Heimsleikar líffæraþega

Kjartan Birgisson, Laufey Rut Ármannsdóttir og Björn Magnússon

Annað líf
Heimsleikar líffæraþega

17. til 24. ágúst fara fram heimsleikar líffæraþegar í Newcastle – Gateshead og munu tveir íslenskir keppendur taka þátt að þessu sinni.

Eru þetta fjórðu leikarnir þar sem Íslendingar taka þátt. Við tókum í fyrsta skipti þátt í þessum leikum árið 2013, en þá voru þeir haldnir í Durban í Suður Afríku. Þar voru þrír Íslendingar meðal keppenda og náði Laufey Rut Ármannsdóttir að krækja sér í verðlaun í 5 km. götuhlaupi. Einnig tóku þá þátt þeir Björn Magnússon og Kjartan Birgisson, kepptu þeir báðir í golfi auk þess sem Kjartan keppti í 5 km og 100 metra hlaupum og badminton.

Næstu heimsleikar líffæraþega voru haldnir 2015 og fór Kjartan Birgisson þá einn til Argentínu, nánar til tekið til Mar del Plata og keppti í golfi. Síðast voru leikarnir svo haldnir 2017 í Malaga á Spáni og aftur fór Kjartan einn og tók þátt í golfi.

Nú í sumar eru Kjartan og Hjörtur Lárus Harðarson skráðir til leiks í golfi og munu keppa í bæði einstaklings og liðakeppninni.

Það á að vera áhugi og spenna meðal líffæraþega að fá að taka þátt í þessum leikum og nota tækifærið til að stunda íþróttir eftir ígræðslu. Því viljum við kynna þennan möguleika á að taka þátt í skemmtilegu íþróttamóti og hitta jafningja sína á þessum vettvangi.

Lög um „ætlað samþykki“ hafa tekið gildi
Þann 1. janúar 2019 tóku gildi á Íslandi ný lög um líffæragjafir svokallað ætlað samþykki til líffæragjafa. Með þessum lögum er gert ráð fyrir að allir Íslendingar séu líffæragjafar nema þeir hafi tekið annað fram sérstaklega. Eftir sem áður hvetjum við alla til að taka afstöðu til líffæragjafa og ræða við sína nánustu um vilja sinn til málsins. Það er nefnilega þannig að næstu aðstandendur eru alltaf spurðir um vilja viðkomandi og geta slíkar upplýsingar, sem gefnar hafa verið, ráðið úrslitum um hvort hægt verði að nýta líffærin eða ekki.

Kjartan Birgisson tók saman

Heimsleikar 2013. Laufey Rut á verðlaunapalli.
Heimsleikar 2013. Laufey Rut á verðlaunapalli.
Kjartan Birgisson, Laufey Rut Ármannsdóttir og Björn Magnússon
Kjartan Birgisson, Laufey Rut Ármannsdóttir og Björn Magnússon
Kjartan Birgisson við mótssetninguna ásamt fylgdarkonu.
Kjartan Birgisson við mótssetninguna ásamt fylgdarkonu.