Verðlaunaður fyrir brautryðjendastarf

Vilmundur og Guðni

Vilmundur Guðnason læknir fær heiðursverðlaun Ásusjóðs

„Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu fyrir það sem ég hef verið að gera,“ segir Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, sem í gær hlaut heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright. Verðlaunin fær hann fyrir brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og erfðum þeirra.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin í gær við athöfn í Þjóðminjasafni Íslands. Verðlaunin eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Vilmundur hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar um 20 ára skeið og er einnig prófessor við læknadeild Háskóla Íslands með áherslu á erfðir hjarta- og æðasjúkdóma. Þá hefur hann verið gestavísindamaður við erlenda háskóla og stofnanir.

Skýrara ljós á áhættuþætti
Í tilkynningu um verðlaunaveitinguna kemur fram að Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi sjúkdómum, eins og hjarta- og æðasjúkdómum. Hann stýrir öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem byggist á eldri rannsóknum. Gögn úr þessum rannsóknum hafa meðal annars verið nýtt í alþjóðlegu samstarfi til þess að varpa skýrara ljósi á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Hefur hann í samstarfi við aðra birt fjölmargar vísindagreinar í þekktustu vísindatímaritum heims, meðal annars um áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.
Nýjustu rannsóknir Vilmundar tengjast ýmsum þáttum öldrunar.

Átt þátt í að breyta þekkingu
Vilmundur vill ekki taka einn þátt starfsins fram yfir aðra þegar hann er spurður hvað standi upp úr. „Almennt er það að hafa getað tekið þátt í að gera uppgötvanir sem hafa áhrif og jafnvel getað stuðlað að því að breyta læknisfræðilegri þekkingu,“ segir hann.

Morgunblaðið laugardaginn 7. desember 2019