Ganga ekki svo langt að skikka fólk í vinnu

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir,

Stjórnendur Landspítala hafa beðið gjörgæsluhjúkrunarfræðinga í sumarfríi að koma til vinnu. Þetta er liður í aðgerðaráætlun til að bregðast við alvarlegu ástandi á hjarta- og lungnadeild spítalans. Staðgengill forstjóra segir ekki hafa verið gengið svo langt að nýta heimild til að skikka fólk í fríi á vakt.

Komin aðgerðaáætlun
Í gær var greint frá því að hópur alvarlegra veikra sjúklinga hefði beðið vikum saman eftir því að komast í opna hjartaaðgerð á Landspítalanum, allt að fimmfalt lengur en öruggt er talið. Yfirlæknir á deildinni segir ástandið verra en nokkru sinni fyrr. Það er skortur á gjörgæslurýmum sem veldur því að fólkið kemst ekki í aðgerð og sá skortur skýrist fyrst og fremst af því að það vantar hjúkrunarfræðinga. „Staðan er bara svipuð, það hefur ekki mikið gerst síðan í gær en það var ein hjartaaðgerð í morgun, önnur í gær og við erum sannarlega að reyna að vinna á þessari áskorun sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs spítalans og staðgengill forstjóra.

Nú er unnið að því að flýta þessum bráðnauðsynlegu aðgerðum. „Sem verður að gerast, sú áætlun er komin og vonandi náum við að fylgja henni.“

Vilja bæta við gjörgæslurými tímabundið
Áætlunin felur í sér að biðja sérhæfða gjörgæsluhjúkrunarfræðinga sem nú eru í sumarfríi að koma á vaktina og fjölga rýmum á gjörgæsludeildinni við Hringbraut tímabundið úr sex í sjö. Til þess þarf töluverðan mannskap, enda þarf einn til tvo hjúkrunarfræðinga á hverri vakt til að sinna hverjum sjúklingi.

„Við höfum samt ekki gengið svo langt að skikka fólk inn úr sumarfríum,“ segir Guðlaug. Slík heimild er til staðar og hefur verið virkjuð áður. Hún segir þetta skammgóðan vermi, því það fresti bara frítöku og geti leitt til vandræða síðar. Ekki hefur verið rætt um þann möguleika að senda fólk út í aðgerðir, Guðlaug vill fyrst láta reyna á fyrrnefnda áætlun. Þá segir hún ekki hafa reynst vel að ráða hjúkrunarfræðinga í gegnum starfsmannaleigur, það taki fólk tíma að læra tungumálið.

Ekki einkamál Landspítalans
Stjórnendur spítalans upplýstu starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins um alvarleika stöðunnar á deildinni fyrir helgi. Töldu þeir það skyldu sína þar sem ástandið væri komið út fyrir skynsamleg mörk.

Mynd Sturla Skúlason
Mynd: Sturla Skúlason Holm

Það er engin skyndilausn í sjónmáli. Guðlaug segir mikilvægt að stjórnvöld, spítalinn, háskólarnir og fleiri leggist á eitt við að fjölga hjúkrunarfræðingum. Það kosti betri stefnumótun en hingað til og aukið fjármagn. „Það er búið að tala um þetta mjög lengi og við erum nákvæmlega að upplifa það sem var talað um fyrir tíu eða fimmtán árum síðan.“

En telur hún að stjórnvöld hafi sofnað á verðinum?
„Ég held kannski að okkur hafi bara ekki tekist að gera nægilega vel grein fyrir þessu, þannig að fólk sperri upp eyrun, bretti upp ermar og segi, við þurfum að mennta fleiri hjúkrunarfræðinga og halda þeim í starfi. Það er ekki bara einkamál Landspítala.“

Rúv.is miðvikudaginn 24. júlí 2019