Biðtíminn of langur

Biðtím­inn of lang­ur

• 13 af 16 aðgerðum með óviðunandi biðtíma • Bíða eftir hjartaaðgerð í 42 vikur • Eftirspurn eftir offituaðgerð eykst

Yfir 90% þeirra sem voru á biðlista eftir brennsluaðgerð á hjarta í byrjun október höfðu beðið lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð og miðgildi biðtíma á tímabilinu var 42 vikur.

Viðmiðunarmörk embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerð eru 90 dagar og er miðað við að 80% komist í aðgerð innan þess tíma.

Því er ljóst að bið eftir þessari tegund aðgerða, sem og fleiri aðgerða, er langt umfram viðmiðunarmörk um ásættanlegan biðtíma.

Þetta kemur fram í greinargerð embættis landlæknis um stöðu á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum.

Bið eftir fleiri aðgerðum er ekki ásættanleg, samkvæmt greinargerðinni, en af þeim 16 aðgerðum sem teknar eru fyrir í henni er biðin einungis ásættanleg í þremur tilfellum.

Athygli vekur að biðlistar á einkareknum stofum blikna verulega í samanburði við biðlista eftir aðgerðum á Landspítalanum.

Þær þrjár aðgerðir sem hafa verið hluti af biðlistaátaki, skurðaðgerðir á augasteini, valdar aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna og brottnám legs voru allar með bið sem var lengri en ásættanlegt er.

60% kvenna bíða of lengi
Biðlistar eftir skurðaðgerðum á augasteinum hafa þó styst verulega frá upphafi átaksins sem hófst árið 2016, þó höfðu 36% beðið lengur en í þrjá mánuði í byrjun október, 326 á Landspítala, þrír á Sjúkrahúsinu á Akureyri en enginn á LaserSjón.
Sex af hverjum 10 konum sem biðu eftir völdum aðgerðum á grindarholslíffærum sínum höfðu beðið lengur en í þrjá mánuði.

Fjórar af hverjum 10 konum á biðlista eftir legnámi höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Biðtími stórs hluta kvenna sem fóru í aðgerð á Landspítala á tímabilinu 1. október 2018 til 30. september 2019 var þó innan ásættanlegra marka, að því er fram kemur í skýrslunni.

Biðtími eftir skurðaðgerð á maga vegna offitu hefur aukist mikið þrátt fyrir að aðgerðum hafi fjölgað. 51% þeirra 140 sem biðu eftir slíkri aðgerð í byrjun október hafði beðið lengur en í þrjá mánuði. Í greinargerðinni er tekið fram að of feitum Íslendingum sé að fjölga og offita geti auk annarra fylgikvilla valdið álagi á liði og aukið þörf fyrir liðskipti.

Umfjöllun um liðskiptaaðgerðir var ekki hluti af greinargerðinni en umfjöllun um þær verður birt síðar.

Í opnu bréfi til heilbrigðisráðherra sem birtist í blaðinu í dag lýsir Kjartan Halldór Antonsson veruleika þeirra sem kljást við íslenska heilbrigðiskerfið í von um liðskipti.

Morgunblaðið föstudaginn 20. desember 2019