Jafnvel litlar reykingar skaða lungu

Jafnvel litlar reykingar skaða lungu

• Færri en fimm sígarettur á dag geta haft slæm áhrif á lungun • Best er að byrja aldrei að reykja, eða að hætta því alveg, segir verkefnisstjóri tóbaksvarna • Reykingar hafa margvísleg neikvæð áhrif

Fáeinar sígarettur á dag geta skaðað lungun næstum jafn mikið og það að reykja meira en pakka á dag. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem birtist í The Lancet Respiratory Medicine. Tímaritið Time greindi nýlega frá rannsókninni. Dr. Elizabeth Oelsner, meðhöfundur vísindagreinarinnar, sagði að niðurstöðurnar ættu að ráða fólki frá því að byrja að reykja en ekki draga úr því að reykingamenn minnki reykingar sínar.

Best að byrja aldrei að reykja
„Þessi rannsókn segir okkur að það sé best að byrja aldrei að reykja og að þeir sem reykja eigi að hætta því alveg,“ sagði Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis. „Þetta er áhugaverð rannsókn. Hún snýst um áhrif reykinga á lungun og lungnasjúkdóma. En það er bara hluti af þeirri skaðsemi sem reykingar valda. Stærsti áhrifaþáttur reykinga varðandi heilsuna er líklega áhrif þeirra á hjarta- og æðasjúkdóma. Það er vitað að reykingar hafa heildstæð áhrif á líkamann og geta valdið margvíslegum skaða. Þær geta valdið mörgum fleiri sjúkdómum en lungnasjúkdómum eins og til dæmis mörgum tegundum krabbameina.“

Viðar sagði að rannsóknin benti til þess að það sem kallað væri „öruggar reykingar“ væri ekki til. Ekki megi skilja niðurstöður rannsóknarinnar þannig að það skipti ekki máli fyrir þau sem reykja að draga úr reykingum sínum. Það að draga úr reykingum geti dregið úr hættunni á að fá ýmsa alvarlega sjúkdóma.

Langtíma rannsókn
Reykingavenjur og heilsa meira en 25.000 Bandaríkjamanna á aldrinum 17-93 ára voru kannaðar í rannsókninni. Hver þátttakandi greindi frá því hve mikið hann reykti ásamt því að gefa almennar upplýsingar um heilsufar, lífsstíl og lýðfræðilega þætti. Einnig gengust þátttakendur undir blásturspróf í byrjun sem mældi virkni lungnanna. Fylgst var með þátttakendunum í allt að 20 ár og gengust þeir undir annað blásturspróf til að meta breytingar á heilbrigði lungnanna.

Vitað er að með hækkandi aldri dregur úr virkni lungnanna. Einnig er það þekkt að reykingar flýta því ferli sem eykur hættuna á að reykingamenn fái langvinna öndunarsjúkdóma. Rannsóknin sýndi að reykingar í nær hvaða mæli sem væri virtust ýta þeirri þróun af stað.

Fáar sígarettur valda skaða
Um 10.000 þátttakenda í rannsókninni höfðu aldrei reykt þegar rannsóknin hófst og um 7.000 höfðu hætt að reykja. Um 5.800 sveifluðust á milli þess að hætta og að reykja á meðan 2.500 voru virkir reykingamenn. Rannsóknin sýndi að lungnastarfsemi, bæði þeirra sem reyktu og höfðu hætt að reykja, var verri en hópsins sem aldrei hafði reykt. Ekki sást mikill munur á lungum þeirra sem reyktu lítið og reyktu mikið.

Það að reykja færri en fimm sígarettur á dag virtist valda um 2/3 af þeim lungnaskaða sem fylgdi því að reykja 30 eða fleiri sígarettur á dag. Sá sem reykti lítið varð þannig fyrir álíka miklum lungnaskaða á einu ári og stórreykingamaður varð fyrir á níu mánuðum.

Morgunblaðið þriðjudaginn 15. október 2019