Velferð í þrjátíu ár

Pétur Bjarnason
Velferð í þrjátíu ár

Stofnfundur Landssamtaka hjartasjúklinga (LHS)var haldinn í Domus Medica 8. október 1983. Mættu til fundarins 230 stofnfélagar og var það umfram bjartsýnustu vonir. Fyrstu stjórn LHS skipuðu Ingvar Viktorsson, formaður, Alfreð G. Alfreðsson varaformaður, Björn Bjarman ritari, Jóhannes Proppé gjaldkeri og Sigurveig Halldórsdóttir. Lög fyrir samtökin voru samþykkt á stofnfundinum.

Markmið LHS var frá upphafi að standa fyrir fjáröflun, til þess að vinna að markmiðum samtakanna með fræðslu um hjartasjúkdóma, upplýsingaöflun og miðlun, styrkja menntun sérfræðinga og að efla samvinnu við önnur samtök hjartasjúklinga. Í upphafi var hafist handa um fjáröflun, fyrst með sölu minningarkorta, sem gekk strax vel. Næst var safnað fé til að kaupa hjartasónartæki og þá hjartaþræðingartæki, og síðan tók hvert verkefni við af öðru.

Fljótlega eftir stofnun samtakanna var tekið upp kynningar- og upplýsingastarf í húsnæði Hjartaverndar að Lágmúla 9. Var samstarf þessara tveggja samtaka mjög gott að þessari starfsemi. LHS kom sér upp eigin skrifstofuaðstöðu 1985 í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Þegar hér var komið sögu var talið brýnt að koma málefnum hjartasjúklinga betur á framfæri og fá að gang að prentmiðli, sem þá var helsti og næstum eini vettvangurinn til kynningar- og upplýsingastarfs.

Blaðið Reykjalundur, sem gefið var út af SÍBS, birti grein eftir Ingólf Viktorsson árið 1984 um fyrstu ár LHS og fljótlega eftir það var LHS boðið að vera þáttakandi í útgáfu SÍBS frétta og birta þar efni um starfsemi sína. Blaðið yrði sent ókeypis til allra félaga SÍBS og LHS. Þessi boði var tekið með þökkum, enda töldu landssamtökin sig enn ekki hafa bolmagn til eigin útgáfu. Var fréttapistill frá LHS fastur liður í SÍBS fréttum á næstu árum, sem þar með bárust til félagsmanna.

Hallur HermannssonÁ aðalfundi 1985 var samþykkt að ráða starfsmann á skrifstofu samtakanna. Var Hallur Hermannsson ráðinn og jafnframt tók hann sæti í ritnefnd SÍBS frétta. Var sá vettvangur nýttur eftir föngum til að færa félagsmönnum fréttir af starfi LHS. Samstarfið við SÍBS um útgáfu SÍBS frétta gekk mjög vel og var LHS hagstætt. Þar var opin leið til að koma fréttum af starfseminni til félagsmanna, en þeim fór ört fjölgandi, voru orðnir 1.400 á aðalfundi 1989. Þar að auki hafði LHS ekki þurft að bera neinn kostnað af útgáfunni. En þrátt fyrir allt var þetta ekki sérstakt málgagn landssamtakanna og SÍBS var aðalútgefandi SÍBS frétta. Því var ekki óeðlilegt að fleiri möguleikar yrðu skoðaðir.

Á fimm ára afmælisári LHS kom upp hugmynd um að gefa út eigið blað í tilefni afmælisins. Blaðið hlaut nafnið Velferð og kom fyrst út árið 1989. Sú útgáfa gekk mjög vel og var ákveðið að halda henni áfram. Velferð var strax ætlað að vera málgagn og fréttabréf samtakanna og var blaðið frá upphafi fjármagnað með auglýsingum, og sent öllum félagsmönnum og velunnurum, auk þess sem því var dreift á sjúkrastofnanir og biðstofur. Skemmst er frá því að segja að blaðið Velferð hefur komið út óslitið síðan og alla tíð gegnt því hlutverki sem því var í upphafi ætlað.

Þannig var blaðið strax gagnleg fréttaveita og einnig var aflað fjár með auglýsingum í blaðið. Má með réttu segja að það hafi aldrei verið baggi á samtökunum, sem nú heita Hjartaheill, heldur þvert á móti stutt fjárhagslega við reksturinn auk þess að vera fréttaveita og upplýsingamiðill. Allt frá upphafi hefur verið árlegur ágóði af útgáfunni.

