Vilja tryggja öryggi sjúklinga

Landspítalinn Hringbraut

• Tillögur Landspítalans um aðgerðir til hagræðingar eru enn til umfjöllunar í heilbrigðisráðuneyti
• Formaður læknaráðs leggur áherslu á að aðgerðirnar bitni ekki á sjúklingum eða starfsfólki á vöktum

Aðgerðir til hagræðingar á Landspítalanum vegna reksturs umfram fjárveitingar hafa ekki verið ákveðnar. Tillögur forstjórans eru til umfjöllunar í heilbrigðisráðuneytinu og ákveðnir þættir málsins hjá fjármálaráðuneyti. Þá hefur fjárlaganefnd Alþingis fengið skýringar og rætt málið.

Fram kom á dögunum að samkvæmt uppgjöri Landspítalans fyrir fyrstu sex mánuði ársins var framúrkeyrsla spítalans 2,4 milljarðar króna og áætlað er að hún verði 4,5 milljarðar króna á árinu í heild, að óbreyttu. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er staðan heldur betri en þessar tölur gefi tilefni til. Eftir sé að taka tillit til millifærslna af safnliðum ráðuneytisins.

Auk almennra atriða eins og hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar og þjónustu við erlenda ferðamenn eru helstu frávik í rekstri hærri launakostnaður en gert var ráð fyrir, bæði vegna kjarasamninga ríkisins við heilbrigðisstarfsfólk og aukavakta hjúkrunarfræðinga og fleiri starfsstétta vegna skorts á starfsfólki. Laun eru um 70% af rekstrarkostnaði spítalans. Þá er spítalinn að draga á eftir sér taphala frá fyrra ári.

Spítalinn telur að eldri kjarasamningar séu óbættir að hluta og nemi sá halli 1,4 milljörðum króna. Fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hafa fundað um það mál og ekki er talið útilokað að leiðrétting fáist.

Forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, hefur í skrifum á vef spítalans boðað víðtækar hagræðingaraðgerðir sem hann segir að muni snerta alla þætti starfseminnar og starfsstéttir. Markmiðið sé þó að hlífa klínískri þjónustu. Hann hefur ekki kynnt aðgerðirnar í heild en fram hefur komið að stoðsviðum og stjórnendum fækkar. Það eigi að skila sér í lækkuðum rekstrarkostnaði þegar á þessu ári. Unnið er að útfærslu á fjölda annarra aðgerða sem koma til framkvæmda snemma á næsta ári.

Halda þarf í starfsfólkið
Eitt viðkvæmasta atriðið snýr að álagi sem greitt hefur verið á laun hjúkrunarfræðinga til að halda þeim í vinnu á spítalanum. Þeim greiðslum verður hætt þegar nýir kjarasamningar verða gerðir.

„Við leggjum áherslu á að aðgerðirnar bitni ekki á skjólstæðingum okkar og ekki heldur á fólkinu sem vinnur vaktirnar,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs Landspítalans. Hún tekur fram að erfitt sé að ræða málin fyrr en forstjóri spítalans hafi kynnt fyrirhugaðar aðgerðir. Ebba segir að sjúkrahúsið sé ekki verksmiðja þar sem hægt er að loka framleiðslulínum. Nauðsynlegt sé að halda úti þessari starfsemi og til að það sé hægt þurfi að vera hægt að halda í frumstéttir heilbrigðiskerfisins, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og lækna. Hún telur að aftur á móti megi spara í stjórnendastöðum.

Eftir miðjan ágústmánuð óskaði embætti landlæknis eftir upplýsingum frá Landspítala um hagræðingu og skipulagsbreytingar. Óskað var eftir útlistun á áhrifum aðgerðanna, sérstaklega hvort þær geti komið niður á þjónutu og öryggi sjúklinga og þá á hvaða hátt. Samkvæmt upplýsingum frá Ölmu D. Möller landlækni eru svörin í vinnslu hjá spítalanum. Segist hún viss um að það sé í algerum forgangi að tryggja viðunandi þjónustustig.

Morgunblaðið miðvikudaginn 11. septeber 2019