
Rafrettur – eru bragðefnin varasöm?
Í Velferð hefur áður verið fjallað um rafrettur og lýst áhyggjum af því hversu mikil aukning virðist vera á notkun þeirra hérlendis. Margir telja þetta vera góðan kost fyrir stórreykingamenn sem vilja hætta sígarettureykingum og almennt er talið að rafrettur séu snöggt um skárri kostur en sígarettur. Margar rannsóknir benda þó til þess að rafretturnar komi sjaldnast alveg í stað reyktóbaksins, nema þá helst fyrst í stað, en þær endi síðan sem viðbót við aðrar reykingar, ef mönnum tekst ekki að hætta þeim alveg.
Minna má á það að Íslendingar eru fremstir meðal þjóða í tóbaksvörnum og á hálfri öld hefur hlutfall þeirra sem reykja daglega fækkað um 70%. Það er umtalsverður árangur, en nú er talið að um 8‑9% landsmanna reyki daglega. Vonir manna standa til þess að þetta hlutfall fari enn lækkandi á næstu árum, með eða án þess að rafrettur komi við sögu. Þessi mikli árangur á undanförnum árum náðist án þeirra og engin ástæða er til að ætla að svo gæti ekki verið áfram.
Í umræðum um rafrettur sem fram hefur farið á RÚV og einnig á síðum dagblaðanna að undanförnu hefur komið fram að það sé margt að varast varðandi notkun á rafrettum eða veipi eins og þær eru oft nefndar sem túlkun á enska orðinu Vape.
Krabbameinsfélagið hefur lýst miklum áhyggjum af vaxandi notkun unglinga og ungs fólks á rafrettum. Nýlegar fréttir eru af því að fimm einstaklingar hafi þurft að leita á Landspítalann á árinu með gat á lunga eftir rafrettureykingar. Það gefi vísbendingu um hversu alvarlegar afleiðingar þeirra getur haft.
Tómasar Guðbjartsson, prófessor og læknir á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala hefur meðhöndlað þessa sjúklinga og hann lýsir ástandinu þannig í viðtali við Mbl.: „Þetta er í flestum tilfellum ekki lífshættulegt ástand, en getur verið býsna alvarlegt og er óþægilegt fyrir þann sem fyrir þessu verður,“ segir hann.
Í fjórum tilvikum féll annað lungað saman, en það kallast loftbrjóst og hjá einum sjúklingi myndaðist svokallað loftmiðmæti. „Þá klýfur loftið sig inn miðmætið, sem liggur á milli lungnanna og umlykur hjartað, barkann og vélindað,“ segir Tómas. Hann segir að í öllum þessum tilvikum hafi verið um að ræða unga karla þar sem innöndun ertandi veipgufu virðist koma við sögu. „Veipgufan er ertandi, hún veldur hóstakasti og yfirþrýstingi í lungum og getur rofið gat á þau. Svipuðum tilfellum hefur verið lýst erlendis eftir kannabis- og krakkreykingar, enda er reynt að halda reyknum eins lengi í lungunum og hægt er til að fá sem mest áhrif af því efni sem verið er að reykja,“ segir Tómas.
Að sögn Tómasar hafa langtímaáhrif rafrettna á lungu lítið verið rannsökuð. „Það er þó talsvert af rannsóknum í gangi á þessu núna þar sem m.a. er verið að skoða astma og áhrif á lungnaþembu,“ segir hann. „Það er þó alveg ljóst að rafrettur geta engan veginn talist heilsusamlegar, hvað þá fyrir þá sem eru með viðkvæm lungu.“
Rannsóknir hafa sýnt að hátt í helmingur nemenda í 10. bekk grunnskóla hefur reykt rafrettur og að tæpur fjórðungur reykir þær daglega. Hlutfall barna og unglinga sem veipa hefur aukist ár frá ári og hefur það m.a. verið rakið til þess að vökvinn hefur verið markaðssettur sem litríkt sælgæti.
Í útvarpsþættinum Samfélagið á Rás 1 var á dögunum rætt við Eddu Olgudóttur um veipvökva og bragðefni sem bætt er í hann að gera hann meira aðlaðandi. Edda segir að reyndar megi færa rök fyrir því að rafrettur séu langtum skaðminni en tóbaksreykingar. Veipið sé hins vegar markaðssett sem meinlaus staðgengill sígarettnanna og geti því komið þeirri hugmynd inn hjá ungu fólki að þetta sé skaðlítill kostur og í lagi.
Edda segir í fyrrgreindu viðtali að ekki séu fyrirliggjandi næg gögn til að fullyrða að veip sé skaðlaust. Hún telur rétt að gjalda varhug við þeim bragðefnum sem blandað er í veipvökvann. Flest þeirra hafi verið prófuð áður og þá sem matvæli. Þannig hafi þau yfirleitt staðist prófið sem skaðlaus eða skaðlítil í því formi. Það gefi hins vegar ekki rétta mynd, þar sem í notkun þeirra við veipið breytist þau í gufu og við hitann geti orðið efnabreytingar í þeim. Upphaflegar rannsóknir á hafi miðast við notkun þeirra sem matvæla þar sem leið þeirra liggur í gegn um meltingarfærin. Við veip hitna þessi bragðefni, þá geta orðið efnabreytingar á þeim og leið gufunnar liggur um lungun sem eru mun viðkvæmari en meltingarfærin.
Edda vitnaði í rannsókn sem gerð hefur verið í Portland State University og leiðir þessar efnabreytingar í ljós þegar bragðefnin eru hituð og breytt í gufu eins og gerist í rafrettunum. Gufan getur þá verið ertandi fyrir lungun og jafnvel geta komið fram eiturefni sem ekki voru til staðar án hitunar. Þetta er þó mjög mismunandi eftir bragðefnum og tegundum.
Enn skortir verulega á frekari rannsóknir á rafrettum og bragðefnum sem notuð eru í þeim. Þar sem rafrettur eru tiltölulega nýtt fyrirbæri liggja engar langtímarannsóknir fyrir á skaðsemi eða skaðleysi þeirra.
Edda sagðist telja að bragðefnin væru frekar markaðssett fyrir nýja notendur heldur en þá sem væru að reyna að hætta reykingum. Ætla mætti að reykingamenn sem væru að reyna að hætta settu ekki fyrir sig tóbaksbragðið og leituðu síður eftir bragðefnunum. Unglingum fyndist e.t.v. veip með ávaxtabragði eða öðru góðu bragði ekki jafn skaðlegt og veip með tóbaksbragði, en það kann að vera þveröfugt.
Í skýrslu frá Norrænu velferðarmiðstöðinni, um áhrif bragðefna á notkun á reyklausu tóbaki og rafrettum, kemur fram að Íslendingar nota rafrettur meira en þegnar annarra Norðurlandaþjóða. Hlutfall Íslendinga 18 ára og eldri sem nota rafrettur daglega er 4,8%. Notkunin er enn meiri í aldurshópnum 18-24 ára en 5,5% þeirra nota rafrettur daglega.
Lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur tóku gildi 1. mars s.l. Neytendastofa fer með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir þær.
Meðan rannsóknir skortir á heilsufarsáhrifum af notkun rafrettanna er ástæða til að gæta varúðar við notkun þeirra og halda úti öflugu fræðslustarfi meðal ungmenna um skaðsemi nikótíns almennt. Sá góði árangur sem náðst hefur hér á landi í tóbaksvörnum er of dýrmætur til að hann fari forgörðum.
Pétur Bjarnason tók saman.