Alfreð G. AlfreðssonFyrsta tölublaðið var 20 síður og ritstjóri var Alfreð Georg Alfreðsson. Blaðið var veglegt og að hluta prentað í lit og þannig var það fyrstu árin, en svo tók fljótlega við litprentun á öllu blaðinu, enda hafði tækninni fleygt fram á þessum tíma. Í ritstjórnargrein þessa fyrsta tölublaðs er í raun framtíðarstefna blaðins mörkuð. Þar segir m.a.: Tilgangur blaðsins er að vera málgagn og fréttabréf landssamtakanna, þ.e. að koma á framfæri fræðslu um hjarta- og æðasjúkdóma og helstu nýjungum í meðferð á þeim, miðla hvers konar upplýsingum um starfsemi samtakanna og að vera tengiliður stjórnarinnar við hina almennu félagsmenn víðs vegar um landið. […]

Áætlað er að blaðið komi út 2svar 3svar á ári og mun það verða sent ókeypis til allra félagsmanna og velunnara samtakanna, auk þess sem það mun gefið öllum sjúkrahúsum landsins, heilsugæslustöðvum, læknastofum, apótekum og fleiri stofnunum og aðilum, sem kunna að óska eftir því að það liggi frammi til lesturs. Fjármögnun blaðsins er fyrirhuguð með auglýsingum og sölu styrktarlína, og er þetta fyrsta tölublað þannig fjármagnað.

Skemmst er frá því að segja að þessi áform sem ritstjórinn setur fram í leiðara hafa gengið fyllilega eftir. Næsta tölublað var einungis fjórar síður en þrjú tölublöð komu út þetta fyrsta ár. Hallur Hermannsson tók við ritstjórn með jólablaðinu 1990 en stefna ritstjórnar var óbreytt. Yfirleitt var reynt að hafa fræðigreinar frá læknum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki í blaðinu, fjallað um mataræði og hollustu, þá voru reynslusögur og frásagnir af ýmsum toga og fréttir af fjáröflun og félagsstarfi. Á þessum árum var útlit blaðsins ekki óáþekkt því sem það hefur verið undanfarin ár, með fallega litmynd á forsíðunni og yfirleitt ekkert annað efni þar, nema jóla-eða hátíðakveðja þegar það átti við. Á 10 ára afmæli LHS 1993 var gefið út veglegt 50 síðna litprentað afmælisblað. Þar var rifjuð upp saga landssamtakana og fjöldi góðra greina var í blaðinu.

Sigurjón JóhannssonSigurjón Jóhannsson tók við ritstjórn af Halli Hermannssyni 1995, en hafði þá verið í ritnefnd blaðsins um árabil. Sigurjón var reyndur blaðamaður og kenndi fjölmiðlun í framhaldsskóla svo hann var á heimavelli, enda átti hann fyrir höndum langan og farsælan starfsferil sem ritstjóri. Fljótlega breytti Sigurjón forsíðunni og gerði hana upplýsinga- og fréttasíðu með fleiri myndum en áður. Sigurjón lagði mikla áherslu á fréttir frá félögunum og af starfsemi landssamtakanna, sem hefur reyndar allan tímann verið sterkur þáttur í útgáfu blaðsins. Fyrir bragðið er þar að finna traustan heimildabanka um sögu samtakanna og viðfangsefni þeirra í áranna rás.

Eggert SkúlasonEggert Skúlason, frétta og blaðamaður tók við ritstjórn Velferðar af Sigurjóni árið 2002. Á árunum 1996 – 2005 komu út 2 4 tölublöð á ári, oftast þrjú, að vori, hausti og jólablað. Fljótlega eftir að Eggert tók við eða árið 2004 fékk blaðið það yfirbragð á forsíðu sem hefur haldist síðan, ein mynd sem flæðir yfir alla forsíðuna og yfirleitt ekki annað efni, nema þá yfirlit um efnisinnihald. Frá árin 2006 hefur Velferð ávallt komið út tvisvar á ári, blað að vori og annað ýmist í nóvember eða í desember. Þess má geta að frá árinu 2004 varð breyting á nafni Landssamtaka hjartasjúklnga, LHS, og heita þau nú Hjartaheill.

