Arðbær starfsemi Landspítala

Björn Rúnar Lúðvíksson

Þorsteinn Víglundsson fer mikinn í nýlegri grein til Fréttablaðsins. Þar heldur hann því fram að framlegð heilbrigðiskerfisins og sérstaklega Landspítalans hafi dregist stórlega saman á undanförnum árum. Þar sem þingmaðurinn virðist ekki vera nægilega vel upplýstur um hlutverk og stöðu þjóðarsjúkrahússins þá tel ég mikilvægt að benda á nokkrar mikilvægar staðreyndir í ljósi villandi staðhæfinga hans.

Björn Rúnar LúðvíkssonÁ því tímabili, sem þingmaðurinn tiltekur, hafa gengið í gildi kjarabætur og launaleiðréttingar sem forstöðumönnum heilbrigðisstofnanna hefur gengið erfiðlega að standa undir þar sem óhjákvæmilega auknum útgjöldum vegna þessara samninga hefur ekki verið mætt með sambærilegu fjármagni til reksturs viðkomandi stofnana. Einnig verður að minna þingmanninn á að tækjakostur þessara stofnanna var fyrir löngu orðinn úreltur, auk þess sem húseignir þessara stofnana voru annaðhvort ónýtar eða stórskemmdar vegna langtíma skorts á fjármagni til eðlilegs viðhalds og rekstrar lífsnauðsynlegs tækjabúnaðar. Af þessu leiddi að stór hluti þess fjármagns sem þingmaðurinn tiltekur hefur farið í löngu tímabærar viðgerðir og endurnýjun tækjabúnaðar þessara stofnana og sérstaklega Landspítalann, þar sem þeim fasa er hvergi nærri lokið.

Því miður hafa langflestir Íslendingar þurft á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Þeim er því flestum vel kunnugt um mikilvægi þess, auk þeirrar framlegðar sem það veitir bæði með beinum og óbeinum hætti inn í íslenskt hagkerfi á hverjum tíma. Það er gömul mýta að heilbrigðiskerfið sé rekið með halla, staðreyndin er sú að á hverju ári er hægt að reikna út þann gríðarlega arð sem þessi hornsteinn velmegunar og farsældar þjóðarinnar veitir beint inn í hagkerfið. Langflest verk, þ.m.t. viðtalsmeðferðir, lyfjameðferðir, skurðaðgerðir og almennar lýðheilsubætandi aðgerðir, hafa verið ítarlega kostnaðargreind og nær undantekningalaust eru þau rekin með verulegum fjárhagslegum ábata bæði fyrir þann einstakling sem þjónustuna fær og hagkerfið í heild sinni. Þar er þá undanskilinn hinn félagslegi og samfélagslegi ábati sem bætt heilsa og heilbrigði þjóðar veitir hverju sinni.

Einn af þeim almennu mælikvörðum sem flest alþjóðleg viðmið notast við er s.k. QALY. Þar er gengið út frá að hvert eitt ár sem einstaklingur lifir við eðlilega heilsu án nokkurra inngripa sé 1,0 QALY. Útreikningur á kostnaði hvers árs sem einstaklingurinn nær að lifa þar sem bæði er tekið til lífsgæða og lífslengdar hefur síðan áhrif á útreiknaða útkomu hvers læknisfræðilegs inngrips (þ.e. kostnaður hvers árs). Þannig hafa orðið til heilsuhagfræðileg viðmið þar sem gengið er út frá því að öll QALY innan þeirra viðmiða skili samfélaginu verulegum fjárhagslegum og félagslegum ábata. Almennt er gengið út frá því í Bandaríkjunum að meðferðir með kostnaðarhagkvæmni (cost-effectiveness) innan USD 50-100.000 fyrir hvert áunnið QALY skili slíkum markmiðum. WHO hefur sambærileg skilmerki en þar er miðað við verga landsframleiðslu (GDP) þar sem inngrip sem kosta minna en 3xGDP af höfðatölu séu arðsöm og þau sem séu minna an GDP m.v. höfðatölu verulega arðsöm. Fjölmargar úttektir hafa verið gerðar á gæðum og afköstum íslensks heilbrigðiskerfis sem undantekningalaust hafa sýnt að þrátt fyrir að heildarframlög til málaflokksins séu eitt það lægsta hlutfall af vergri landsframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi sem þekkist þá eru gæði og afköst með því besta sem til þekkist. Það kom ótvírætt fram í skýrslu McKinsey 2016, sem einnig kom fram í ítarlegri rannsókn um sama mál sem birt var í hinu virta læknatímariti The Lancet 2018. Þar var heilbrigðisvísitala (HAQ index) 195 landa reiknuð út frá gæðum og aðgengi m.t.t. ótímabærra dauðsfalla þeirra sem eru 75 ára og yngri. Þar skipaði Ísland sér í efsta sæti, meðan lönd eins og Danmörk (17. sæti) og Bandaríkin (29. sæti) voru töluvert neðar á listanum.

Það er enn mikið verk að vinna til að bæta enn frekar aðgengi og gæði þeirrar þjónustu sem Landspítalanum er ætlað að sinna. Þar má örugglega gera betur á ýmsum sviðum, sérstaklega er varðar stjórnskipulag og rekstrarfyrirkomulag Landspítalans. Um það eigum við að sameinast, en ekki stunda niðurrifsstarfsemi um það sem vel er unnið þrátt fyrir kröpp kjör. Þannig hefur undirritaður ítrekað bent á bága stöðu vísinda og kennslu innan þjóðarsjúkrahússins, en þrátt fyrir nokkur jákvæð teikn á lofti er þar enn töluvert verk að vinna eins og áður hefur verið bent á. Prófessoraráð Landspítalans hefur áður lýst yfir vilja sínum og áhuga á því að aðstoða við áframhaldandi uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis, almenningi til heilla. Það boð á einnig við alla þingmenn, sem og Þorstein Víglundsson, þó að ekki væri til annars en til aðstoðar við nauðsynlega upplýsingaöflun í þeirra mikilvæga starfi.

Höfundur er formaður prófessoraráðs Landspítala.

Morgunblaðið 22. ágúst 2019