Stjórn SÍBS gáttuð á því sem hefur farið fram á Reykja­lundi

Sveinn Guðmundsson

Sveinn Guðmundsson, formaður stjórnar SÍBS, segir að stjórn félagsins hafi lagt það til á þingi SÍBS fyrir rúmu ári síðan að stjórnskipunarlögum yrði breytt og að sérstök stjórn yrði skipuð sem færi með mál Reykjalundar. Stjórn SÍBS hafi aldrei hlutast til um innra starf á Reykjalundi frá fyrstu tíð.

„Nú skulum við hafa það alveg á hreinu að í 75 ár hefur stjórn SÍBS, aldrei, ekki í einu tilviki, komið inn í daglegan rekstur eða haft faglega yfirsýn á staðnum. Það hefur verið í höndunum á fagfólki sem við höfum treyst 100% allan tímann,“ sagði Sveinn í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. „Það eina sem stjórn SÍBS hefur gert allan tímann, það er bara að fara yfir fjármál og passað upp á að þau séu í lagi. Síðan ef fjármuni vantar þá mokum við þeim inn frá okkur úr happdrættum og fleiru inn á staðinn og leitum að fjármunum ef vantar meira. Við höfum aldrei nokkurn tímann tekið fjármuni þaðan út.“

Vísir miðvikudaginn 13. nóvember 2019