
Yfirlæknir segir ástandið á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans verra en nokkru sinni fyrr. Bráðveikir sjúklingar bíða mun lengur en öruggt þykir eftir því að komast í aðgerð og dæmi eru um að aðgerð sama sjúklings sé frestað átta sinnum í röð.
Að breytast í biðdeild Síðastliðnar vikur hafa fimm sjúklingar sem þurfa í lífsnauðsynlega, opna hjartaaðgerð, beðið á Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans. Deildin er ætluð sjúklingum sem eru að jafna sig eftir flóknar skurðarðgerðir en nú virðist hún vera að breytast í biðdeild.
Skortur á hjúkrunarfræðingum rót vandans Það er vel hægt að gera aðgerðina. Vandinn er sá að eftir aðgerð þurfa þessir sjúklingar yfirleitt að liggja nokkra daga á gjörgæslu og þar er ekki pláss. Það eru einungis 12 rými á Landspítalanum fyrir alla bráðveika eða slasaða, þau eru yfirleitt full og stífur forgangslisti. „Það bitnar þá mest á valkvæðum aðgerðum eins og þessum hjartaaðgerðum sem með tíð og tíma verða svo eiginlega hálf bráðar eftir því sem sjúklingarnir bíða lengur,“ segir Sigurbergur Kárason, yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut. Það er fyrst og fremst skortur á hjúkrunarfræðingum sem veldur því að ekki er hægt að hafa fleiri rými opin. Þann vanda hefur Sigurbergur áður bent á.
Hætti að telja Oft liggur ekki fyrir fyrr en að morgni aðgerðardags að enn og aftur þurfi að fresta. „Ég hætti nú að telja þegar ég var búin að tala við sama manninn átta sinnum út af frestun aðgerðar daginn eftir,“ segir Gunnar. Ástandið sé ömurlegt bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Opið bréf til ráðherra Einn mannanna sem er í þessari stöðu skrifaði heilbrigðisráðherra opið bréf sem birtist í Fréttablaðinu í morgun, þar lýsti hann því hvernig biðin reyndi á hann andlega og líkamlega og hvatti ráðherra til að fara alvarlega yfir stöðuna.
Versta ástand í manna minnum Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona ástand skapast á deildinni, en Gunnar segir stöðuna verri en áður. „Við erum búin að leita í sögubókunum og tala við elstu menn frá því hjartaskurðarðgerð byrjaði á spítalanum og það og það er enginn sem man eftir þessu ástandi.“