Aukin áhersla á endurhæfingu

Höfundur er heilbrigðisráðherra

Á undanförnum áratugum hafa ævilíkur landsmanna aukist verulega og þjóðin verið að eldast. Hefur það í för með sér áskoranir vegna ýmissa lífsstílstengdra og langvinnra sjúkdóma með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið. Til að bregðast við þeirri þróun er nauðsynlegt að leggja aukna áherslu á forvarnir og endurhæfingu fyrir alla aldurshópa svo draga megi úr tíðni og alvarleika lífsstílssjúkdóma og bæta lífsgæði. Við eigum það öll sameiginlegt að góð heilsa er okkur dýrmæt og er það sameiginlegt verkefni okkar allra og heilbrigðiskerfisins að stuðla að og viðhalda góðri heilsu.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er endurhæfing fjölþætt inngrip sem fólk þarfnast þegar það býr við eða er líklegt til að verða fyrir takmörkunum á færni í daglegu lífi vegna öldrunar eða heilsubrests, þ.m.t. vegna langvinnra sjúkdóma eða annars vanda, áverka eða slysa. Fyrir liggur að endurhæfing hefur ekki verið opinberlega skilgreind hér á landi og heildarsamhæfingu þjónustunnar skortir. Ýmsir aðilar sinna endurhæfingu sem er að stærstum hluta greidd af almannafé en eignarhald, rekstrarform, skipulag, stjórnun og greiðslufyrirkomulag þjónustunnar er mismunandi.

Með það að markmiði að efla endurhæfingu hér á landi hef ég falið heilbrigðisráðuneytinu að móta stefnu á sviði endurhæfingar. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu er að greina styrkleika og veikleika í skipulagi endurhæfingarþjónustu hér á landi í þeim tilgangi að finna leiðir til að bæta nýtingu þeirra endurhæfingarúrræða sem til eru og bæta samfellu þjónustunnar gagnvart notendum. Þá þarf að bera skipulag endurhæfingarþjónustu á Íslandi saman við sambærilega þjónustu í þeim löndum sem við berum okkur saman við og áætla framtíðarþörf fyrir endurhæfingu hér á landi og hvernig hagkvæmast sé að mæta henni. Gert er ráð fyrir að drög að endurhæfingarstefnu liggi fyrir í byrjun febrúar á næsta ári. Þá er mikilvægt að við vinnuna verði haft samráð við þá aðila sem málið varðar helst, s.s. notendur og veitendur þjónustunnar, stjórnendur heilbrigðisstofnana, fagfélög og fleiri eftir atvikum.

Endurhæfing hefur mikla þýðingu fyrir fólk sem býr við skerta færni vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma eða hrörnunar sem fylgir hækkandi aldri svo eitthvað sé nefnt og skiptir í mörgum tilvikum sköpum um það hvernig fólki reiðir af í kjölfar slysa, veikinda eða annarra áfalla. Það er því mikilvægt að til staðar sé skýr stefna stjórnvalda í málaflokknum til að stuðla að bættri heilsu þjóðarinnar.

Höfundur er heilbrigðisráðherra – morgunblaðið 10. ágúst 2019