Líkur á sjúkdómum aukast með áföllum

Líkur á sjúkdómum aukast með áföllum

Líkur á sjúkdómum aukast með áföllumÁföll geta haft alvarlegar og margskonar afleiðingar fyrir heilsu fólks allt frá fyrsta andardrætti og aukið líkur á allskyns sjúkdómum. Þetta kemur bersýnilega fram í nýjasta tölublaði SÍBS sem er tileinkað afleiðingum áfalla. Þar kemur m.a. fram að áföll geti aukið líkur á sjálfsofnæmissjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum og gigtarsjúkdómum. Auk þess er fjallað um afleiðingar sem falin áföll geta haft á ómálga ungbörn, um tengsl áfalla og ýmiss konar fíknar og um áfallastreituröskun.

Ekki lengur getgátur
Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, segir að félaginu hafi þótt tími til kominn að hnýta saman umfjöllun um tengsl líkamlegra og andlegra þátta.

„Við höfum fjallað ansi mikið um þetta sitt í hvoru lagi en núna eru að koma upp nýjar og nýjar rannsóknir sem styðja tengslin. Þetta eru ekki lengur getgátur heldur raunverulegar rannsóknir sem liggja þarna að baki og þetta hangir meira saman en talið var upphaflega,“ segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.

Hann bendir á fremstu grein blaðsins sem fjallar um íslenska rannsókn á tengslum áfallastreituröskunar og sjálfsofnæmissjúkdóma og segir hana vera dæmi um nýlega rannsókn sem sýni fram á fyrrnefnd tengsl þess andlega og líkamlega.

„Þarna eru íslenskir vísindamenn sem standa að því að fletta ofan af samhengi sem fáa hefði órað fyrir að væru fyrir hendi fyrir einhverjum árum.“

Í leiðara sínum í blaðinu fjallar hann um tvíhyggju og vísar til þeirrar afstöðu að líkami og hugur séu aðskilin, sem hefur löngum verið ríkjandi í heilbrigðisvísindum.

Allt í raun líkamlegt
„Ég lýsi þarna eftir þverfaglegri nálgun sem tekur á líkamlegum sem og andlegum þáttum því flestur vandi er samsettur,“ segir Guðmundur.

„Okkur vantar heimspeki, viðtekna menningu eða venju til að hugsa um þetta á þennan hátt. Það er svo rótgróið í okkur að hugsa um líkamlega og andlega hluti sem sitt hvorn hlutinn að það er erfitt að snúa okkur út úr því,“ segir hann.

„Ef þú kýst að taka þann pól í hæðina getur þú litið svo á að allt sé líkamlegt. Heilinn er ekkert annað en taugaefni og boðefni og tilfinningalífið stjórnast alfarið af þessu boðefnadrifna tauganeti sem heilinn er. Þar með er þetta orðið einn og sami hluturinn,“ segir hann.

„Það má segja heilsugæslunni til hróss að undanfarin ár hefur hún verið að efla mjög þjónustu sálfræðinga og annarra en það má enn bæta við þar. Það eru fleiri stéttir sem gætu komið að málinu,“ segir Guðmundur. Hann segir bráðnauðsynlegt að stjórnvöld efli þverfaglega heilsugæslu og auki áherslu á forvarnir á öllum stigum.

„Það er ekki fyrr en við erum komin með líkamlegar afleiðingar að heilbrigðiskerfið uppgötvar okkur. En þær gætu hafa byggst upp í gegnum ár eða áratugi af líkamlegum og andlegum orsökum. Fólk getur verið að keyra sig út í stressi, verið í erfiðri vinnu, haft erfiðar heimilisaðstæður eða eitthvað slíkt. Þetta getur verið að byggjast upp árum saman.“

Víðtækar afleiðingar áfalla
Ef barn upplifir fjögur eða fleiri alvarleg áföll fyrir 18 ára aldur aukast líkur töluvert á geðrænum vanda, áhættuhegðun, lyfjanotkun og líkamlegum sjúkdómum svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum og ótímabærum dauða. Þetta kemur fram í grein Sæunnar Kjartansdóttur, sálgreinis í Miðstöð foreldra og barna, í SÍBS-blaðinu. Séu áföllin orðin sex eða fleiri getur það stytt ævi um 20 ár.

Í grein Unnar Önnu Valdimarsdóttur, prófessors við læknadeild Íslands, um niðurstöður rannsóknar deildarinnar kemur fram að einstaklingar með áfallastreituröskun eða aðrar tengdar raskarnir séu 30-40% líklegri til að greinast með sjálfsofnæmissjúkdóm. Fram kemur að áhættan aukist eftir því sem einstaklingar eru yngri við greiningu á áfallatengdum röskunum.

Í grein Axels F. Sigurðarssonar hjartalæknis um tengsl streitu og áfalla við hjarta- og æðasjúkdóma kemur fram að samkvæmt rannsóknum séu konur sem upplifað hafa hjónabandsörðugleika þrefalt líklegri til að greinast með kransæðasjúkdóm á næstu fimm árum. Einstaklingar sem nýlega hafa greinst með krabbamein eru jafnframt sexfalt líklegri til að fá hjartaáfall á næstu mánuðum.

Morgunblaðið 26. júlí 2019