
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur fengið skýr skilaboð frá hjúkrunarfræðingum um land allt um að þeir uni ekki við núverandi ástand, bæði þurfi að hækka laun og bæta starfsumhverfi.
Kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga og viðsemjenda sigldu í strand árið 2015 og í verkfalli lögðu rúmlega 2.000 hjúkrunarfræðingar niður störf. Ríkið stöðvaði verkfallið með lögum. Gerðardómur var settur þá og gildir úrskurður hans út mars næstkomandi.
Formlegar kjaraviðræður eru ekki hafnar og bíða hjúkrunarfræðingar svara frá viðsemjendum um tímasetningu fyrsta fundar, að sögn Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Aftur á móti erum við að funda með hjúkrunarfræðingum um allt land þessar vikurnar og erum að fá mjög skýr skilaboð frá þeim um að ekki verður starfað áfram í núverandi ástandi, hækka þurfi grunnlaunin og bæta vinnuumhverfið, meðal annars með því að stytta vinnuvikuna og bæta starfsumhverfi,“ segir hún. RUV fimmtudaginn 7. febrúar 2019