
Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir og Valgerður Hermannsdóttir
Við getum öll bjargað lífi
Alþjóða endurlífgunardagurinn
(„Restart a Heart Day“) er haldinn um allan heim 16. október ár hvert. Tilgangurinn er að vekja athygli á mikilvægi þess að allir læri grunnendurlífgun og geti brugðist við þegar á þarf að halda.
Í yfirlýsingu sem Evrópuþingið sendi frá sér 2012 var kallað eftir verkefnum sem stuðlað gætu að aukinni lifun eftir skyndilegt hjartastopp. Meðal þeirra verkefna var að auka þjálfun og kunnáttu almennings í grunnendurlífgun, fjölga sjálfvirkum hjartastuðtækjum á opinberum stöðum, breyta löggjöfum þar sem þörf krafði, til að öðrum en heilbrigðisstarfsfólki væri leyfilegt að hefja meðferð og nota hjartastuðtæki, og vekja almenning til vitundar um málefnið. Endurlífgunardagurinn sameinar öll þessi verkefni en herferðin var sett á laggirnar af Evrópska endurlífgunarráðinu (ERC) 16. október 2013 sem íslenska endurlífgunarráðið er aðili að.
„Við getum öll bjargað lífi“
var yfirskrift alþjóðlega endurlífgunardagsins, 16. október árið 2018. Það ár var dagurinn í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur á heimsvísu og tóku allir samstarfsaðilar Alþjóða endurlífgunarráðsins (ILCOR) þátt í verkefninu. Alþjóða endurlífgunarráðið samanstendur af endurlífgunarráðum um allan heim, þar á meðal þeim evrópska, ameríska, kanadíska, ástralska auk endurlífgunarráðs Asíu, Nýja Sjálands og Suður-Afríku. Verkefnið, og herferðin sem því fylgir, hefur því vaxið mikið á fáum árum.
Það er til mikils að vinna, því hjartastopp utan spítala deyðir þrjár milljónir manna í heiminum á ári, þar af 700.000 manns í Evrópu. Talið er að á Íslandi fari um 150 – 200 manns í hjartastopp á ári, en hjartastopp er þriðja algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum.
Allt að sjö af hverjum tíu hjartastoppum eiga sér stað í heimahúsi, þar sem einhver nákominn einstaklingur verður vitni að atburðinum í meira en helmingi tilfella. Lífslíkur þessara einstaklinga hafa verið undir 10% í Evrópu en sú meðhöndlun sem einstaklingur fær á fyrstu þremur til fjórum mínúturnar eftir hjartastopp getur bætt lífslíkur hans um allt að 50%. Lífslíkur einstaklings byggja því að miklu leyti á því hvort einhver nálægt honum geti veitt honum hjartahnoð og rafstuð sem fyrst.
Líklega eru flestir einstaklingar sem fara í hjartastopp utan spítala upphaflega í sleglatifi eða sleglahraðtakti. Sleglatif einkennist af hraðri og óreglulegri afskautun í hjartanu. Hjartað missir samhæfingu sína og hættir að dæla blóði. Kjörmeðferð við hjartastoppi af völdum sleglatifs er hjartahnoð og hjartarafstuð eins fljótt og hægt er. Með því að hefja hjartahnoð strax er blóðflæði, og þá um leið súrefnisflæði, haldið við í líkamanum. Einstaklingar geta því lifað af hjartastopp ef nærstaddir bregðast strax við á réttan hátt á meðan sleglatif er enn til staðar. Því skiptir öllu máli að þeir sem verða vitni að atburðinum kunni til verka, bregðist hratt við og að alsjálfvirk hjartastuðtæki séu sem víðast.
Fyrstu mínúturnar mikilvægar
Það er nefnilega ekki nóg að einungis heilbrigðisstarfsfólk kunni að bregðast við. Það eru allra fyrstu mínúturnar eftir hjartastopp sem skipta meginmáli. Liðið geta margar mínútur þar til sjúkrabíll og heilbrigðisstarfsfólk mætir á staðinn og þá getur það verið orðið of seint. Því skiptir í raun engu hvort þú ert ritari, smiður eða hjartaskurðlæknir, þegar einstaklingur fer í hjartastopp geta allir viðstaddir bjargað honum kunni þeir að bregðast rétt við og bregðist strax við. Endurlífgun má nefnilega veita í þrem einföldum skrefum. (sjá mynd)
Vitundarvakningin sem alþjóða endurlífgunardagurinn snýst um, er því fyrst og fremst um að vekja almenning til umhugsunar hvað miklu máli skiptir að þeir kunni endurlífgun. Endurlífgunarráð margra landa hafa sett sér markmið að kenna sem flestum rétt viðbrögð þennan dag og fengið heilbrigðisstarfsfólk, Rauða krossinn, sjálfboðaliða og önnur hagsmunasamtök í lið með sér. Þannig náði breska endurlífgunarráðið að kenna 195.000 manns endurlífgun í tengslum við daginn árið 2017 og 238.000 árið 2018.
Endurlífgunarráð Íslands hefur lagt sitt af mörkum á hverju ári til að vekja athygli á málefninu. Árið 2015 stóð ráðið fyrir svokölluðu Flash mob í Kringlunni og á Glerártorgi á Akureyri. Á árinu 2016 var farið í skóla og börnum boðið uppá kennslu í tengslum við verkefnið „börnin bjarga“. Að auki hafa fulltrúar ráðsins lagt vinnu í að koma boðskapnum á framfæri í fjölmiðlum, þýdd hafa verið veggspjöld og leiðbeiningar í tengslum við daginn og stutt við verkefni sem stuðla að aukinni fræðslu almennings.
