Fjörutíu og sex þjóðríki og borgir hafa innleitt sykurskatt

Karl Andersen

Fjörutíu og sex þjóðríki og borgir á heimsvísu hafa innleitt sykurskatt til að draga úr sykurneyslu. Yfirlæknir hjartagáttar Landspítalans segir að hækkun virðisaukaskatts á sykruð matvæli hér á landi sé þarft skref og löngu tímabært.

Í aðgerðaáætlun landlæknis til að draga úr sykurneyslu er lagt til að sælgæti og gosdrykkir sem innihalda sykur og sætuefni verði færð úr neðra þrepi virðisaukaskatts, sem er 11 prósent, í hærra þrep vrðisaukaskatts sem er 24 prósent. Samhliða þessu er lagt til að sett verði sérstakt vörugjald á þessar vörur en saman á þetta tvennt að skila 20 prósenta hækkun á verði sælgætis og gosdrykkja í þeim tilgangi að draga úr sykurneyslu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti aðgerðaáætlunina í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag. Var á fundi ríkisstjórnarinnar ákveðið að skipa starfshóp sem falið verður að innleiða áætlunina.

Visir 26. júní 2019