Hvað er gáttatif?

Hvað er gáttatif?

Gáttatif (e. atrial fibrillation) er rafleiðnitruflun í leiðslukerfi hjartans.

Hjartað hefur innra leiðslukerfi sem stjórnar hjartsláttartíðni og takti. Í hverjum hjartslætti færist boðspenna frá toppi til botns hjartans og veldur því að það dregst saman og dælir blóði. Undir eðlilegum kringumstæðum er hjartsláttartíðnin undir stjórn sínushnútar (e. sinoatrial node), eða gangráðs. Hann er staðsettur í hægri gátt hjartans og er gerður úr sérhæfðum hjartavöðvafrumum sem mynda boðspennu.

Gangráðurinn stjórnar svokölluðum sínustakti hjartans sem er eðlilegur hjartsláttur sem sést á hjartalínuriti (EKG), sem P-bylgja, QRS-komplex og T-bylgja. Boðspenna frá gangráði færist hratt um gáttir hjartans og veldur því að þær dragast saman og dæla blóði niður í slegla. Á milli gátta og slegla hjartans er veggur úr þéttum vef sem stöðvar leiðni þar á milli, og þarf boðspennan því að fara í gegnum sérstakar frumur í skiptahnút (e. AV-node) til þess að komast niður í slegla og valda samdrætti þeirra.

Heimild og lesa meira: Vísindavefurinn