Fræðsla og kennsla til barna og ungmenna skilar sér vel
Þó yfirmarkmið dagsins sé ávallt mikilvægi þess að almenningur kunni endurlífgun, hefur áherslan ekki verið sú sama á hverju ári. Þannig var 16. október 2016 helgaður verkefninu „börnin bjarga“ eða „Kids safe lifes“. Evrópska endurlífgunarráðið hóf verkefnið árið 2015 í þeim tilgangi að stuðla að innleiðingu endurlífgunarkennslu í grunnskólum þar sem aðal áherslan væri á hjartahnoð. Sýnt hafði verið fram á allt að þreföldun á þátttöku vitna meðal þjóða sem þegar höfðu innleitt slíka kennslu til barna frá 12 ára aldri og tvöföldun á lifun eftir hjartastopp. Börn hika nefnilega ekki við að hefja hjartahnoð ef á þarf að halda. Ennfremur eru þau mjög áhugasöm, vekja athygli á málinu við fjölskyldu og vini og kenna jafnvel aðstandendum og breiða þannig út boðskapinn um mikilvægi málefnisins út í samfélaginu. Margföldunaráhrif endurlífgunarkennslu til barna eru því gríðarleg.
Á Íslandi hefur mikil vinna farið fram við að koma endurlífgunarkennslu inn í grunnskóla. Kennslan er ekki hluti af skyldunámsefni barna hér á landi, en hefur þó farið fram í fjölmörgum skólum í tengslum við val á unglingastigi, áfanga í lífsleikni og fleira. Atriði sem nefnd hafa verið að hamli því að endurlífgunarkennsla sé hluti af námsefninu er skortur á dúkkum og þjálfun kennara til verksins. Þróunarmiðstöð heilsugæslu á landsvísu ákvað að taka verkefnið „börnin bjarga“ upp á arma sína árið 2018 og gera kennsluna hluta af skyldufræðslu skólahjúkrunarfræðinga um allt land. Búið er að útbúa kennsluefni og fjármagna verkefnið að miklu leyti, en fjármagn fyrir dúkkum vantar þó enn. Verkefnið hefur verið unnið í samvinnu við ýmsa aðila, svo sem Rauða Krossinn, Neyðarlínuna og Endurlífgunarráð Íslands, sem gaf 30 dúkkur til verkefnisins, auk þess sem Thorvaldsenfélagið styrkti verkefnið. Til stendur að kenna öllum nemendum 6. til 10. bekkjar endurlífgun á hverju ári, með sérstaka áherslu á hjartahnoð. Vonir standa til að þessi kennsla geti hafist strax haustið 2019 ef fjármagn fæst til dúkkukaupa.
Námskeið á heimasíðu Rauða krossins
Hér á landi er kennsla í grunnendurlífgun að miklu leyti í höndum Rauða krossins í samvinnu við Endurlífgunarráð Íslands. Námskeið í endurlífgun fyrir almenning kallast grunnendurlífgunarnámskeið og samanstanda þau af kennslu í endurlífgun og ýmiskonar leiðbeiningum í fyrstu hjálp sem gott er að kunna. Hægt er að finna námskeiðin inn á heimasíðu Rauða krossins. Þar má líka sjá kennslumyndband um notkun sjálfvirkra hjartastuðtækja fyrir fullorðna og einnig fyrir börn. Alsjálfvirk hjartastuðtæki eru einföld í notkun og hefur þeim fjölgað hratt á almenningstöðum undanfarin ár.
Margir læra einnig grunnendurlífgun í tengslum við nám eða starf, þannig lærir allt björgunarsveitarfólk grunnendurlífgun, allir atvinnubílstjórar fá kennslu tengda meiraprófinu, sjómenn fá kennslu í sjómannaskóla Sæbjargar, margir framhaldsskólanemendur hafa val um að taka áfanga í grunnendurlífgun, margir vinnustaðir hafa kosið að senda starfsfólk sitt á slík námskeið.
Þá er óupptalið allir þeir nemar í heilbrigðisfræðum og heilbrigðisstarfsfólk sem skylt er að læra grunnendurlífgun. Ætlast er til að allir sem á einhvern hátt koma að aðhlynningu sjúklinga fari á slík námskeið. Áhersla er lögð á verklegar æfingar og eru námskeiðin skipulögð með tilliti til þess hvers konar deild starfsmaður vinnur á og hvers konar heilbrigðisstarfsmann um er að ræða. Heilbrigðisstarfsfólk sem starfar á bráðadeildum, svo sem slysadeild, gjörgæslu, hjartadeildum, lærir sérhæfða endurlífgun, en þar eru er framkvæmd flóknari inngrip eins og öndunaraðstoð og lyfjagjöf. Endurlífgunarráð Íslands hefur umsjón með öllum námskeiðum í sérhæfðri endurlífgun fullorðinna og barna á landinu. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri, ásamt Sjúkraflutningaskólanum, skipuleggja námskeiðin í samvinnu við endurlífgunarráð.
Skoða – hringja – hnoða
Líklegt er að Ísland eigi jafnvel enn eitt metið á þessum vettvangi, þ.e. að geta státað af því að eiga hæsta hlutfall almennings sem lært hefur endurlífgun. Þó þarf að hafa í huga að nauðsynlegt er að halda kunnáttunni við og fara á endurmenntunarnámskeið. Endurlífgunarráð og þeir sem lært hafa endurlífgun vilja vekja athygli og umræðu á þessum málum og hvetja alla til að læra réttu viðbrögðin. Því alltaf er hægt að gera betur. Lærum öll endurlífgun svo við séum í stakk búin þegar á þarf að halda í þrem einföldum skrefum – Skoða – hringja – hnoða.

