Árangur kvenna af aðgerðinni ekki síðri

Árangur kvenna af aðgerðinni ekki síðri

Árangur hjartaaðgerða við ósæðarflysjun hjá konum er ekki síðri en hjá körlum, þótt konurnar séu eldri þegar kemur að aðgerð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri grein í vísindaritinu Aorta, en rannsóknin er hluti samnorrænnar rannsóknar, NORCAAD, sem Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir hefur stýrt síðastliðin fimm ár og gefið út hátt í tuttugu vísindagreinar síðastliðin þrjú ár. Fyrsti höfundur greinarinnar er Raphaelle Chemotob, danskur læknir sem hefur verið í teyminu í tvö ár.

Síðastliðin ár hefur hópurinn markvisst kannað árangur ýmissa hjartaaðgerða hjá konum, en hann getur verið breytilegur eftir kynjum. „Það er stundum sagt að karlar stýri flestum rannsóknunum, karlar veiti styrki til rannsókna og karlar skrifi bókarkafla. Sú gagnrýni hefur verið rík í hjartaskurðlækningum að konur hafi gleymst og þær hafi ekki fengið næga athygli,“ segir Tómas og bendir á að ýmis einkenni hjá konum geti verið öðruvísi en hjá körlum og haft aðrar birtingarmyndir.

Árangur kvenna af aðgerðinni ekki síðri
Ánægjuleg niðurstaða

Tómas segir að ósæðarflysjun sé sem betur fer sjaldgæfur sjúkdómur en hann sé þó með þeim hættulegustu sem þekktir eru. Felst hann í því að ósæðin rofnar. „Margir lifa ekki af rofið, heldur deyja í svefni eða þar sem þeir eru þegar þetta gerist. Sumir eru heppnari og komast inn á sjúkrahús og þeim getum við oft bjargað með stórri skurðaðgerð,“ segir hann, en þegar æðin rofnar alveg getur sjúklingi blætt út á örfáum sekúndum. Tómas segir að veikleiki í æðinni geti verið ættgengur. „Við þekkjum þetta ekki alveg í dag, en flestir þessara sjúklinga eru með mikinn háþrýsting. Það er samnefnari fyrir þá,“ segir hann. Spurður út í helstu niðurstöður rannsóknarinnar segir hann það t.d. hafa komið á óvart að konur séu þriðjungur sjúklingahópsins. „Það kom dálítið á óvart þar sem þær eru stærri hluti í þessari aðgerð en t.d. í kransæðahjáveitu. Þar eru þær um 20%,“ segir hann.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er að árangur kvenna af aðgerðinni sé ekki síðri en karla og það sé ánægjulegt. „Þótt þær hafi verið aðeins eldri og að sumu leyti með fleiri fylgisjúkdóma klára þær sig vel gegnum þessa aðgerð þrátt fyrir það. Þetta er jákvætt því fyrir margar aðrar hjartaskurðaðgerðir er áhætta fyrir konur aðeins meiri,“ segir hann.

Spurður nánar út í þessa áhættu kvenna af hjartaskurðaðgerðum segir hann að ekki sé vitað námvæmlega hvers vegna hún sé fyrir hendi. Hann nefnir þó dæmi um kransæðahjáveituaðgerðir og að konur séu í þeim tilfellum gjarnan með fíngerðari kransæðar og ögn eldri en karlar. „Það hefur verið talin aukin áhætta við aðgerðina ef um er að ræða konu en ekki karl. Það er aðalatriðið í rannsókninni okkar að árangurinn er ekki síður góður hjá konum en körlum,“ segir Tómas, en rannsóknin byggist á upplýsingum um 1.100 sjúklinga af átta sjúkrahúsum á Norðurlöndum. „Það er mikilvægt fyrir okkur að tengja okkur við stærri staði til að geta prófað rannsóknartilgátur okkar. Við getum ekki svarað þeim hvað varðar svona sjaldgæfar aðgerðir hér á landi. […] Þetta hefur borið mikinn ávöxt,“ segir Tómas.

Árangur kvenna af aðgerðinni ekki síðri
Stærsta æð líkamans rofnar

Ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur þar sem æð út úr hjartanu rofnar og skurðaðgerð er nauðsynleg. Að sögn Tómasar eru sjúklingar oft tengdir við hjarta- og lungnavél, blóðrás og hjarta stöðvuð við komu á sjúkrahús. Þeir eru kældir niður í átján gráður til þess að gera megi við æðar sem liggja upp í heilann. Hann segir að við venjulegt hitastig þoli heilinn aðeins fjórar mínútur án blóðrásar. Tómas segir sjúkdóminn eins „akút“ og orðið getur, en ósæðin er stærsta æð líkamans og þrjú lög mynda hana. Rofni ysta lag hennar blæðir sjúklingi út á nokkrum sekúndum en annars er möguleiki á að gera aðgerð á sjúkrahúsi. Sex til átta tilfelli ósæðarflysjunar koma upp hér á landi á ári hverju.

Morgunblaðið fimmtudaginn 25. júlí 2019