Hjálparefni í samheitalyfjum geta valdið aukaverkunum

Hjálparefni í samheitalyfjum geta valdið aukaverkunum

Hjálparefni í samheitalyfjum geta valdið aukaverkunum
• Mjólkursykur er algengur í hjálparefnum lyfja

Fólk sem skiptir úr frumlyfi í samheitalyf og öfugt getur í einstaka tilfellum fundið fyrir aukaverkunum eða fengið ofnæmisviðbrögð vegna mismunandi hjálparefna í lyfjunum. Þetta staðfestir Rúnar Guðlaugsson, sérfræðingur hjá Lyfjastofnun, í samtali við Morgunblaðið.

Hjálparefni í lyfjum geta til að mynda verið efni sem halda töflum saman, sundrunarefni sem hjálpa töflunum að leysast upp, ýmis bindiefni og fylliefni. Virka efnið í samheitalyfjum er hins vegar alltaf það sama. Segir Rúnar að Lyfjastofnun berist reglulega ábendingar um aukaverkanir samheitalyfja þó að sjaldan séu þær taldar alvarlegar. Til að mynda sé mjólkursykur algengt hjálparefni í lyfjum sem getur valdið viðbrögðum hjá fólki með mjólkursykursóþol.

Hann segir það vera ákaflega mismunandi eftir lyfjum hvort algengt sé að fólk finni mun á frumlyfi og samheitalyfi. Dæmi séu um að fólk sem notar lyf vegna geðræns vanda eins og þunglyndis finni stundum mun á verkun samheitalyfja og detti jafnvel aftur í þunglyndi eftir að hafa skipt um lyf.

Rúnar segir að mikilvægt sé að sjúklingar fylgist vel með aukaverkunum lyfja og hafi samband við lækni ef lyf virka ekki á réttan hátt. Þá geti læknir merkt lyfseðil þannig að ekki er boðið upp á samheitalyf. „Þetta er ákaflega mismunandi eftir lyfjum og við hvaða sjúkdómum er verið að taka þau,“ segir Rúnar. „Þú heyrir ekki af því að fólk kvarti yfir íbúfeni vegna þess að það fær ekki tiltekna tegund,“ segir Rúnar.

Jónína Salóme Jónsdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfjum og heilsu, segir að starfsmönnum lyfjaverslana sé skylt að bjóða viðskiptavini upp á samheitalyf séu þau ódýrari. Hún tekur undir með Rúnari og segir hjálparefni í lyfjum geta haft mismunandi áhrif á fólk en leggur áherslu á að aukaverkanir og ofnæmi séu ekki bundin við samheitalyfin. Frumlyfin séu ekki alltaf besti kosturinn fyrir fólk.

rosa@mbl.is þriðjudaginn 9. júlí 2019