
Þegar vinnudagur heilbrigðisstarfsfólks er skoðaður kemur í ljós að mikill tími fer í skrásetningu gagna. Halda þarf vandlega utan um einkenni, sjúkdómsgreiningu og meðferð, og segir Davíð Björn Þórisson að allt að 70% af vinnudegi lækna fari í það að sitja við tölvu og slá inn upplýsingar.
Davíð veit um hvað hann er að tala, því hann er sérfræðilæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann hefur sett á laggirnar, ásamt frænda sínum Matthíasi Leifssyni hagfræðingi, fyrirtækið Leviosa (áður Hvíslarinn) sem þróar hugbúnað sem ætlað er að umbylta allri skráningu hjá heilbrigðisstofnunum. Davíð er réttur maður á réttum stað, því til viðbótar við að vera læknir er hann frístunda-forritari, og munaði minnstu að hann gerði forritunina að sínu aðalstarfi: „Ég valdi að fara frekar í læknisfræðina því mér hugnaðist betur að vera í kringum fólk en tölvuskjái í vinnunni, en svo kom á daginn að ég geri lítið annað í vinnunni en að sitja við tölvu,“ segir hann glettinn.
Tæknin einfaldar vinnuna
Hugbúnað Leviosa er hægt að nota alls staðar í heilbrigðiskerfinu: á spítölum, hjá heilsugæslustöðvum, á einkareknum læknastofum, hjá sálfræðingum og sjúkraþjálfurum: alls staðar þar sem halda þarf gögn um heilsufar fólks og meðferð. Hugbúnaðurinn notar m.a. raddgreiningu, flýtitexta, skráningarform og gátlista til að flýta fyrir hvers kyns skráningu og á sama tíma spara heilbrigðisstarfsfólki handavinnu og hjálpa til við að fyrirbyggja mistök:
„Gervigreind getur t.d. skimað textann sem læknir skráir inn og byrjað að útbúa fyrir hann lyfseðil eða röntgenbeiðni í samræmi. Ef ég set inn færslu þar sem ég lýsi tognun á ökkla gæti Leviosa stungið upp á greiningarkóða, aðgerðarkóða, gert lyfseðil fyrir verkjalyfi, undirbúið beiðni um röntgenmyndatöku og jafnvel stungið upp á leiðbeiningarefni fyrir sjúklinginn. Allt sparar þetta hellings tíma.“
En hvernig stendur á því að ekki er fyrir löngu búið að finna góða lausn sem léttir heilbrigðisstarfsfólki skráningarvinnuna? Davíð segir sennilega skýringu á þeim vanda sem upp er kominn að fólkið sem notar hugbúnaðinn hafi ekki verið haft með í ráðum þegar hann var smíðaður. „Margir óska þess heitast að hægt væri að hverfa aftur til gömlu daganna, þegar allt var skráð með penna og pappír og gögnin geymd við rúmstokk sjúklingsins, enda einfalt og skilvirkt kerfi. Vitaskuld var vit í því að gera skráninguna rafræna og miðlæga, en útfærslan var ekki í lagi,“ segir Davíð og notar sem samanburð hvernig búnaður í flugstjórnarklefum er hannaður í nánu samráði við flugmenn og öllum tökkum og tönkum raðað eins og þeim þykir best. „Sjúkraskrárkerfin virðast hins vegar mörg hver hafa verið hönnuð af fólki sem, þrátt fyrir góðan ásetning, skortir þekkingu á því hvernig vinna heilbrigðisstarfsfólks fer í raun fram.“
Myndi jafnast á við 2,2 milljarða sparnað
Áhuginn er mikill hjá þeim sem hafa fengið að kynna sér hugbúnaðinn og segir Davíð að margir læknar myndu helst óska sér að hafa tekið kerfið í notkun strax í gær. „Þegar þeir sjá hvernig Leviosa virkar er það svolítið eins og að rétta manni í eyðimörk glas af vatni og helsta áskorunin virðist vera að sannfæra stofnanirnar um að þær hafi gagn af því að innleiða lausnina,“ segir Davíð en fyrstu prófanir á kerfinu munu væntanlega fara fram á lítilli eða meðalstórri einkarekinni stofu.
Meðal þess sem ætti að sannfæra stjórnendur heilbrigðisstofnana um gildi Leviosa er sá mikli vinnusparnaður sem hugbúnaðurinn ætti að hafa í för með sér. „Við höfum lagst yfir tölurnar og teljum að bara á Landspítalanum gætu áhrifin jafngilt 2,2 milljarða króna sparnaði á ári í gegnum aukna skilvirkni og draga úr tölvunotkun heilbrigðisstarfsfólks um rösklega 30%. Svo má líka reikna með að hugbúnaðurinn hjálpi til við að draga úr mistökum, bæti upplifun sjúklingsins og auki starfsánægju með því að skapa meira svigrúm í vinnudegi starfsfólks til að verja tíma með sjúklingum sínum. Er það raunin í dag að allt of mikið álag er á þeim sem vinna á spítölunum og sýna rannsóknir að það álag vegna núverandi rafrænna skráningarkerfa er ein helsta ástæðan fyrir kulnun í starfi í heilbrigðisgeira.“
Þá gæti Leviosa skapað möguleika á því að fara glænýjar leiðir í heilbrigðisþjónustu. „Þannig mætti t.d. biðja sjúklinginn að skrá inn upplýsingar um heilsufar sitt og einkenni strax og hann er kominn á biðstofuna, og þannig spara tíma en líka mögulega láta gervigreind hjálpa til við að koma auga á ef einkennin kalla ekki á það að sjá lækni.“
Davíð leggur samt áherslu á að Leviosa mun ekki grípa fram fyrir hendurnar á læknum og að brýnt sé að finna rétta jafnvægið á milli þess að láta lækninn eða hugbúnaðinn stýra greiningu og meðferð. „Verandi sjálfur læknir veit ég upp á hár hvað hjálpar og hvenær tæknin væri farin að ganga of langt og taka af mér völdin. Aftur á móti hefur verið margoft sýnt fram á að hjálpartæki eins og minnislistar auka öryggi læknismeðferða og gervigreind gæti t.d. komið auga á frávik án þess að grípa fram fyrir hendur læknis – aðeins beðið hann að staðfesta ef lyfjagjöf eða meðferð er frábrugðin því sem hefur verið gert í hundrað skipti á undan.“
Morgunblaðið miðvikudaginn 11. september 2019