Læknar gagnrýna heilbrigðisstefnuna

Læknar gagnrýna heilbrigðisstefnuna
Reynir Arngrímsson
Reynir Arngrímsson
Læknar gagnrýna heilbrigðisstefnuna
Gunnlaugur Snær Ólafsson

Vonbrigði félagsins snúa meðal annars að því að skortur hefur verið á samráði við fagfólk,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands (LÍ), um þingsályktunartillögu frá heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Alþingis. Félagið telur að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og ábendinga LÍ vegna tillögunnar. Hann segist vonast til þess að í framhaldinu muni velferðarnefnd bjóða fulltrúum félagsins á fund sinn til þess að ræða athugasemdir LÍ.

Reynir segir félagið fagna því að sett sé stefna um framtíð málaflokksins og að margt sé jákvætt í henni. Hann bendir þó á að í kjölfar þess að drögin voru kynnt hafi félagið lagt mikinn metnað í að rýna í þau og hafi yfir sextíu læknar komið að því verkefni. „Síðan er opnað fyrir að skila inn athugasemdum í samráðsgáttinni, sem við gerðum. Við sjáum ekki merkjanleg áhrif af því sem við vorum að leggja fram, þannig að þetta er kannski svona sýndarsamráð sem var haft í samráðsgáttinni,“ segir hann.

Öryggi og gæðum ógnað
Félagið gagnrýnir meðal annars að ekki hafi verið tekið tillit til sjálfstætt starfandi lækna, enda var ekki minnst á þá þjónustu í drögum heilbrigðisráðuneytisins. „Fyrstu viðbrögð okkar voru að það virtist sem þessi þjónusta væri bara ekki til á Íslandi og að hún ætti ekki að vera til 2030, það var ekki stafkrókur um þetta. Þetta er þó nefnt núna, en það er engin stefnumótun fyrir þennan þátt heilbrigðiskerfisins,“ útskýrir Reynir.
Spurður hvort hann telji ríkja óvissa vegna þessa svarar Reynir því játandi. „Okkur finnst það vera óljóst núna. Það er enginn samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og sjálfstætt starfandi lækna, hann rann út um áramótin. Heilbrigðisráðherra gaf út endurgreiðslureglugerð, sem þýðir það að fólk getur sótt til þessara lækna og borgað samkvæmt gömlu gjaldskránni á meðan samningaviðræður standa. Hins vegar er ekki ljóst hvert samningsmarkmið ríkisins er.“

Þá varar félagið við hugmyndum um að notendur þjónustu séu sviptir réttindum, þar sem sjúklingar hafa rétt til þess að velja þá þjónustu sem þeir telja sig þurfa og þann þjónustuaðila sem veitir hana. Spurður um þennan þátt umsagnar félagsins segir Reynir þetta tengjast svokallaðri þjónustustýringu eða tilvísunarkerfi. „Við skiljum þetta þannig að fólk þurfi að greiða meira ef það fari ekki eftir þjónustustýringunni,“ útskýrir hann og vísar til þess að þetta skapi hættu á að fólk fái ekki þá þjónustu sem það vill og dragi úr möguleikum til þess að fá annað álit.

Fram kemur af hálfu félagsins að ákvæði vanti um að öll þjónusta sem greidd er af hálfu hins opinbera „skuli byggjast á gagnreyndum fræðum“. Þá segir að þjónusta veitt án sjúkdómsgreiningar og meðferð án aðkomu læknis ógni gæðum og öryggi innan heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt er bent á að ekki er að finna í tillögunni lágmarksöryggisviðmið við mönnun eininga.

Meðal tillagna LÍ er að skipaður verði umboðsmaður sjúklinga og stofnuð verði heildarsamtök sjúklinga með „tryggan faglegan og rekstrarlegan grunn“. Hvergi er minnst á þessar hugmyndir í heilbrigðisstefnunni og er einnig bent á að hvergi sé ákvæði um réttindi sjúklinga að finna. Félagið segist einnig vera á móti uppgjafartóni í heilbrigðisstefnunni gagnvart mönnun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og að þeirri áskorun verði mætt með fjarheilbrigðisþjónustu.

Morgunblaðið þriðjudaginn 5. mars 2019