Biðja fólk um að leita á heilsugæslu

Bráðamóttaka Fólk getur lent í því að vera vísað til heilsugæslu og Læknavaktarinnar svo hægt sé að tryggja sjúklingum í brýnni þörf þjónustu.

Biðja fólk um að leita á heilsugæslu
• Breytt verklag bráðamóttöku LSH

Fólk getur lent í því að vera vísað til heilsugæslu og Læknavaktarinnar svo hægt sé að tryggja sjúklingum í brýnni þörf þjónustu.

„Það hefur ekki verið stefna að vísa fólki burt með þessum hætti, hins vegar höfum við aukið samstarf við heilsugæslurnar á höfuðborgarsvæðinu og Læknavaktina með það að markmiði að sem flestir sjúklingar fái rétta þjónustu á réttum stað. Þeir sem geta nýtt sér þjónustu heilsugæslunnar nýti sér hana frekar en að bíða eftir þjónustu á spítalanum, á bráðamótttökunni,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðamóttöku LSH, spurður um það að sjúklingum sem hafa leitað á bráðamóttökuna hafi verið vísað frá.

Upplýsingar Morgunblaðsins herma að móðir hafi ásamt unglingi leitað til bráðamóttökunnar í kjölfar þess að unglingurinn hlaut áverka á þumalfingri við iðkun íþrótta. Var grunur um að fingurinn hefði brotnað, en síðar kom í ljós að svo var ekki. „Auðvitað getur verið að mat hjúkrunarfræðings sé rangt og að sjúklingi sem þarf myndatöku sé ráðlagt að leita fyrst á heilsugæslu,“ segir Jón Magnús. „Fyrir einstaklinga sem eru með minniháttar útlimaáverka og eru ekki með brot, er heilsugæslan mjög hæf til að sinna þeim.“

Ekki vegna álags
„Almenna verklagið er þetta og þetta er breyting hjá okkur. Við hófum þetta samstarf við heilsugæsluna fyrir tæpu ári síðan og ennþá skerptum við á því þegar bráðaþjónusta hjartagáttar lokaði í desember til þess að geta tryggt það að þeir sem þurfa bráða þjónustu fái hana með sem minnstum töfum. Sem betur fer hefur reynslan verið góð af þessu verklagi,“ útskýrir yfirlæknirinn.

Spurður hvort aukið álag á bráðamóttöku sé skýring þess að skerpt hefur verið á þessu verklagi, segir Jón Magnús ekki svo vera. „Grunnurinn liggur ekki í álaginu. Grunnurinn liggur í því að við viljum tryggja þeim sem eru meira veikir eða slasaðir sem fljótasta þjónustu og til þess að geta gert það þurfum við að leita leiða til þess að sjúklingar fá rétta þjónustu á réttum stað.“ gso@mbl.is

Morgunblaðið/Kristinn Magnússon miðvikudaginn 13. mars 2019