Þórir GuðbergssonÞórir Guðbergsson, félagsráðgjafi, kennari og rithöfundur tók við ritstjórn árið 2007 og gegndi því starfi út árið 2010. Þórir hafði áður verið ritstjóri tímarita, og bókaflokks sem út kom um margra ára skeið og skrifað barna- og unglingabækur. Þórir lét af starfi ritstjóra í árslok 2010.

Þá komu út hjá félögum sem höfðu með aðsetur í SÍBS húsinu og voru hluti af SÍBS alls fimm tímarit og fréttabréf, tvisvar, þrisvar á ári. Eftir umræður innan og á milli félaganna var ákveðið að leita samstarfs þeirra um sameiginlega blaðaútgáfu. Voru haldnir allmargir fundir um málið og það rætt fram og til baka, en ekki náðist samstaða um þetta samstarf og var horfið frá því og hver sinnti sínu áfram.

Sveinn GuðmundssonSveinn Guðmundsson tók við ritstjórn Velferðar árið 2011. Hann var þá stjórnarmaður Hjartaheilla en var síður en svo óreyndur í félagsmálum og ritstörfum. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Landssambands sumarhúsaeigenda um langt árabil og hefur ritstýrt og gefið út Sumarhúsahandbókina á vegum þess. Sveinn var ritstjóri til ársins 2014 að hann lét af starfi. Sveinn tók við embætti formanns Hjartaheilla árið 2015.

 

Pétur BjarnasonPétur Bjarnason tók við ritstjórninni árið 2015. Hann var ekki ókunnugur starfi Hjartaheilla, því hann var framkvæmdastjóri SÍBS og Happdrættis SÍBS frá árin 2000 til 2011 ásamt því að ritstýra SÍBS blaðinu á sama tíma. Pétur og Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla höfðu starfað saman að ýmsum málefnum samtakanna um árabil, auk þess sem Pétur hafði skráð sögu Hjartaheilla, bæði í bókinni Sigur lífsins, SÍBS í 75 ár, 1938 2013 og í sérstöku afmælisblaði Velferðar árið 2014.

Pétur hefur gegnt starfi ritstjóra Velferðar síðan. Eins og að framan segir þá er Velferð mjög gagnleg sem heimilda- og uppflettirit rit um sögu og starf Hjartaheilla. Blaðið er nú komið á vefinn www.timarit.is og þar er hægt að lesa blaðið frá upphafi. og afrita efni yfir í ritvinnsluskjöl

Rétt þykir að geta þess hér, í yfirliti um útgáfumál Hjartaheilla, að einnig hefur verið gefið út mikið af fræðsluefni á vegum samtakanna ásamt því að styðja slíka útgáfu hjá öðrum. Ein fyrsta útgáfa LHS var kynningarrit um samtökin og hjartasjúkdóma, almenningi til upplýsingar. Þá var gefið út ritið Hjartasjúkdómar, varnir, lækning, endurhæfing, árið 1992. Það hefur síðan verið endurútgefið á nokkurra ára fresti og efnið uppfært. Eru ljón í veginum hefur verið einnig vinsælt rit. Samtökin hafa gefið út myndbandið Hjartans mál svo og Hjartabókina sem gefin var til Hjartadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut og hefur verið uppfærð eftir þörfum. Þá má nefna myndbönd svo sem Grettir Þroskasaga hjartasjúklings, Með hjartað úr takti, fræðslumynd um gáttatif, Lífæðar hjartans, fræðslumynd um hjarta- og æðasjúkdóma, Bara ég hefði aldrei byrjað, sem fjallar um afleiðingar reykinga. Auk þess hafa Hjartaheill komið að gerð fleiri fræðslumynda með öðrum. Horfa má á allar þessar myndir á vefsíðu Hjartaheilla https://hjartaheill.is/fraedsla-17/fraedslalink en þar eru líka margar fræðandi greinar.

Hjartabókin

Hjartasjúkdómar

Eru lón í veginum

Grettir

 

 

 

 

 

 

Heimasíða samtakanna www.lhs.is kom til sögunnar nokkru fyrir síðustu aldamót og hefur verið að sækja í sig veðrið alla tíð síðan sem upplýsingamiðlun og fréttatorg. Nafnbreyting varð á síðunni eftir 2004 og heitir hún nú: www.hjartaheill.is.