
Sveinn Guðmundsson
Velferð geymir sögu okkar
Velferð er 30 ára. Blaðið sem geymir sögur okkar, fræði, vangaveltur og stiklur liðins tíma. Líf okkar mannanna er ofið úr sögum. Á hverju andartaki bætist nýr þráður við þær sögur og smám saman dragast þeir allir í ákveðna mynd og oft birtast þær í Velferð úr félagsstarfinu. Það er saga okkar, um félagslífið og starf sem Hjartaheill hefur haldið utan um. Þegar við horfum á þræðina tvinnast saman og þekkjum svip okkar sem þar er íofinn koma í ljós myndir liðins tíma. Já, jafnvel ógrynni mynda sem segja sögur. Sögur sem geyma gleðilegt atvik og hressileg. Aðrar sögur eru um sorg og rifja upp daprar stundir í lífi okkar, en flestar geyma sögurnar atvik úr litskrúðugum hversdeginum sem er vettvangur okkar. Líðandi stund í önnum dagsins er hin mikla sögusmiðja og þar verða til sögur sem fela í sér markmið, vonir okkar og þrár. Sögur sem fleyta áfram metnaði okkar, samúð og samkennd með þeim sem minna mega sín. Samtökin okkur leggja sig fram og allt frá stofnun hafa þau beitt sér fyrir fræðslu og forvörnum varðandi hjartasjúkdóma, veitt aðstoð og ráðgjöf og staðið fyrir margvíslegum umbótum í þágu hjartasjúklinga og sinnt jafningjafræðslu.
Hjartaheill eru samtök sem vilja láta gott af sér leiða í nærsamfélagi sem og víðar. Við viljum skapa tækifæri fyrir hjartasjúklinga og þá sem vilja bæta heilsuhag sinn. Lífshættir nútímafólks einkennast mjög af vanþjálfun eða hreyfingarleysi, ofnæringu og streitu. Mikið verk ef fyrir höndum og nauðsynlegt að ná fram breytingum á óheppilegum lífsháttum.
Safnast hefur á einn stað fjöldi upplýsinga sem má nota til að læra af. Velferð hefur í gegnum tíðina birt fjölda greina um hjarta-og æðasjúkdóma eftir leika og lærða. Við eigum að horfa til framtíðar, nestuð af reynslu fortíðar með það markmið að læra af reynslunni.
Sá mikli auður sem samtökin hefur safnað sér í gegnum tíðina er fólkið sem hefur unnið án endurgjalds fyrir samtökin, þ.e. sjálfboðaliðarnir.
Fólk fer í sjálfboðaliðastörf af ýmsum ástæðum. Mörgum finnst starfið áhugavert og gefandi, aðrir vilja láta gott leiða af sér. Sjálfboðaliðastarf getur nefnilega verið lærdómsríkt og þroskandi.
Hjartaheill hefur treyst á sjálfboðaliða í sínum röðum frá stofnun samtakanna. Við höfum í því sambandi verið heppin að hafa fengið í raðir okkar virka þátttakendur sem hafa mótað umhverfi sitt og samfélagið okkar. Því ber að þakka.
Að sýna þakklæti er afar mikilvægt í mannlegum samskiptum og felur í sér jákvæðan hug til þeirra sem þakklætið beinist að. Almennt þarf ekki mikið til. Nóg er að segja orðin „takk fyrir“, það er að minnsta kosti ágæt byrjun.
Þakklæti er innri upplifun og ytri tjáning. Innra þakklæti lýtur að því sem við erum, eigum, höfum og því sem við verðum ekki fyrir, t.d. áföllum og fáum að halda heilsu.
Þakklæti felst í því að kunna að bera kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra að meta það mikils.
Fyrir hönd samtaka okkar vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim einstaklingum sem hafa lagt fram sinn skerf að móta sögu okkur frá liðnum tíma og gert allt það sem við höfum framkvæmt, mögulegt.
Það fer vel á því að vitna til Melody Beattie þegar hún segir;
“Þakklæti fær okkur til að skilja það liðna, færir okkur gleði og frið í dag og skapar bjarta sýn fyrir morgundaginn.“
Með afmæliskveðju
Sveinn Guðmundsson,
formaður Hjartaheilla og SÍBS