Karlmenn lengur sprækir hér en konur

Karlmenn lengur sprækir hér en konur

Íslendingar eru ofarlega á blaði yfir þær Evrópuþjóðir þar sem íbúar geta reiknað með að búa lengi við góða heilsu. Samkvæmt nýbirtum tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, má sjá að meðallífslíkur fólks við góða heilsu í álfunni eru 64,2 ár hjá konum en 63,5 ár hjá körlum. Sé þessi árafjöldi skoðaður sem hlutfall af lífslíkum almennt, óháð heilsufari, er það 77% hjá konum en 81% hjá körlum. Tölurnar eru frá árinu 2016, en tölurnar frá Íslandi eru reyndar frá 2015.

Íslenskar konur eru í tíunda sæti í álfunni yfir lífslíkur við góða heilsu. Hver kona getur reiknað með 66,2 árum að meðaltali sem er nokkuð yfir meðaltali í álfunni. Íslenskir karlar eru hins vegar sprækari mun lengur samkvæmt þessum tölum. Hver karl á Íslandi getur reiknað með því að lifa í 71,5 ár við góða heilsu. Aðeins Svíar og Norðmenn lifa lengur við góða heilsu.

Sérstaka athygli vekur að lífslíkur íslenskra karla við góða heilsu eru talsvert hærri en íslenskra kvenna. Munurinn er rúm fimm ár. Þetta er þveröfugt við meðaltalið í Evrópu sem er hærra meðal kvenna en karla. Hið sama gildir um einstök lönd á borð við Svíþjóð, Þýskaland og Danmörku. Í Noregi eru hins lífslíkur karla við góða heilsu betri en kvenna, rétt eins og hér, þó ekki muni eins miklu.

Í 20 ríkjum Evrópusambandsins voru lífslíkur kvenna við góða heilsu hærri en karla, til að mynda í Búlgaríu, Eistlandi og Póllandi. Í sjö Evrópusambandsríkjum voru sömu líkur hærri hjá körlum, til að mynda í Hollandi og Finnlandi. Morgunblaðið 14. febrúar 2019