Hjartaheill 36 ára

Hjartaheill 36 ára

Landssamtök hjartasjúklinga, sem nú heita Hjartaheill, voru stofnuð 8. október 1983 með það að aðalmarkmiði að safna fé til tækjakaupa og búnaðar svo hægt yrði að fá þessa þjónustu hingað heim. Margir þeirra sem stóðu að stofnuninni höfðu reynt á það á eigin skinni hvernig var að þurfa að sækja þessa lífsnauðsynlegu þjónustu til útlanda.

Kjörorðið varð snemma: „Tökum á … tækin vantar“, og eldmóður og atorka stofnendanna var ótrúleg. Í upphafi var safnað fyrir hjartasónartæki, sem var afhent Landspítalanum og fljótlega fylgdi hjartaþræðingartæki og hjartasíritar með hugbúnaði. Þannig var haldið áfram með góðum árangri enda var fljótlega farið að gera flestar aðgerðir hér heima.

Á þeim þrjátíu og sex árum sem liðin eru frá stofnun Hjartaheilla hefur sem betur fer margt breyst á sviði hjartalækninga á Íslandi. Hér er til staða hátæknibúnaður, þrautreynt og vel menntað starfslið og aðstaðan gefur ekki eftir því besta sem þekkist erlendis.

Ekki er ætlunin hér að þakka samtökunum allt þetta en hitt er óumdeilt að þau hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar. Söfnunarfé Hjartaheilla og deildanna vítt um landið á þessum tíma má mæla í milljörðum á núvirði og hefur sannarlega auðveldað þessa þróun.

Hjartaheill og önnur sambærileg samtök eru ómetanleg í þjóðfélaginu og hafa reynst árangursrík leið til að virkja vilja og samstöðu almennings til góðra verka.