Framfarir í heilablóðfallslækningum

Ný meðferð við heila­blóðfalli

Fórnarlömb blóðþurrðarheilablóðfalls gætu náð fullum bata, sé byltingarkenndri stofnfrummeðferð beitt innan 36 stunda frá heilablóðfalli. Meðferðin hefur þegar sýnt árangur í Bretlandi og Bandaríkjunum, að því er fram kemur í breska dagblaðinu The Telegraph. Þó skal tekið fram að stofnfrumumeðferðin er enn á tilraunastigi.

Fram til þessa hefur fólk sem verður fyrir heilablóðfalli helst þurft að komast á sjúkrahús innan fjögurra klukkustunda til að hægt sé að hefja svokallaða segaleysandi meðferð, til að losa um blóðtappa sem myndast hafa. Í flestum tilfellum er þessi tími ekki nægur og um tveir þriðju þeirra, sem þó lifa af blóðfallið, verða fyrir varanlegum skaða.

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur gefið stofnfrumumeðferðinni flýtimeðferð innan síns kerfis svo að umfangsmeiri rannsókn á henni geti hafist. Yfirvöld hjá nokkrum Evrópuþjóðum og í Japan hafa tekið svipaða afstöðu til málsins.

Sérfræðingar hafa nú hafið tilraunameðferð á 300 sjúklingum í rannsóknartilgangi. Gert er ráð fyrir því að meðferðin verði leyfileg í Bandaríkjunum árið 2021.

Blóðþurrðarheilablóðfall stafar af skerðingu á blóðflæði til hluta heilans. Slíkt stafar í flestum tilfellum af blóðtappa, sem hindrar blóðstreymi til heilafrumna, sem þá geta orðið fyrir óbætanlegum skemmdum.

Tilraunir hafa sýnt að stofnfrumumeðferð getur lagað skemmdir á heilafrumum, sem kunna að verða ef sjúklingar gangast ekki undir segaleysandi meðferð innan fjögurra tíma eftir heilablóðfallið. Þá geta skemmdirnar valdið því að sjúklingar hljóti einkenni eða fötlun sem gengur ekki til baka. Byrjunareinkenni heilablóðfalls er dofi, kraftminnkun eða lömun í annarri hlið líkamans, taltruflanir og skert geta í daglegum athöfnum.

Auknar batalíkur
Stofnfrumuaðgerðin bar árangur hjá breskum sjúklingum sem gengust undir aðgerðina 36 klukkustundum eftir heilablóðfall. Fjöldi bandarískra og breskra heilablóðfallssjúklinga hefur þegar gengist undir aðgerðina í rannsóknarskyni og leiddi rannsóknin í ljós að þeir sem gengust undir aðgerðina voru 15% líklegri til að ná sér að fullu, 90 daga frá heilablóðfalli, en þeir sem fengu hefðbundna meðferð. Ári eftir heilablóðfall varð fyrri hópurinn 24% líklegri en hinn seinni, til að ná fullum bata.

Sjúklingar sem sýndu miklar framfarir að stofnfrumumeðferð lokinni voru meðal annars þeir sem hlutu meðferðina einum og hálfum degi eftir heilablóðfall.

Stofnfrumumeðferðin felst í því að stofnfrumur, sem hafa þann mikilvæga eiginleika að geta lagað skemmdan heilavef, eru unnar úr blóðmerg sjúklingsins og þeim komið fyrir þar sem skemmdir urðu á heilavef.

Axel Finnur Sigurðsson
Axel Finnur Sigurðsson

Axel Finnur Sigurðsson, hjartalæknir, sagði í samtali við Morgunblaðið: „Verði sýnt fram á að stofnfrumumeðferð af þessu tagi sé gagnleg má líta á það sem byltingu í meðferð heilablóðfalls. Þess ber þó að geta að meðferðin er enn á tilraunastigi og ýmiskonar frekari prófanir þarf að gera til að staðfesta að hún beri árangur og að hún sé án teljandi áhættu fyrir sjúklinginn,“ sagði hann.

Hann segir þó mikilvægt að hefja viðeigandi meðferð við blóðþurrðarheilablóðfalli sem allra fyrst, til að koma í veg fyrir að heilafrumur skemmist varanlega. Hún felst í gjöf segaleysandi lyfja sem hafa það hlutverk að leysa upp blóðtappann og endurheimta eðlilegt blóðflæði til frumnanna.

Morgunblaðið 12. ágúst 2019