreglu, mæði, brjóstverki og annað slíkt sinnt í Fossvogi. Göngu- og dagdeildir hjartalækninga verða eftir sem áður við Hringbraut svo og legudeild hjartalækninga og skurðstofur.

Starfsfólki fjölgað
Stjórnendur Landspítalans segja að í dag vanti um 100 hjúkrunarfræðinga til starfa og hafi sú staða skapað mikinn vanda í starfseminni. Um 40 pláss á legudeildum Landspítala séu lokuð af þessum sökum og er þetta ástæða þeirra breytinga sem nú eru gerðar á þjónustu við hjartasjúklinga.
„Þrátt fyrir allt gengur vel að manna bráðadeild. Í júlí síðastliðnum var Hjartagáttinni lokað tímabundið og sjúklingum beint á bráðamóttökuna og það gekk vel og því afréðum við að taka þetta skref nú. Þessu fylgir að læknum hér verður fjölgað um tvo og hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum um fimm á sólarhring,“ segir Ragna.

Hjartalækningar í þróun
Karl Andersen, yfirlæknir Hjartagáttar, segir sérgrein hjartalækninga hafa þróast mikið á undanförnum árum sem kalli á breytingar í þjónustu. Þar megi nefna fjölgun brennsluaðgerða vegna hjartsláttartruflana, ísetningu gang- og bjargráða og flókin inngrip á kransæðum og hjartalokum. Þetta kalli á aukna dagdeildar- og göngudeildarþjónustu. Gott væri vissulega að öll starfsemi í hjartalækningum væri á einum stað, en það sé ekki nauðsyn.

„Í gáttina fáum við oft 27-28 sjúklinga á dag eða um 8.500 manns á ári. Veikindi þessa fólks eru misjafnlega alvarleg eins og gengur. Í alvarlegustu tilvikunum er fólk flutt með sjúkrabíl og strax á vettvangi geta bráðaliðar hafið fyrstu aðgerðir; tekið hjartalínurit og önnur lífsmörk og sent upplýsingar beint inn á sjúkrahús þar sem læknir greinir og tekur ákvarðanir, segir hvort viðkomandi sjúklingur þurfi í hjartaþræðingu eða aðgerð, en undirbúningur með lyfjagjöf og öðru getur þá hafist strax í sjúkrabílnum. Í öðrum tilvikum kemur sjúklingurinn hingað í Fossvoginn til aðhlynningar,“ segir Karl. Bætir við að erlendis sé þetta fyrirkomulag alsiða, ástand sjúklinga sé greint áður en þeir koma í hús sem geri vinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra skilvirkari en ella.

Greint og forgangsraðað
Það var í september síðastliðnum sem tekin var ákvörðun um flutning á starfsemi Hjartagáttarinnar. Því þurfti að bregðast hratt við í undirbúningsstarfi, þar sem Landspítalafólk hefur meðal annars notið aðstoðar erlendra sérfæðinga sem hafa hannað bráðamóttökur við sjúkrahús víða um heim, að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðalækninga.
„Meðal annars með tilliti til þjónustu við hjartasjúklinga er það nú hjúkrunarfræðingur í stað ritara sem fyrstur starfsmanna hittir fólk hér í afgreiðslu bráðamóttökunnar; starfsmaður sem hefur þekkingu til að greina vanda sjúklinga og forgangsraða. Svona höfum við velt við hverjum steini í starfi alls sjö vinnuhópa sem undirbúið hafa að Hjartagáttin komi hingað. Og nú er hér allt til reiðu,“ segir Ragna Gústafsdóttir.

Flæðishindranir setja strik í reikninginn
Þau Ragna og Karl Andersen segja að í dag setji svonefndar flæðishindranir verulegt strik í reikninginn í allri starfsemi Landspítalans. Nú séu á deildum sjúkrahússins um 130 sjúklingar, gjarnan eldra fólk og hrumt sem hefur lokið meðferð en kemst veikinda sinna vegna ekki heim og fær ekki pláss á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Lýsir Ragna þessu sem tappa sem hafi áhrif á allra starfsemi Landspítalans og skapi álag sem mætt sé með yfirvinnu starfsfólks.
„Á þessu vandamáli þarf að taka heildstætt. Vandinn er líka ekki bara Landspítalans heldur samfélagsins alls, sem gerir kröfu um fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu,“ segir Ragna.

Morgunblaðið 29. nóvember 2018